Átti yndislegt sumar
Inga Lára Jónsdóttir, útibússtjóri Securitas
Hvernig varðir þú sumarfríinu? Ég átti yndislegt sumar sem einkenndist af allskonar hreyfingu með mínu allra besta fólki. Ég fór í mjög skemmtilega veiðiferð með stórfjölskyldunni þar sem aflinn var góður og veðrið upp á tíu. Fór í dásamlegt brúðkaup í byrjun sumars. Ég tók mín fyrstu skref á golfvellinum. Dró fram takkaskóna á Pollamótinu á Akureyri í júlí með topp samherjum og urðum við næstum því Pollameistarar (gott silfur gulli betra). Fór í þriggja daga gönguferð með frábærum stelpum í Kerlingarfjöll sem var eintóm gleði frá morgni til kvölds. Við fjölskyldan eyddum síðan mörgum dögum í sveitinni okkar rétt fyrir utan Laugarvatn, núllstilltum okkur fyrir haustið og erum núna tilbúin í öll þau krefjandi verkefni sem bíða okkur.
Hvað stóð upp úr? Samveran stóð klárlega upp úr, það er svo nærandi að njóta samverunnar með fólkinu sem manni þykir vænst um.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar? Það sem kom mér skemmtilega á óvart var að það er oftast virkilega gaman að spila golf, ég var mjög hrædd um að keppnisskapið færi alveg með mig.
Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands? Mér líður alltaf rosalega vel í sveitinni, þar næ ég að kúpla mig út og hlaða batteríin. Einnig verð ég að nefna hálendi Íslands, ég hef farið í nokkra mismunandi göngur síðustu ár um hálendið og það er algjörlega ólýsanlegt hvað við eigum fallegt land.
Hvað ætlar þú að gera í vetur? Ég ætla halda áfram að njóta lífsins, margt skemmtilegt á döfinni hjá okkur. Meðal annars brúðkaup hjá mágkonu minni og svila, veiðiferð og íþróttamót hjá strákunum mínum. Ég hlakka líka til eftir annasamt sumar að eiga notalegar helgar heima með fjölskyldunni. Einnig ætla ég mér að nýta veturinn vel í vinnunni minn og ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér þar.
Hvernig finnst þér Ljósanótt? Mér finnst virkilega gaman á Ljósanótt og bíð alltaf spennt eftir þessari viku.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt? Ég reyni að taka sem mestan þátt í hátíðinni og vil helst ekki missa af neinu. Ég ætla að kíkja á sem flestar sýningar, tónleika, leiktækin með strákunum mínum, árgangagönguna, opið hús hjá siglingafélaginu, mögulega kem ég aðeins við á skemmtistöðunum og margt fleira.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt? Góða veðrið á Ljósanótt 2022, nú hljóma ég eins og sannur Íslendingur. En að öllu gríni slepptu þá á ég margar góðar minningar frá Ljósanótt og engin ein sérstök sem stendur upp úr.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf? Já það hafa skapast nokkrar hefðir hjá mér í gegnum tíðina í kringum Ljósanótt, auðvita hafa þær aðeins breyst með hækkandi aldri og tilkomu strákanna minna. Ég hef þó alltaf haldið í þá hefð að fara niður í bæ með vinkonum mínum á fimmtudagskvöldið sem mér finnst alveg ómissandi og einnig hittumst við stórfjölskyldan á laugardeginum og borðum saman súpu áður en við röltum niður í bæ. Við hjónin höfum líka verið duglega að sækja Heimatónleikana síðustu ár. Gleðilega Ljósanótt!