Átakið Hjólað í vinnuna hafið
Verkefnið „Hjólað í vinnuna“ fór formlega af stað í Grindavík í gær og stendur til 26. maí. Búið er að stofna lið Grindavíkurbæjar og eru starfsmenn hvattir til að skrá sig til þátttöku. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.
Einfaldast er að skrá sig inn í gegnum Facebook. Meginmarkmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta, sem og heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Verkefnið er líka á Instagram, #hjoladivinnuna.