Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Átak í gerð og lagfæringum heilsustíga í Reykjanesbæ
Guðlaugur Sigurjónsson á nýrri brú í Njarðvíkurskógum sem er frábært útivistarsvæði.
Laugardagur 2. maí 2020 kl. 11:25

Átak í gerð og lagfæringum heilsustíga í Reykjanesbæ

Fleiri vinnandi hendur verða notaðar við stígagerð. Frábært útivistarsvæði í Njarðvíkurskógum.

Meðal breytinga á fjárfestingaráætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2020 voru tilfærslur á verkefnum með það fyrir augum að fara í verkefni sem myndu kalla á fleiri vinnandi hendur og nýtast atvinnuátaki sem er í undirbúningi. Eitt þessara verkefna eru svokallaðir Heilsustígar sem hafa lengi verið í plönum umhverfissviðs og hófst undirbúningur á því í raun þegar settir voru upp svokallaðir Hreystigarðar árið 2013 á fjórum stöðum, í skrúðgörðum Keflavíkur og Njarðvíkur, Tjarnarhverfi og á Ásbrú.

„Hugmyndin með Heilsustígum er að setja niður svokallaða ása, sem eru stofnstígar og verða tvískiptir, 2,8 metra breiðir, malbikaðir stígar. Þessi útfærsla svipar til stígsins frá Eyjavöllum upp í flugstöð sem lagður var af Reykjanesbæ og Vegargerðinni árið 2015 og er geysivinsæll og mikið notaður. Stígarnir verða vel upplýstir með bekkjum, ruslatunnum og skiltum með fræðsluefni um hollustu og lýðheilsu. Þá verða ásarnir einnig merktir litum og lengdum þannig notendur sjái vel hve langt þeir hafa farið og hve langt þeir eiga eftir í þeirri leið sem þeir eru á. Með því að hafa þessa stíga svona breiða verður tryggt að umsjón með þeim og rekstur verður betri en á öðrum stígum bæjarins þar sem það verður til að mynda betra að koma tækjum fyrir sópun, snjómokstur og hálkueyðingu. Þessir stígar verða ekki skilgreindir sem hjóla- og/eða göngustígar heldur er hugmyndin sú að líkt og á stígnum upp í flugstöð sýni notendur tillit til hvers annars,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarnar vikur hafa stígar bæjarins, sem eru í misjöfnu ástandi, verið mikið notaðir af bæjarbúum og munu örugglega, líkt og annað sem breytist eftir COVID-19, verða mikið notaðir áfram að sögn Guðlaugs.

„Eins og sést á þessari yfirlitsmynd (sem fylgir fréttinni) sést hvernig þessir ásar munu tengjast Strandleiðinni og þannig mynda góðar tengingar milli hverfa. Þegar hefur verið hafist handa og munum við gæta þess að það verði eins lítil röskun á stígunum eins og kostur er á meðan framkvæmdum stendur. Frágangur verður þó unnin í sumar með átaksvinnuhópum en eins og áður segir mun þess gætt að stígarnir verði brúklegir þrátt fyrir það, íbúum til yndisauka,“ sagði Guðlaugur.  

 

„Þessir stígar verða ekki skilgreindir sem hjóla- og/eða göngustígar heldur er hugmyndin sú að líkt og á stígnum upp í flugstöð sýni notendur tillit til hvers annars.“

Það er komin aðstaða til að setjast niður og grilla og hafa hundana í sérstöku gerði.

Hér er hafin vinna við stíg í Vallahverfinu.

Víða eru skemmtilegir göngustígar, þessi liggur að Njarðvíkurskógum.

Göngustígurinn upp í flugstöð er vinsæll.

Njarðvíkurskógar er frábært svæði fyrir ofan Melaveg og Bolafót í Njarðvík.