Ástríðan auðveldar námið
- Birkir Örn lærir flugvirkjun í Danmörku
„Ég trúi því ekki að ég sé að fara að segja þetta en dönskukennarinn minn í grunnskóla, hún Eygló, hafði rétt fyrir sér með að ég gæti þurft að nota dönsku í framtíðinni þó ég hafi harðneitað því þegar ég var yngri,“ segir Birkir Örn Skúlason sem þessa dagana lærir flugvirkjun í Kaupmannahöfn.
Birkir flutti til Danmerkur í ágúst 2016 og stundar nám við Technical Education Copenhagen (TEC). Námið segir hann verða þyngra með hverjum deginum, en gangi þó rosalega vel. „Það er mjög auðvelt að standa sig vel í námi sem maður hefur ástríðu fyrir. Það að læra í skólanum eða heima er einhvern veginn bara miklu skemmtilegra og auðveldara.“
Birkir tók þá ákvörðun að læra flugvirkjun frekar í Danmörku en á Íslandi þar sem hann hafði fengið sig fullsaddan af íslenska veðrinu og vildi komast hjá því að taka námslán. „Námið sem mig langaði í er mjög dýrt á Íslandi, en hér er það niðurgreitt af ríkinu, þannig ég lét verða af því að flytja út.“
Hann segir lífið í Kaupmannahöfn yfir höfuð mjög þægilegt og einfalt og að Danirnir séu líkir Íslendingunum, þó einhver munur sé á matarvenjum og skemmtanalífi.
Áður en Birkir flutti út spilaði hann meðal annars körfubolta með meistaraflokki Keflavíkur og Reyni Sandgerði, en á fyrsta skólaárinu í Kaupmannahöfn spilaði hann körfubolta með fyrstu deildarliði sem heitir BK Amager. Eftir því sem námið varð þyngra tók hann hins vegar þá ákvörðun að hvíla sig á körfuboltanum þetta tímabilið og einbeita sér alfarið að náminu.
Fyrstu tvo til þrjá mánuðina í Kaupmannahöfn átti hann í smávegis erfiðleikum með að skilja dönskuna en dönskutímarnir úr grunnskóla hafi hjálpað honum helling. „Með tímanum kom þetta allt. Lykillinn var bara að þora að tala dönskuna, þó svo maður segi eitthvað rangt. Manni líður kannski eins og hálfvita en Danirnir kunna að meta að maður reyni, rétt eins og við kunnum að meta það þegar einhver frá öðru landi reynir að tala íslensku.”
Það er full keyrsla alla daga hjá Birki en þessa dagana er hann í lokaprófum. „Ég læri nánast allan daginn en eftir kvöldmat er ég eiginlega bara opinn fyrir öllu,“ segir Birkir, en hann býr á heimavist og er duglegur að nýta kvöldin í að fara út með vinunum í körfubolta, fótbolta eða jafnvel út að ganga til að fá smávegis hreyfingu. Hann segist sakna vina sinna og fjölskyldunnar á Íslandi en það hjálpi honum mikið hversu margir Íslendingar séu með honum í þessu námi, enda nái þeir allir mjög vel saman.
Birkir stefnir að því að klára námið en meira sé ekki ákveðið. „Svo sé ég bara hvert þessi vegur tekur mig.“