Ástarsaga úr fjöllunum í Akurskóla
Yngstu bekkingar ásamt leikskólabörnum nutu sýningarinnar.
Nemendur í 1. bekk í Akurskóla, ásamt elstu börnunum af leikskólanum Akri og Holti, fengu í gær að sjá leikrit á sal skólans. Leikritið byggir á hinni sívinsælu sögu Guðrúnar Helgadóttur en það fjallar um tröllskessuna Flumbru og tröllastrákana hennar átta.
Leikgerð og söngtextar eru eftir Pétur Eggerz, sem einnig annast leikstjórn, en höfundur tónlistar er Guðni Franzson. Það eru leik- og söngkonan Margrét Pétursdóttir og leikarinn og tónlistarmaðurinn Valgeir Skagfjörð sem leika sýninguna. Leikmynd og búningar eru eftir Messíönu Tómasdóttur.
Sýningin hefur notið mikilla vinsælda frá því hún var frumsýnd vorið 2012 og verið sýnd í grunn- og leikskólum víða um land og er fjöldi sýninga nú þegar á annað hundraðið. Hér er þessi bráðskemmtilega, rammíslenska saga flutt á lifandi hátt þar sem saman fléttast frásögn, leikur og tónlist í fallegri umgjörð.