Atvinnumaður í póker segist hafa spilað fótbolta með Keflavík
Vefsíðan pokerstatic.com birtir ansi áhugavert viðtal við atvinnupókerspilarann Niman Kenkre, sem gengur undir nafninu Samoleus. Í upphafi viðtalsins segir hann sögu af því þegar hann kom til Íslands og varð fyrir tilviljun leikmaður fótboltaliðs Keflavíkur í efstu deild hér á landi.
Hann segist hafa fengið að vera með á æfingu fyrir tilviljun árið 1997 og í kjölfarið verið boðinn eins árs samningur hjá liðinu þar sem hann fékk nóg borgað. Ástæðan fyrir því að hann hafi aðeins verið í eitt ár var hinsvegar að hann brotnaði á sjö stöðum í öklanum og hafi því þurft að hætta.
„Einhver dúddi að lýsa því þegar hann lék með Keflavík í fótbolta ´97. Skemmtileg saga. Man ekki eftir að hafa séð hann þetta ár, eða bara ever, ef útí það er farið,“ segir Guðmundur Steinarsson, leikmaður Keflavíkur, á fésbókarsíðu sinni.
Það sem er athyglisverðast við söguna er að Keflvíkingar kannast ekkert við manninn og enginn erlendur leikmaður lék með Keflavík árið 1997. Þessi saga hans virðist því algjörlega uppspuni frá rótum.
Okkur áskotnaðist þessi mynd af kappanum með húfu með íslenska fánanum.