Ástvaldarballið vakti mikla lukku
Ingó Veðurguð gerði allt vitlaust
Það var heldur betur fjör í Sandgerði í gær þegar fram fór dansleikur í Samkomuhúsinu. Um að ræða svokallað Ástvaldarball sem haldið var í fyrsta skiptið, en ballið er sérstaklega ætlað fyrir fatlaða einstaklinga á Suðurnesjum. Ástvaldur Ragnar Bjarnason átti hugmyndina að ballinu en honum innan handar voru þeir Örlygur Örlygsson og Eiður Eyjólfsson.
Boðið var upp á pylsur og ýmislegt góðgæti auk þess sem tónlistarmenn mættu til þess að halda uppi fjörinu. Þeirra á meðal voru Eiður og Addi, BJ Explosion og Hobbitarnir. Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar leynigestur mætti á svæðið, en þar var á ferðinni sjálfur Ingó Veðurguð. Skapaðist sannkölluð Þjóðhátíðarstemning þar sem allir sungu með þegar Ingó mundaði gítarinn.
Sandgerðisbær lánaði Samkomuhúsið undir veisluna og allar veitingar voru í boði gjafmildra aðila. Stjórnendur vildu koma á framfæri þökkum til þeirra aðila sem lögðu hönd á plóg en vonast er til að um árlegan viðburð verði að ræða.
Sjá má myndasafn frá veislunni hér, en meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá fjörinu.
Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði vonast til þess að ballið verði árlegur viðburður hér eftir.
Fólk á öllum aldri skemmti sér í Samkomuhúsinu í Sandgerði í gær.
Taktu til við að tvista....