Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Auðvitað skemmir bongóblíða ekki fyrir
Sunnudagur 6. ágúst 2017 kl. 09:00

Auðvitað skemmir bongóblíða ekki fyrir

Hlynur Þór Valsson svarar verslunarmannahelgarspurningum VF

Hlynur Þór Valsson
 
Hvert á að fara um verslunarmannahelgina í ár?
Ég verð í sumarbústað tengdaforeldra minna á Öndverðarnesinu undir Ingólfsfjalli.
 
Með hverjum á að fara?
Ég, frúin og dóttir okkar, hún Bergrún Embla ,verðum þar með tengdó og fleiri fjölskyldumeðlimum. Svo eiga foreldrar mínir bústað steinsnar frá og því verður væntanlega eitthvað ráp á milli og almennur gestagangur.
 
Lætur þú veðurspá ráða því hvert á að fara um verslunarmannahelgina?
Alls ekki. Þetta snýst alfarið um að vera í góðum félagsskap, auðvitað skemmir bongóblíða ekki fyrir en gott spjall, góður matur og betri drykkir bæta upp hvað það svo sem veðurguðirnir ákveða að gera.
 
Hvert hefur þú farið um verslunarmannahelgi síðustu ár?
Við erum vanaföst og höfum við verið saman með fjölskyldunni í bústað tengdaforeldra minna síðastliðin ár.
 
Hvert hefur þú farið í ferðalög í sumar?
Við vorum sæmilega dugleg að leggja land undir fót þetta sumarið. Við byrjuðum í paradís, eða nánar tiltekið við Sellátra í Tálknafirði í boði Hobbitans Ólafs Þórs Ólafssonar og fjölskyldu hans. Þar vorum við dugleg að rúnta um suðurfirðina og njóta þeirrar einstöku fegurðar sem þar er.
Um miðjan júlí fórum við norður á Akureyri í nokkra daga áður en við brunuðum áfram á ættarmót Heiðarættarinnar á Þórshöfn á Langanesi. Virkilega gaman að koma þangað aftur eftir fjöldamörg ár.
 
Hvernig ferðalög ertu að stunda? Ferðu í sumarbústað eða í ferðavagna?
Eftir dvöl í kúlutjöldum á ótal tónleikahátíðum í gegnum tíðina þá kýs ég helst fjóra veggi, þak og almenn þægindi í dag. Við erum dugleg að kíkja í bústaðinn allt árið í kring en ég forðast tjaldferðalög eins og ég get. Samt er kominn pressa frá dóttur minni um fjölskyldu útilegu sem ég verð að bregðast við fyrr en seinna.
 
Hefur þú verið heppinn með veður á ferðalögum þínum í sumar?
Svo sannarlega, sólin lék við okkur fyrir vestan þann tíma sem við dvöldum þar. Við vorum reyndar viku of snemma fyrir norðan og misstum af Spánarblíðunni sem skall þar á með braki og bresti en veðrið var milt og hlýtt fyrir utan smá rigningarsudda á Þórshöfn.
Svo vita allir að Sólin er úr Sandgerði og ég get svarið það að hún er hjá okkur alla daga.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024