ATP með bestu tónlistarhátíðum í Evrópu
Að mati The Guardian og Consequence of Sound.
Breska blaðið The Guardian hefur sett tónlistarhátíðina ATP, sem fram fer á Ásbrú 10.-12. júlí, á lista yfir bestu tónlistarhátíðir í Evrópu. Þá valdi tónlistarsíðan Consequence of Sound ATP á Ásbrú eina af 10 bestu tónlistarhátíðum sumarsins líka og var ATP í 7. sæti þar. Á báðum þessum listum eru taldar upp einar stærstu hátíðir Evrópu s.s. Hróarskelda, Glastonbury, Sónar, Primavera o.fl.
Tómas Young, stjórnandi ATP tónlistarhátíðarinnar, er að vonum hæstánægður með þessa jákvæðu athygli sem hún fær. „Ekki slæmt að Reykjanesbær eigi hátíð á þessum listum með hátíðum á borð við þessar,“ segir Tómas í samtali við Víkurfréttir.