Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ásýnd fjarskans
Fimmtudagur 25. október 2012 kl. 09:03

Ásýnd fjarskans

Ný verk Þorbjargar Höskuldsdóttir

Föstudaginn 26. október kl.18 verður opnuð sýning á nýjum málverkum Þorbjargar Höskuldsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar, sem ber heitið Ásýnd fjarskans. Er þetta fyrsta einkasýning listakonunnar í hartnær átta ár. Þorbjörg á að baki langan og farsælan feril sem myndlistarmaður, auk þess sem hún hefur lagt gjörva hönd á leirkerasmíði og leikmyndagerð.

Verk hennar er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins, og frá 2006 hefur hún verið handhafi heiðursverðlauna frá Alþingi Íslendinga. Þorbjörg hóf nám sitt við Myndlistarskólann í Ásmundarsal árið 1962, meðfram því vann hún við keramíkhönnun hjá fyrirtækinu Glit undir stjórn Ragnars Kjartanssonar og Hrings Jóhannessonar. Hún stundaði framhaldsnám við Konunglega danska listaakademíið, undir handleiðslu danska listamannsins Hjort Nielsen, frá 1967 til 1971, samtímis þeim Tryggva Ólafssyni, Magnúsi Tómassyni og Sigurjóni Jóhannssyni. Að námi loknu hóf Þorbjörg listferil sinn með sýningu í Galleríi SÚM árið 1971, og tók þátt í nokkrum samsýningum á vegum SÚM.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá upphafi hefur hún beint sjónum sínum að viðkvæmu sambandi manns og náttúru, og þá sérstaklega þeirri vá sem steðjar að íslenskri náttúru með vaxandi áherslu landsmanna á stóriðju. Þar hefur helsta verkfæri hennar og einkunn verið hin klassíska fjarvíddarteikning, sem hún notar til að kortleggja ýmiss konar inngrip mannsins í náttúrulegt ferli. Í verkum sínum hefur Þorbjörg meðal annars brotið til mergjar sérstæða náttúru Reykjanesskagans; það er Listasafni Reykjanesbæjar því fagnaðarefni að fá að kynna ný verk hennar fyrir Suðurnesjamönnum.