Áttu von á barni?
Að eignast barn er lífsins gjöf og merkilegasta lífsreynslan er vafalaust að halda á nýfæddu barni sínu. Þegar kona gengur með barn þá skiptir öllu máli að hún umgangist gott fólk, lifi heilbrigðu lífi og eigi jákvæð samskipti við alla í kringum sig.
Margar konur eru sérlega viðkvæmar á meðgöngu, kvenhormón flæða í miklum mæli í líkamanum og þær geta verið viðkvæmar yfir öllu og engu. Bara það að horfa á fallega bíómynd eða heyra falleg orð, getur snert þær svo djúpt, að þær hágráta. Stundum erfitt fyrir karlmenn að skilja þetta!
Sumar konur verða voða hressar og kátar á meðgöngu og líður rosavel. Aðrar eru kvíðnar og hræðast fæðinguna sjálfa. Enn aðrar hugsa ekkert um óléttuna og sinna sér áfram eins og þær gerðu áður, bæði líkamlega og andlega. Langflestar fara þó að hugsa betur um hvað þær borða á meðgöngunni, hreyfa sig létt, stunda jafnvel meðgöngujóga og læra slökun til að undirbúa góða fæðingu. Sumar setjast við að prjóna eða lesa sér til um fóstur og verðandi móðurhlutverk. Meðganga getur verið spennandi tímabil og lærdómsríkt.
Vanfær kona getur líka breyst í algjört skass á meðgöngu og orðið hin mesta óhemja, sem þolir engan nálægt sér. Oftast valda hormónar þessu ásamt breytingum á líkamlegri og félagslegri upplifun konunnar. Þetta ástand rjátlar yfirleitt af konunni, þegar hún fæðir barnið og jafnvel mun fyrr.
Geðsveiflur eru þó eðlilegar eftir fæðingu. En auðvitað er hægt að hafa góð áhrif á andlega líðan með heilbrigðu mataræði.
Makinn þarf að hafa sig allan við, til að skilja konuna á meðan hún ber barn undir belti. Feður fá í dag, að taka miklu meiri þátt í fæðingarferlinu en þeir gerðu áður fyrr og eru meira með í því sem skiptir máli.
Ekki má gleyma að minnast á nýja kynslóð foreldra, þar sem foreldrar af sama kyni ala upp barnið saman.Umburðarlyndi er væntanlega lykilorð framtíðar, því öll erum við einstök og viljum vera elskuð eins og við erum.
Barn opnar fyrir nýja vídd í öllum samböndum og getur tengt parið nánari böndum.
Móðir ljóssins
Góð og örugg fæðingardeild skiptir okkur öll miklu máli. Ljósmæður nefnast þær, sem taka á móti börnunum okkar. Fallegt orð á íslensku, að vera móðir ljóssins, fyrsta ljósið sem barnið sér þegar það kemur í heiminn, það er ljósmóðirin sjálf.
Fólkið sem starfar í kringum fæðingu barns þarf að vera dugmikið fagfólk, sjálfsöruggt og með voða hlýtt hjarta. Það vitum við sem höfum prófað að eignast barn.
Sólveig Þórðardóttir ljósmóðir er ein þessara eftirminnilegu kvenna, sem lagt hafa líf sitt í að sinna fæðingum og hjúkra fólki. Hún hefur tekið á móti mörgum einstaklingum héðan af svæðinu. Hún byrjaði ung sem gangastúlka á Sjúkrahúsinu í Keflavík, var aðeins 16 ára þegar hún var viðstödd fæðingu á sjúkrahúsinu.
„Ég er mikil hvatning fyrir allar konur, sem dreymir um að læra eitthvað og láta drauma sína rætast. Ég byrjaði ung á spítalanum og vann þar í mörg ár áður en ég ákvað að læra ljósmóðurina. Í gamla daga vorum við gangastúlkurnar látnar í allt, við gengum í öll verk. Þá lærði maður þetta bara. Ég held ég hafi prófað allt nema að skera upp fólk. Það bjó alltaf í mér að verða ljósmóðir. Ég var orðin fimm barna móðir 25 ára en ég ákvað um þrítugt að fara í undirbúningsnám fyrir hvatningarorð mannsins míns en ég hafði ekki lokið gagnfræðaprófi. Hann hvatti mig til að láta draum minn rætast. Ég hélt ég væri svo vitlaus og gæti ekki lært en þegar ég fór að sinna þessu, þá sá ég, að ég gat vel lært. Barnauppeldi og húsmóðurstörf eru svoddan reynsluskóli og það kom á daginn í mínu tilfelli, því mér gekk mjög vel“, segir Sólveig mjúklegri röddu.
Sólveig er ein af þessum hlýju konum, sem voða gott var að hafa í kringum sig á fæðingardeildinni en hún er hætt að vinna sem ljósmóðir. Hún þróaði samt ásamt samstarfsfólki sínu fæðingardeildina í Keflavík, sem hefur ávallt verið talin flaggskip allra fæðingardeilda á landinu. Hún kynntist byltingarkenndum hugmyndum í Svíþjóð og innleiddi þær á íslenskan hátt ásamt starfsfólki sínu og Konráð Lúðvíkssyni, fæðingarlækni, sem var mjög opinn fyrir nýjungum á sviði fæðingarhjálpar. Margir fleiri áttu þátt í því að gera fæðingardeildina að þessari fyrirmyndardeild, sem hún er ennþá.
„Konráð var sérstaklega opinn fyrir því að við ljósmæðurnar fengjum að þróa okkar ljósmæðrahjörtu, sem var mjög gott. Hver kona þarf sína virðingu og alúð þegar hún fæðir og gengur með barn. Án umhyggju er starfsfólk fæðingardeildar ekki faglega fært, því umhyggjan er undirstaðan. Vellíðan móður á meðgöngu skiptir svo miklu máli fyrir vellíðan barnsins. Rannsóknir sýna þetta og líka tækin sem mæla líðan barnsins í móðurkviði. Fóstrin fæðast minni ef kvíði og ótti þjakar konu á meðgöngu. Barnið upplifir sömu tilfinningar og móðirin. Þess vegna er áríðandi að verðandi móður líði vel tilfinningalega. Mataræði skiptir einnig gríðarlega miklu máli, barnið nærist vel ef móðirin nærist vel. Hjartsláttargreining og fleiri tæki mæla líðan fóstursins en þessi tæki sýna að barninu líður vel ef það er kyrrð og ró innra með verðandi móður. Góð tengsl við föður barnsins er einnig mikilvægt. Faðirinn er mjög áríðandi í fæðingu barnsins,“ segir Sólveig.
Allar fæðingardeildir landsins eiga að hafa allt til alls og alls enga opinbera niðurskurði. Þetta eru í raun heilagar stofnanir, sem eiga aldrei að mæta afgangi hjá yfirvöldum, heldur vera vel búnar og vel mannaðar. Þarna er upphaf þjóðarinnar, þarna fæðist hún!
„Fæðingarþjónustan þarf að vera í sátt við samfélagið,“ segir Sólveig. „Þar held ég að okkur hafi tekist vel til. Við Guðrún Guðbjartsdóttir ljósmóðir, beittum okkur fyrir stofnun á félaginu Börnin og við, sem starfrækt var hér á Suðurnesjum í mörg ár. Þetta var mjög merkilegur félagsskapur mæðra, sem studdu hver aðra í brjóstagjöf. Þær fræddust um brjóstagjöf, studdu nýjar mæður og fræddust einnig um þroska barna. Það væri gagnlegt ef hliðstætt félag væri til í dag,“ segir hún.
Mannlegur þáttur í fæðingarþjónustu
Fæðingardeildin í Reykjanesbæ á sér fyrirmynd í Ystad í Svíþjóð en þar er skipulag og starfshættir í samræmi við hugmyndir franska fæðingarlæknisins Michael Odent um náttúrulegar fæðingar í hlýju og heimilislegu umhverfi. Gamla Fæðingarheimili Reykjavíkur, sem nú er aflagt, var einnig að einhverju leyti fyrirmynd.
Skrýtið að Fæðingarheimilið hafi verið lagt af, því ekki hættu börnin að fæðast en einhvern skilning hefur skort hjá ríkisvaldinu? Þarna hefðu þingkonur mátt berjast betur og taka stöðu með kynsystrum sínum, dætrum og barnabörnum.
Foreldranámskeiðin eru þýðingarmikill þáttur í fæðingarundirbúningi í dag. Ljósmæður halda námskeiðin og eru virkar með í fæðingarundirbúningi. Með því skapast tengsl á milli verðandi foreldra og ljósmæðra. Meginhugmyndin er sú að móðirin sé virkur þátttakandi í fæðingunni og ráði sjálf hvernig hún vill fæða ef allt er eðlilegt í meðgöngunni. Mikið er lagt upp úr hinni náttúrulegu hlið fæðingar og þá miðast allt við öryggi móður og barns.
Pabbar velkomnir!
„Við vorum fyrstar til að opna fæðingardeildina fyrir feðrum á sínum tíma og Reykjavík kom svo á eftir okkur með þessa innleiðingu. Við sem störfum á fæðingardeild gerum þó ekkert ein, það þarf alltaf gott fólk og stuðning frá stjórn spítalans. Okkur fannst vanta að hafa feðurna með í öllu fæðingarferlinu. Nú mega þeir gista hjá nýbakaðri móður og barni sínu. Undanfarin ár hefur fæðingardeildin vaxið í þá átt, að ef konur eru frískar, þá geta þær farið fljótt heim eftir fæðingu. Mörgum líkar það vel. Það er mjög mikilvægt fyrir nýorðnar mæður þó að passa orkuna sína eftir heimkomuna, hvílast vel og nærast vel.
Mikil áhersla er lögð á stuðning feðra við móðurina þegar heim er komið. Feðraorlof var einnig fyrst innleitt hjá starfsmönnum Reykjanesbæjar hér á árum áður. Það vorum við konurnar, sem sátum í bæjarstjórn þá, sem komum þessu á og varð til eftirbreytni á landsvísu,“ segir Sólveig sposk á svip. En Sólveig sat eitt kjörtímabil í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og lagði þar til, ásamt Jónínu Sanders og fleiri konum í bæjarstjórn, að karlmenn fengju feðraorlof svo þeir gætu verið í fríi og stutt við eiginkonur sínar og nýfædd börn.
Sólveig segist enn fá fiðring þegar hún sér nýfætt barn því ljósmóðurstarfið var henni mjög kært.
Hugræn atferlismeðferð fyrir alla
En fleira fæst hún við og lætur ekki aldurinn aftra sér frá því að læra meira. Það stoppar ekkert Sólveigu og núna hefur hún opnað viðtalsstofu hér í Keflavík á efri hæð Heilsuhússins á Hringbraut. Hún heldur áfram að hjálpa fólki og láta gott af sér leiða.
„Já, ég fór að læra Hugræna atferlismeðferð hjá Endurmenntun HÍ en það er mjög gott stuðningsverkfæri við fólk sem á erfitt andlega. Það er alltaf gott að leita í hlutlausan aðila, sem getur boðið upp á andlegan stuðning í lífsins ólgusjó. Til mín leitar fólk sem þarf að létta á sér andlega, sjá lífsins verkefni í öðru ljósi og opna fyrir eigin lækningu. Þegar ég fór að læra þessa meðferð, var ég fyrst og fremst að hugsa um þær, sem upplifa þunglyndi eftir fæðingu eða barnsmissi og einnig þær, sem upplifa sorg vegna fæðingu barns með þroskahömlun. Ég hef þróað námskeið fyrir konur eftir barnsburð og fékk til liðs við mig Hrund Sigurðardóttur sálfræðing í geðteymi HSS (Heilbrigðisstofnun Suðurnesja) en þar eru mjög góðir hlutir að gerast. Fyrst vorum við að vinna með nýjar mæður en núna er þessi aðstoð að þróast yfir í alla, sem þurfa að byggja sig upp andlega, bæði karla og konur.
Stundum upplifa mæður þunglyndi eftir erfiða fæðingu og aðrar upplifa jafnvel áfallastreituröskun, sem er náttúrulega þyngsta högg í tilfinningum. Þær sem missa fóstur þurfa einnig mjög góðan stuðning. Manneskjan er tilfinningavera og undirstaða góðs lífs er heilbrigt tilfinningalíf. Vísindin og hið manneskjulega þurfa að mætast meira í þessu tilliti í framtíðinni,“ segir Sólveig sannfærandi.
Sólveig hefur einnig lært dáleiðslumeðferð, sem byggist á Hypno Birthing og tekur utan um hugsjónir hennar, segir hún og er einstaklega falleg nálgun við fæðingu. Sólveig heldur námskeið reglulega í þessari slökunardáleiðslumeðferð fyrir hópa.
Þegar Hypno Birthing aðferð er beitt þá fjölgar eðlilegum fæðingum án inngripa. Ró og slökun er undirstaða góðrar fæðingar. Það er ótti sem veldur verkjum í fæðingu. Verðandi móðir þarf að huga vel að þessum þætti á meðgöngu, veita sér rólegar stundir, læra að slaka á, lesa uppbyggilegar bækur og temja sér jákvæða og fallega hugsun. Búast við hinu besta. Tala við barnið sitt. Spila fallega tónlist. Lesa jafnvel fyrir barnið sitt. Barnið er jú lifandi einstaklingur innra með móðurinni. Fá barnið í lið með sér svo að fæðingin gangi vel. Undirbúa sig og barnið fyrir fæðingarstundina. Hafa maka sinn með í ferlinu, vera sátt og vera saman um þessa lífsins gjöf.
„Konur þurfa ekki að vera hræddar við að fæða barn, því innst inni kunna þær að fæða“, segir Sólveig. „Þær eiga að treysta ljósmóður sinni því hún kann þetta vel. Hún hefur gert þetta svo oft áður. Fæðandi kona þarf að rækta með sér trú og traust, sjá að allt fari vel og finna það fara vel. Nota hugann á uppbyggilegan hátt. Vera jákvæð. Treysta. Um leið og fæðandi kona treystir því að fæðingin verði eðlileg, þá slaka allir vöðvar líkamans hennar á og allt gengur miklu betur. Það er svo náttúrulegt að fæða barn!“