Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Auðvelt að verða vegan
Tinna segir auðvelt og ódýrt að viðhalda vegan lífstíl. Hún er hér meira að segja í vegan leðurjakka.
Miðvikudagur 21. desember 2016 kl. 04:00

Auðvelt að verða vegan

Gómsætar vegan uppskriftir fyrir jólin

Tinna Björg Hilmarsdóttir hefur síðasta árið aðhyllst vegan lífstílinn sem sífellt er að verða vinsælli. Keflvíkingurinn Tinna segir að alveg síðan hún man eftir sér hafi hún verið mikill dýravinur. Hún skildi aldrei þörfina hjá fólki til þess að drepa dýr, þau ættu eins mikinn rétt og við á því að lifa.

„Þó var ég alin upp við að halda að ég sem manneskja þyrfti að borða kjöt og dýraafurðir, líkt og flest okkar erum alin upp við. Mér þótti því alltaf mjög leiðinlegt að ég, verandi manneskja, þyrfti að borða dýrin því maðurinn var jú kjötæta, eða það hef ég alltaf haldið.“ Því varð Tinna virkilega spennt þegar hún frétti af „veganisma“ frá vinkonu sinni í maí í fyrra. „Það má segja að það hafi verið mikill léttir fyrir mig að kynnast þeim lífsstíl og mér líður í raun eins og þar hafi ég loksins fundið sjálfa mig.“ Tinna tók sér eina helgi til þess að kynna sér út á hvað vegansimi gengur. Hún horfði á heimildamyndir eins og Cowspiracy, Earthlings, Forks over knives, Vegucated og las heilan helling.
„Heilsufarsþættirnir og umhverfisáhrif dýraafurðariðnaðarins komu mér svakalega mikið á óvart. Þessi vegan heimildar-helgi gerði mig enn meira staðfasta í því að þetta væri lífsstíll sem ég þyrfti að tileinka mér og einnig lífsstíll sem ég þyrfti að kynna fyrir öðrum og fræða aðra um. Neysla okkar skiptir mun meira máli fyrir jörðina okkar en fólk almennt gerir sér grein fyrir og kemur okkur því öllum við,“ segir Tinna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gerðist vegan á einum degi

Það tók Tinnu aðeins einn dag að leggja dýraafurðir til hliðar. Það kom henni sjálfri mikið á óvart hvað það reyndist auðvelt. „Helgina á undan var ég líka dugleg að afla mér upplýsinga um hvað fólk er að fá sér í staðinn fyrir dýraafurðirnar. Ég komst að því að til er vegan útfærsla af nánast öllum dýraafurðum og því minnsta mál að skipta því bara út. Ég er ekki mikill kokkur og því hélt ég að þetta yrði mikið mál, en komst svo að því að það þarf alls ekki að vera erfitt. Það er mikið til af tilbúnum og bragðgóðum vegan vörum sem maður skellir bara í ofninn og lítið mál að græja meðlæti með. Vegan mataræðið er svo mikið fjölbreyttara en ég bjóst við. Ég hélt fyrst að ég myndi bara lifa á grænmeti og ávöxtum en áttaði mig svo á að plönturíkið er mikið stærra og fjölbreyttara en svo. Þetta ár er líka búið að vera svakalega magnað hvað varðar aukið úrval af vegan vörum í matvöruverslunum sem hafa aukið úrval sitt mjög mikið á því rúma ári sem ég hef verið vegan. Ég bjóst líka við því að það yrði dýrara að kaupa vegan kjötvörur en hef svo tekið eftir því að ég eyði minna í mat en ég gerði áður.“

Fjölskyldan hrifin af hnetusteik

Fyrstu vegan-jól Tinnu í fyrra tókust vel. Hún ákvað að fara auðveldu leiðina að jólamatnum og keypti sér hnetusteik og sveppasósu hjá Sollu í Gló. „Hnetusteikin kom fjölskyldu minni skemmtilega á óvart. Fjölskyldan mín og nánasti vinahópur hefur að öllu jöfnu sýnt mér mikinn stuðning og skilning hvað varðar þessa lífsstílsbreytingu, enda kom það engum á óvart að Tinna dýrahippi myndi ákveða að hætta neyslu dýraafurða,“ segir hún létt í bragði.

Erfitt að horfa upp á allt kjötátið

„Það má segja að það helsta sem mér þykir erfitt í kringum jólahátíðina er að horfa upp á fólkið í kringum mig borða kjöt, og svona mikið magn af því. Sumir hafa spurt mig hvort það sé ekki erfitt vegna þess að ég „get ekki“ borðað hangikjötið eða hamborgarhrygginn, sem mér þótti vissulega bragðgott áður, en ástæðan er þvert á móti sú að ég sé ekki mat lengur þegar ég sé kjöt heldur er ég mjög meðvituð um að kjötið komi af dýri sem vildi lifa en missti líf sitt fyrir máltíðina og það þykir mér erfitt að horfa upp á fólkið mitt styrkja þegar engin þörf er á slíku lengur.“

Fordómar í garð vegan fólks

Hvernig finnst þér fólk bregðast við þeim sem eru vegan?
„Ég hef fundið fyrir miklum fordómum og í raun reiði og pirringi í garð vegan fólks, bæði gagnvart mér sjálfri og öðrum. Þó aðalega í gegnum samskiptamiðla eins og Facebook og í kommentakerfum vefmiðla. Það er sjaldan sem ég hef fundið það í eigin persónu en það hefur samt komið fyrir. Vegan fólki finnst siðferðislega rangt að nota dýr til manneldis, í fatnað, til afþreyingar eða nota þau á nokkurn annan hátt þegar engin þörf er á því lengur í nútíma samfélagi og vissulega finnst manni óþægilegt þegar hópi fólks finnst eitthvað siðferðislega rangt við lífstílinn manns. Þetta skapar oft mikla spennu á milli fólks. Þessi spenna getur þó verið jákvæð þar sem í kjölfarið koma upp tækifæri á málefnalegum umræðum og fræðslu ef báðir aðilar eru tilbúnir til að ræða sín á milli með opnum hug, en það getur stundum reynst erfitt.“

„Veganisminn er lífsstíll sem snýst um það að valda sem minnstum skaða gagnvart dýrum, jörðinni og heilsunni okkar. Veganar eru fólk sem vill láta gott af sér leiða með sínum lífsstíl og eru að taka mjög upplýstar ákvarðanir hvað varðar neyslu sína, reiði í garð vegana virðist aðalega vera vegna skilningsleysis og skorts á fræðslu en með aukinni umræðu og vitundarvakningu í samfélaginu tel ég það smám saman vera að lagast.“

Tinna situr í stjórn samtaka sem kallast Aktívegan. Helsta markmið samtakanna er að vekja fólk til umhugsunar um það hvaðan dýraafurðirnar koma og hvaða afleiðingar sú framleiðsla hefur í för með sér fyrir dýrin, jörðina og heilsu okkar. „Ég tel mjög mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að dýrin sem notuð eru til að framleiða þessar afurðir upplifa sömu grunn tilfinningar og gæludýrin okkar og jafnvel mennirnir, bæði andlega og líkamlega. Þessi dýr verða hrædd, einmanna, kvíðin, glöð, þau elska, finna fyrir sársauka og vilja lifa frjáls rétt eins og önnur dýr. Íslenskt þjóðfélag hefur reitt sig mikið á bændur og sjómenn þegar það kemur að framleiðslu matvæla, en núna er að koma í ljós að slík framleiðsla er skaðleg jörðinni okkar, neysla þessara matvæla ekki eins góð heilsu okkar og áður var haldið ásamt því að fólk er að verða meira meðvitað um tilfinningalíf dýranna í þeim iðnaði og farið að líta gagnrýnum augum á siðferði þess að halda slíkri framleiðslu áfram núna þegar við þurfum þess ekki lengur. Við í Aktívegan viljum hjálpa fólki að ná tengingunni á milli dýranna og afurðanna sem koma frá þeim, að fólk geri sér betur grein fyrir því hvað dýrin þurfa að ganga í gegnum innan þessa iðnaðar fyrir þessar vörur. Það eru margir sem gera sér til dæmis ekki grein fyrir því að kýr þarf að fæða og missa kálf stuttu eftir fæðingu svo að fólk geti drukkið kúamjólk, mjólk sem var einungis framleidd fyrir kálfinn og við mennirnir höfum enga þörf fyrir frekar en hundamjólk. Enn færri sem átta sig á því að karlkyns ungar sem fæðast inn í eggja iðnaðinn missa líf sitt stuttu eftir fæðingu, eru gasaðir eða hakkaðir til dauða, þar sem engin not eru fyrir þá í þeim iðnaði bara svo eitthvað sé nefnt. Það er ótrúlega margt sem fólk almennt gerir sér ekki grein fyrir hvað það er að styrkja og þar sem dýrin geta ekki sagt frá því og beðið fólk að breyta neysluvenjum sínum þá tökum við það erfiða, en mikilvæga, verkefni að okkur.“



Vegan-jól uppskriftir
 

Forréttur – Villisveppasúpa (Fengin af heimasíðunni veganistur.is)

Innihald:
·       100 gr vegan smjör (Fæst í Hagkaup og heitir Earth Balance)
·       1/2 til 1 laukur
·       200 gr frosin villisveppablanda
·       250 (1 pakki) sveppir
·       hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)
·       1 til 2 greinar ferskt timian
·       1 tsk þurrkað timian
·       salt og pipar
·       1 sveppateningur
·       1 til 2 tsk grænmetiskraftur
·       250 ml vatn
·       750 ml Oatly haframjólk (Oatly vörurnar fást í Krónunni)
·       500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi
Aðferð:
1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.
2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða í u.þ.b. 15 mínútur.
3. Nýtið tímann á meðan til að sjóða vatn í katli eða í öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum.
4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist upp úr. Hellið blöndunni hægt út í og hrærið vel í á meðan.
5. Hellið grænmetissoðinu út í, 50 ml í einu, og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpunni. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni út í.
6. Látið súpuna malla í 15 til 20 mínútur áður en rjóminn fer út í.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort meira vanti af kryddi.
7. Hellið hafrarjómanum út í, látið suðuna að koma upp, slökkvið undir og berið fram.
8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum til dæmis oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann út í þar til hún er hituð upp rétt áður en á að borða hana.
9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef fólk vill en við kjósum að gera það ekki.

Aðalréttur



Steik frá Field Roast með sveppasósu, fylltum sveppum og sætkartöflumús (fengið af thebrokevegans.wordpress.com)
Steikin er elduð í ofni eftir leiðbeiningum á pakkanum. Hún fæst frosin í Hagkaup í ýmsum gerðum en Smokey Forager‘s Roast finnst mér mjög góð.
Fylltir sveppir hráefni:
15 stórir sveppir
Fylling:
230 gr kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 1 klukkutstund
2 hvítlauksgeirar
1 msk sítrónusafi
1 msk dijon sinnep
220 ml basilikulauf (ekki þjöppuð)
3 msk næringarger
1 tsk salt og pipar
1/2 tsk laukduft (onion powder)
1/2 dl vatn
Fylltir sveppir aðferð
Skerið stilkana af sveppunum (ekki henda þeim, þið notið þá í sósuna) svo það myndist holrúm í þeim og leggið til hliðar á bakka.
Takið fram matvinnsluvélina og setjið kasjúhneturnar í.
Bætið við hráefninu í fyllinguna, vatnið síðast og hellið vatninu hægt og rólega út í á meðan matvinnsluvélin er í gangi.
Þegar fyllingin er orðin frekar mjúk þá setjið hana ofan í sveppina.
Best er að grilla sveppina stutt á miðlungshita en hægt að setja í ofn á grillstillingu í smá tíma og þeir verða tilbúnir þegar fyllingin er orðin aðeins brún ofan á.

Sveppasósa hráefni:
400-560 ml kókosmjólk
2 1/2 dl kasjúhnetur
2 msk næringarger
1/2 tsk hvítlaukskrydd
1 tsk reykt paprikukrydd
salt og pipar eftir smekk
basilikukrydd eftir smekk*má sleppa
1/2 saxaður laukur
2-3 dropar af tabasco
6-8 litlir sveppir og stilkarnir sem ekki voru notaðir þegar verið var að gera fylltu sveppina.
1 sveppateningur
Hvítlauksolía við steikingu á sveppunum.
Sveppasósa aðferð:
Byrjið á því að saxa sveppina og laukinn og steikja á pönnu upp úr hvítlauksolíu, bætið salti og pipar við.
Hellið 400ml af kókosmjólkinni í blandara, takið vatnið af kasjúhnetunum og bætið þeim í blandarann með kókósmjólkinni, blandið vel þar til engir kögglar eru eftir.
Setjið kókosmjólkina í pott með blönduðu kasjúhnetunum og bætið öllum kryddunum við, sveppateningnum og tabasco sósunni.
Sveppunum og lauknum bætt út í og látið malla, mjög gott að setja olíuna frá steikingunni með í sósuna.
Ef sósan er of þykk, þá er gott að bæta 160 ml sem eftir er af kókosmjólkinni og/eða þynna með smá vatni.
Smakkið til og kryddið meira ef ykkur finnst vanta. Mér fannst mjög gott að bæta smá rifsberjasultu í sósuna en það er algjört smekksatriði.
Sætkartöflumús hráefni og aðferð:

2 miðlungs stórar sætar kartöflur
1 dl sæt sojamjólk
Skerið sætu kartöflurnar, takið hýðið af og sjóðið.
Þegar þær eru tilbúnar þá stappið þær vel og vandlega með kartöflustöppu og bætið sojamjólkinni hægt við, ekki setja alla mjólkina í einu. Það fer eftir stærð kartaflanna hvað þarf mikið svo þið verðið að meta það sjálf.
Salt og sykur eftir smekk en farið varlega með sykurinn þar sem sojamjólkin er sæt fyrir.


Eftirréttur – Gómsætur vegan ís
Eftirrétturinn er hreinlega bara keyptur út í búð. Mikið úrval er til af vegan ís, til dæmis í Hagkaup og Krónunni. Mínir uppáhalds ísframleiðendur eru Coconut Bliss og Ben&Jerry‘s, og þá er ég að sjálfsögðu að tala um vegan ísinn þeirra.