Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Athafnamaðurinn Eddi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 25. desember 2023 kl. 06:10

Athafnamaðurinn Eddi

Eðvard Júlíusson fagnaði nýlega níutíu ára afmæli.
Byrjaði snemma á sjó og rak útgerðarfyrirtækið Hópsnes á fjórða áratug.
Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur og sinnti bæjarmálum í tólf ár.
Stofnun Bláa lónsins eftirminnileg sem og baráttan í þorskastríðinu við Breta.

Eddi, eins og hann verður kallaður í þessu viðtali, er stór karakter í sjávarútvegsbænum Grindavík en þar hefur hann alið manninn síðan um tvítugt þegar hann fluttist þangað að norðan. Hann fór snemma á sjóinn, gerðist skipstjóri og síðar farsæll útgerðarmaður. Eddi var í síldarútvegsnefnd, sat í bæjarstjórn Grindavíkur í tólf ár, m.a. sem forseti bæjarstjórnar og hefur undanfarin ár leikið golf þegar færi gefst til, ef ekki í Grindavík þá erlendis. Hann fagnaði 90 ára afmæli í september og er hvergi af baki dottinn.

Blaðamaður hitti Edda heima hjá honum í Grindavík, þremur vikum eftir að jarðhræringarnar áttu sér stað. „Auðvitað fer þetta ekki vel í mann, það er ekki gaman að vera upp á aðra kominn, að gerast heimilismaður hjá öðrum, þó svo að það séu börnin manns. Ég var staddur hér heima hjá mér þegar allt lék á reiðiskjálfi og yfirgaf húsið um sexleytið. Þetta voru ekki neinir venjulegir jarðskjálftar, þeir voru beint undir fótum manns og lætin voru svakaleg. Ég tók rakdótið mitt og fór til Kristínar dóttur minnar í Garðabæ og ætlaði mér að koma aftur heim daginn eftir. Ég mun snúa aftur til Grindavíkur þegar þessu ástandi lýkur, það er ekki nokkur spurning í mínum huga.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Eddi og Elín ásamt börnum sínum, frá vinstri: Sigmar, Kristín og Alexander.

Frá Dalvík til Grindavíkur

Eddi var um tvítugt þegar hann flutti til Grindavíkur en hann er frá Dalvík og bjó þar fyrstu árin, eða þar til hann var orðinn sextán ára þegar fjölskyldan flutti til Akureyrar. Sjómennska átti hug hans og hann vissi snemma hvaða slóð hann myndi feta. „Það var gott að alast upp á Dalvík, sjómennska var aðal lifibrauðið auk þess sem margir bændur bjuggu í sveitunum í kring. Þarna var kaupfélag sem sinnti bændunum en sjávarútvegurinn var samt aðalmálið. Pabbi hafði verið sjómaður, var vélstjóri en fór svo að vinna í landi þegar við fluttum á Akureyri. Þar réði ég mig til sjós, byrjaði á Snæfellinu sem var bæði togari og á síld, réði mig svo á Harðbak sem var togari. Ég ætlaði mér alltaf að verða sjómaður, fara í stýrimannaskólann og vildi verða skipstjóri. Ég fór átján ára suður til Reykjavíkur í Stýrimannaskólann, kláraði það á tilskildum tveimur árum og fór svo aftur heim og réri með pabba sem hafði keypt lítinn handfærabát. Um haustið réði ég mig sem stýrimann á Vörð í Grindavík og var vertíðina en fór svo aftur norður eftir hana. Þá var pabbi að kaupa stærri bát frá Danmörku sem við sóttum en fluttum hann svo suður fyrir vertíðina það haustið. Það munaði minnstu að illa færi, við vorum varla komnir út Eyjafjörðinn þegar ég áttaði mig á að kompásinn var ekki rétt stilltur. Það var ekki gott veður og við fórum inn á Siglufjörð til að laga kompásinn. Þegar við vorum komnir vestur að horni gerði brjálað veður, við lentum í brotsjó og báturinn lagðist á hliðina og var í dágóða stund þannig, við vorum smeykir um að hann myndi ekki rétta sig við en hann gerði það loksins en þá drapst á vélinni. Við sendum út neyðarkall og til allrar lukku svaraði varðskipið Þór kallinu og við vorum teknir í tog en fyrst þurfti að dæla olíu úr skipinu til að lægja sjóinn í kringum okkur, öðruvísi gátu þeir ekki komist til okkar. Það voru tólf vindstig, haugasjór en báturinn komst að síðunni okkar og var festur við okkur svo við björguðumst og þegar ég kom upp í stýrishús og hitti skipherrann Eirík Kristófersson, sagði hann við mig; „Nú varstu heppinn drengur minn, ég sagði rórmanninum [sá sem var á stýrinu] að beygja í bak en hann beygði í stjórn og stuttu síðar sáum við ykkur.“ Það var það hvasst að ekki var hægt að nota radarinn og skyggnið var orðið slæmt svo hver veit hvað hefði gerst ef rórmaðurinn hefði beygt í bak eins og skipstjórinn fyrirskipaði. Fall er fararheill má segja, þessi bátur var farsæll og á fyrri vertíðinni sem ég var á þessum bát, kynntist ég konunni minni, Elínu Alexandersdóttur.“

Af sjónum í útgerð

Grindavík var ekki stór á þessum tíma, um 500 manns bjuggu í bænum þegar Eddi fluttist þangað. Hann var farsæll skipstjóri á hinum og þessum bátum og var m.a. aflakóngur í Grindavík árið 1973 á Hópsnesi. Árið 1965 urðu breytingar hjá honum, hann ákvað að skella sér í útgerð. „Ég var að koma af síld, hafði ráðið mig sem stýrimann hjá Willard Fiske Ólasyni á Hrafni þriðja, þar var Jens Óskarsson vélstjóri og við ákváðum að fara í útgerð ásamt Guðlaugi Óskarssyni sem var nágranni minn. Við stofnuðum Hópsnes árið 1965 og rákum í 32 ár. Við byrjuðum á að kaupa bát að austan sem við gáfum nafnið Hópsnes, létum fljótlega smíða fyrir okkur bát og smíðuðum svo annan bát síðar. Ég hélt áfram sem skipstjóri fyrstu árin en var svo alkominn í land eftir metvertíðina 1973. Einhverjir bátar bættust í hópinn og svo hófum við vinnslu árið 1972. Þetta er á þeim tíma sem síldarævintýrið er í gangi en við vorum líka að vinna fisk í salt. Þegar við fórum út í seinni nýsmíðina, frystitogarann Hópsnes, þurftum við að láta gamla skipið upp í. Hann lá við höfn í Hafnarfirði á þessum tíma og skipasali hafði samband við mig. Sagði að það væru menn frá Nýja Sjálandi sem væru áhugasamir um að kaupa skipið. Ég sagði þeim að skipið væri ekki til sölu en það væri sjálfsagt að leyfa þeim að skoða það. Þeir ferðuðust eitthvað um landið og skipasalinn hafði aftur samband og spurði hvort við værum til í að selja Nýsjálendingunum skipið. Á þessum tíma var Gulli orðinn veikur og við vorum farnir að íhuga hvort þetta væri komið gott hjá okkur í útgerðinni. Ég sagði við skipasalann að allt væri falt fyrir rétt verð og eftir samningaviðræður var gengið frá sölu á skipinu. Þegar við afléttum veðum ætluðu starfsmenn fiskveiðisjóðs varla að trúa verðinu sem við fengum fyrir skipið. Við áttum töluverðan kvóta sem aðrar útgerðir renndu hýru auga til en við gátum ekki hugsað okkur annað en kvótinn yrði áfram í Grindavík og buðum því þeim ellefu útgerðum sem voru hér í Grindavík, að kaupa kvótann af okkur og greiða okkur á þremur árum. Ég hef aldrei heyrt um að svona hafi verið gert, hvorki áður fyrr né á eftir. Þannig lauk farsælli útgerðarsögu Hópsnes og önnur verkefni tóku við,“ segir Eddi.

Mynd tekin árið 1983. Eddi ásamt föður sínum á vinstri hönd, Júlíusi Halldórssyni og Jón Tryggvason frá Dalvík sem átti bát og lagði upp hjá Hópsnesi.

Bæjarpólitíkin

Eddi keypti húsnæðið af Hópsnesi, sá um dreifingu á salti fyrir Saltkaup en svo kom Sigmar sonur hans inn í reksturinn og áður en varði var fyrirtækið komið með gámaþjónustu og sameinaðist svo fyrirtækinu Hringrás síðar meir. Eddi sem var orðinn stór hluthafi í Bláa lóninu eftir að hafa tekið þátt í að koma því farsæla fyrirtæki á koppinn í gegnum störf sín fyrir Grindavíkurbæ, hafði stækkað húsnæðið og leigði Bláa lóninu. Fyrirtækið vantaði aðstöðu í Grindavík fyrir hluta af sinni starfsemi svo sjá má að Eddi hefur sjaldan eða réttara sagt aldrei, legið með hendur í skauti. Eddi var ekki bara í útgerð, hann sat lengi í síldarútvegsnefnd og var í bæjarstjórn Grindavíkur um tíma. „Ég fór í Síldarútvegsnefnd í kringum 1980 og fór margar ferðir til Sovétríkjanna sálugu til að ganga frá sölusamningum, Síldarútvegsnefnd hafði tekið ákvörðun um að kaupa helmingshlut í fyrirtæki frá Sovétríkjunum og ég og annar vorum settir í stjórn fyrirtækisins. Á þessum tíma var rúblan með svipað verðgildi og dollarinn en margir Sovétmennirnir voru tilbúnir að bjóða hátt í tíu rúblur fyrir einn dollar, þetta voru oft fróðlegar ferðir og mjög eftirminnilegar.“

Tólf ár í bæjarstjórn

Eddi sat þrjú kjörtímabil, tólf ár í bæjarstjórn Grindavíkur og var forseti bæjarstjórnar um tíma. Það þurfti ekki að spyrja hann að því fyrir hvað flokk hann sat.

„Ég hef alla tíð verið Sjálfstæðismaður, fékk þau gen líklega í gegnum móðurmjólkina en mamma var gallharður tjalli! Ég vissi aldrei almennilega hvar pabbi var í pólitíkinni en á Dalvík var kaupfélagið sterkt, mikið um bændur og þeir hafa nú oft verið framsóknarlega þenkjandi. Við erum þrjú systkinin, ég er elstur þeirra og þau eru bæði á lífi ennþá og öll fylgdum við mömmu, erum sjálfstæðisfólk fram í fingurgóma. Það er mér eftirminnilegt frá þessum bæjarstjórnarmálum að Grindavík breyttist úr því að vera þorp yfir í að verða bær. Vegir voru lagðir, skólpi komið fyrir svo öll ásýnd Grindavíkur breyttist. Mágur minn, Eiríkur Alexandersson, var bæjarstjóri fyrsta árið en svo tók Jón Gunnar Stefánsson við og áttum við alltaf gott samstarf. Ég sat í stjórn Hitaveitu Suðurnesja og eftirminnilegast frá því er upphafið á Bláa Lóninu. Mér var falið að koma því undir hendur Grindavíkurbæjar og það var nokkuð snúið mál en hafðist þó. Á þessum tíma kom Grímur Sæmundsen að starfsemi Bláa lónsins, ég réði hann en hefði ekki verið fyrir þátt Grindavíkurbæjar og Hitaveitu Suðurnesja í uppbyggingu Bláa lónsins, hefði aldrei neitt orðið úr því, það leyfi ég mér að fullyrða. Bláa lónið varð síðan að því risastóra fyrirtæki sem það er í dag, ég er mjög stoltur yfir að hafa átt þátt í þeirri uppbyggingu.“

Eðvard Júlíusson á skrifstofunni í Hópsnesi fyrir mörgum árum síðan.

Landhelgisdeilan

Baráttan við Breta um landhelgina er eftirminnilegust í huga Edda þegar hann er spurður út í hvað sé efst í hans huga. „Bretarnir komu með stór herskip sem keyrðu utan í togarana okkar og okkar landhelgisgæsluskip klipptu á tog-vírana hjá þeim. Við tókum okkur saman nokkrir útgerðarmennirnir frá Grindavík og fórum fylktu liði upp í Kanaheiði en þar var herstöð Bandaríkjamanna, rétt hjá Grindavík, og sturtuðum tveimur vörubílshlössum af möl á veginn hjá þeim. Við vorum að mótmæla aðgerðarleysi bandarískra yfirvalda í þessari baráttu okkar gegn Bretum fyrir sjálfstæði okkar varðandi landhelgina. Ég fór á lögreglustöðina okkar í Grindavík og hitti þar Finna löggu [Guðfinnur Jón Bergsson], hann var sleipur í ensku og vélritaði vel orðað bréf, hringdi upp á herstöð og sagði að von væri á mér með þetta bréf. Ameríkanarnir hafa oft verið þekktir fyrir að styðja við bakið á þeim þjóðum sem þeir dvelja hjá vegna síns stríðsreksturs og þetta vakti athygli á heimsvísu. Ég og annar vorum kallaðir á fund Geirs Hallgrímssonar, forsætisráðherra og það eina sem hann bað okkur um; „passið ykkur á að láta þessar mótmælaaðgerðir ekki fara úr böndunum strákar mínir.“ Eins hittum við bandaríska sendiherrann sem skammaði okkur fyrir að vera standa í þessu. Við krepptum hnefann á móti og hótuðum öllu illu, ekki löngu seinna leystist þessi deila sem við Íslendingar unnum, hver veit nema þessar mótmælaaðgerðir okkar hafi skilað sínu.“

Eðvard á Húsatóftavelli við Grindavík í haust.

Kylfingurinn Eddi

Miðað við hversu upptekinn Eddi hefur verið alla sína hunds- og kattartíð, er erfitt að ímynda sér hann að stunda áhugamál en hann gat komið þeim fyrir ásamt því að koma þremur börnum vel á legg en börn Edda og Elínar heitinnar eru Alexander, Kristín og Sigmar, Elín lést 30.september 2019. Afabörnin eru tólf enn hvar lágu áhugamálin hér áður fyrr og hvar liggja þau í dag?

„Ég átti hesta á sínum tíma, hafði gaman af því að ríða út. Ég hef lengi haft áhuga á laxveiði, reyni að fara á hverju sumri en aðaláhugamálið undanfarin ár hefur verið golfið. Ég tók nú þátt í gerð Húsatóftavallar á sínum tíma, við lánuðum vörubíla til efniskeyrslu. Ég keypti þá golfsett af Jóhanni Möller, sem er kannski einn af aðalhvatamönnunum að stofnun Golfklúbbs Grindavíkur. Ég prófaði eitthvað en var á kafi í hestum svo ég fór ekki á fullt í golfið þá. Þegar ég hætti svo í hestamennsku tóku golfkylfurnar við og hef ég mjög gaman af þessari íþrótt. Ég reyni að fara í golfferðir erlendis á hverju ári, jafnvel að vori og hausti og yfir sumarið spila ég nánast daglega ef það er gott veður, ég nenni ekki að spila í rigningu og roki. Ég á góðan golfbíl og sé fyrir mér að stunda golfið þar til ég verð gamall maður,“ sagði hinn níræði Eðvarð Júlíusson að lokum.