Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Augnablik gleður marga bæjarbúa
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 7. desember 2019 kl. 07:38

Augnablik gleður marga bæjarbúa

Augnablik er sérlega vinsæl rás í sjónvarpi sem aðeins áskrifendur Kapalvæðingar í Reykjanesbæ geta séð. Heyrst hefur af gömlum Keflvíkingum og Njarðvíkingum, íbúum bæjarins, sem sitja límdir við skjáinn á meðan þeir horfa á persónulegar myndir úr myndaalbúmi á rásinni og rifja upp í leiðinni fyrri tíma í bæjarfélaginu, einnig hafa þeir hjá Kapalvæðingu verið með myndbönd frá Viðari Oddgeirs heitnum og Guðmundi í Garði, Steinboga, til sýningar svo eitthvað fleira sé nefnt. Stundum er helgarþema, til dæmis Kanasjónvarpið eins og það var en þá fá áhorfendur að sjá gamla þætti eins og Bonanza eða Combat og fleiri þætti. Suðurnesja­magasín Víkurfrétta, nýjasti þátturinn rúllar einnig á Augnabliki viku í senn.

Við settumst niður með Erlingi Bjarnasyni, rekstrarstjóra Kapalvæðingar við Hafnargötu í Keflavík, spurðum hann út í sérstöðu fyrirtækisins og hvaða þýðingu hún hefur fyrir bæjarbúa Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjarskiptafyrirtæki í Reykjanesbæ sem keppir við risana

„Kapalvæðing er lítið svæðisbundið fjarskiptafyrirtæki, líkt og Vodafone, Síminn og Nova svo eitthvað sé nefnt en bara miklu minna í sniðum og miklu persónulegra fyrir vikið. Hingað geturðu komið til að kaupa áskrift að interneti og sjónvarpi og við þjónustum þig frá A til Ö. Við erum samt ekki í símadæminu, erum eingöngu með sjónvarp og internet sem við sendum út um ljósleiðara og Coax-tengingar innan bæjarmarka. Við höfum verið að leggja kapla í 25 ár. Reykjanesbær hefur til dæmis verið að leigja aðgang að ljósleiðaranum okkar í mörg ár. Á sínum tíma keyptum við kapalkerfið af Kadeco á Vellinum, eða Ásbrú eins og það heitir í dag, við vorum að hugsa til framtíðar og lögðum ljósleiðara í það kerfi sem allir íbúar að Ásbrú hafa nú aðgang að og geta fengið þjónustu okkar. Við erum einnig búnir að leggja ljósleiðara í mörg hverfi í Reykjanesbæ og ætlum okkur að veita okkar bestu gæði og þjónustu. Við höfum einnig haft mikinn áhuga að bæta inn jarðarförum og brúðkaupum og einnig barnamessu og guðsþjónustu en eigum bara eftir að klára þau mál,“ segir hann.

Augnablik tengir fólk saman

„Við erum með mjög vinsæla sjónvarpsrás sem sumir kalla bæjarrásina eða Víkurfréttarás því Kapalvæðing og Víkurfréttir voru með þessa rás á sínum tíma. Þarna erum við að sýna gömul myndaalbúm frá bæjarbúum og tímasetjum ljósmyndirnar nógu lengi þannig að fólk geti horft vel á alla myndina. Gamlir Keflvíkingar og Njarðvíkingar hafa gaman af þessu og við skreytum þessar gömlu myndir með viðeigandi sígildum íslenskum dægurlögum. Það passar svo vel við tíðarandann í ljósmyndunum. Gamlar ljósmyndir vekja upp góðar minningar og stundum fæ ég hringingar frá fólki úti í bæ sem spyr hvort það sé ekki að fara koma nýtt myndaalbúm. Við erum með samning við Byggðasafnið og höfum fengið myndir þaðan til sýninga á Augnablik og að auki fengið fullt af myndaalbúmum sem bæjarbúar hafa gefið okkur. Þá höfum við einnig fengið gefins úr dánarbúum, þetta er endalaust myndefni. Það má því segja að Augnablik sé rás sem tengir fólk saman,“ segir Elli Bjarna en það er hann oftast kallaður og segir okkur næst frá þemahelgunum sem Augnablik býður upp á.

„Þarna erum við að sýna gömul myndaalbúm frá bæjarbúum og tímasetjum ljósmyndirnar nógu lengi þannig að fólk geti horft vel á alla myndina. Gamlir Keflvíkingar og Njarðvíkingar hafa gaman af þessu og við skreytum þessar gömlu myndir með viðeigandi sígildum íslenskum dægurlögum. Það passar svo vel við tíðarandann í ljósmyndunum“

Rifja upp Kanasjónvarpið

„Á veturna erum við oft með þemahelgar og þá sýnum við gamlar, klassískar bíómyndir eða þætti úr Kanasjónvarpinu, sem margir kannast við frá því að AFRTS sjónvarpsstöðin var og hét og jafnvel fréttatíma frá herstöðinni sem var á Vellinum. Nokkrir vinsælir þættir fara þá í loftið eins og Bonanza, Lost in Space, Combat, Voyage to the Bottom of the Sea. Ég á meira að segja gömlu stillimyndina úr Kanasjónvarpinu. En í desember erum við með skemmtilegt jólaþema.“

Krakkar á glugganum okkar

Þeir sem aldir eru upp í Keflavík og Njarðvík muna vel eftir Kanaútvarpinu og -sjónvarpinu. Þá var hægt að horfa á sjónvarp sem byrjaði útsendingar á daginn sem var kannski ekkert allt of vinsælt fyrir foreldra keflvískra barna sem áttu að fara að læra strax eftir skóla. Langflestir íbúar Suðurnesja náðu að horfa á þetta sjónvarp frá Könunum og seinna gat höfuðborgarsvæðið einnig horft á það en svo var því lokað vegna vondra, erlendra áhrifa á íslenska tungu og þjóð. Þannig var forsjárhyggja yfirvalda í þá daga.

Elli Bjarna er alinn upp í Keflavík og rifjar lítillega upp lífið í bænum fyrr á árum.

„Fjölskylda mín var með þeim fyrstu sem fékk svart/hvítt sjónvarp eða í kringum 1960. Tækið var auðvitað keypt á Vellinum og smyglað út en þetta gerðu margir. Ég man að við þurftum að hafa straumbreyti við tækið því það var ekki sama rafmagn hér niður frá og á Vellinum. Þegar við kveiktum á sjónvarpinu í stofunni og settumst við tækið, þá voru einhverjir krakkar mættir á gluggana til að horfa á með okkur. Ég man eitt sinn þegar það voru tveir á glugganum og pabbi spurði hver væri á glugganum og þá hlupu þeir burt. Við vorum með þeim fyrstu sem fengum sjónvarp og það var sett loftnet á stromp hússins en það gaf til kynna að þarna innandyra væri sjónvarp. Fólk var almennt ekki með loftnet. Kaninn var með morgunsjónvarp um helgar, teiknimyndir sem gaman var að horfa á sem krakki. Lífið í bænum okkar var allt öðruvísi á þessum árum. Ég man að ég fékk stundum að fara upp á Völl en báðir foreldrar mínir unnu á Vellinum hjá Kananum. Þá fór maður í sælgætissjálfsala sem voru úti um allt upp frá og notaði íslenskan fimm aur því hann var af sömu stærð og 25 cent sem þurfti í sjálfsalann. Það var svo mikið úrval af nammi hjá Kananum á þeim tíma sem var ekki hjá okkur, ekkert nema örfáar tegundir af sælgæti á Íslandi og yfirleitt íslensk framleiðsla,“ segir Elli og brosir þegar hann rifjar upp skemmtilegar minningar.

„Ég kalla einnig eftir sjálfboðaliðum, einhverjum sem er kominn á eftirlaun, til að hjálpa okkur að skanna myndir inn í kerfið sem við megum nota og sýna. Það er auðvelt að læra þetta“

Hagstæð áskrift og góð þjónusta

Kapalvæðing er fyrirtæki sem starfar aðeins í Reykjanesbæ og á í samkeppni við stóru fjarskiptafyrirtækin en segist geta boðið betur og vera með persónulegri þjónustu en þau.

„Við erum með allar íslenskar stöðvar í bestu gæðum, erum með alla flóruna, fullt af efni í pakkanum frá okkur sem við bjóðum fólki á mun lægra verði. Bíómyndarásir, til dæmis gamlar, klassískar bíómyndir. Kapalvæðing er Suðurnesjafyrirtæki og við erum búnir að vera til í um 30 ár en Viðar Oddgeirsson, heitinn, startaði þessu. Við erum að keppa um sömu viðskiptavini og Nova, Síminn og Vodafone en erum með mjög gott verð á áskriftarpökkum okkar. Við gerum sérstaklega vel við eldri borgara, leggjum metnað okkar í það. Við fáum stundum að heyra frá fólki sem leggst inn á spítalann í Keflavík hvað þeir höfðu gaman af Augnablik-rásinni okkar. Fólk er einnig ánægt með þjónustu okkar og þannig viljum við hafa það. Bara velkomið að líta við og athuga hvað við getum gert fyrir ykkur.

Ég kalla einnig eftir sjálfboðaliðum, einhverjum sem er kominn á eftirlaun, til að hjálpa okkur að skanna myndir inn í kerfið sem við megum nota og sýna. Það er auðvelt að læra þetta. Það eru svo margir sem hafa gaman af Augnablik og mig vantar hendur til að hjálpa mér að koma fleiri gömlum ljósmyndum inn. Við köllum eftir einhverjum sem vill vinna með okkur í þessu, það væri ofboðslega gaman,“ segir Elli að lokum.