ÁSÝND FJARSKANS – Síðasta sýningarhelgi
	Sunnudaginn 16. desember lýkur sýningunni Ásýnd fjarskans í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum. Á sýningunni gefur að líta 26 ný akrílmálverk eftir myndlistarkonuna Þorbjörgu Höskuldsdóttur en þetta er fyrsta einkasýning hennar í hartnær 8 ár.
	
	Þorbjörg á að baki langan og farsælan feril sem myndlistarmaður, auk þess sem hún hefur lagt gjörva hönd á leirkerasmíði og leikmyndagerð. Verk hennar er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins, og frá 2006 hefur hún verið handhafi heiðursverðlauna frá Alþingi Íslendinga.
	
	Að námi loknu hóf Þorbjörg listferil sinn með sýningu í Galleríi SÚM árið 1971, og tók þátt í nokkrum samsýningum á vegum SÚM. Frá upphafi hefur hún beint sjónum sínum að viðkvæmu sambandi manns og náttúru, og þá sérstaklega þeirri vá sem steðjar að íslenskri náttúru með vaxandi áherslu landsmanna á stóriðju. Þar hefur helsta verkfæri hennar og einkunn verið hin klassíska fjarvíddarteikning, sem hún notar til að kortleggja ýmiss konar inngrip mannsins í náttúrulegt ferli.
	
	Í verkum sínum hefur Þorbjörg meðal annars brotið til mergjar sérstæða náttúru Reykjanesskagans.
	
	Sýningin er opin frá kl. 13:00 – 17:00 um helgina og aðgangur er ókeypis.

 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				