Auglýst eftir viðburðum á Menningarviku í Grindavík
Árleg Menningarvika í Grindavík verður að þessu sinni haldin 14. - 22. mars, í sjöunda sinn. Að þessu sinni verður hún með alþjóðlegu ívafi þar sem markmiðið er að sýna þá fjölbreyttu flóru mannlífs sem er í Grindavík.
Jafnframt verður settur á laggirnar fjölmenningarundirbúningshópur til að aðstoða við verkefnið. Þess má geta að vinabærinn Piteå ætlar að senda listafólk til Grindavíkur til að taka þátt í Menningarvikunni, bæði tónlistarfólk og listmálara. Þá mun bókasafnið vera með sérstaka fjölþjóðlega dagskrá.
Auglýst er eftir tilnefningum til Menningarverðlauna 2015 í netfangið [email protected].
Grindvíkingar, fyrirtæki, stofnanir, þjónustuaðilar og allir þeir sem hafa áhuga á menningu eru hvattir til þess að skipuleggja menningarviðburði í þessari skemmtilegu viku.
Til þess að komast í auglýsta dagskrá Menningarvikunnar þarf að senda upplýsingar um viðburðinn á [email protected], í síðasta lagi 25. febrúar nk.
Allar nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, í fyrrgreint netfang eða í síma 420-1100.