Ástandið hefur bara versnað
– Jóhannes Kr. hefur fjallað um fíkniefni í þrettán ár. Hann segir ekkert hafa breyst.
„Sissa var stelpa sem hefði getað gert allt sem hún vildi í lífinu,“ segir faðir hennar, Jóhannes Kr. Kristjánsson, en Sissa tapaði baráttunni við fíkniefni aðeins sautján ára gömul árið 2010.
„Hún var ótrúlega kraftmikil stúlka. Hún var frænka Kristínar Gerðar og þær voru mjög líkar þegar maður veltir því fyrir sér, af því þær fóru báðar alla leið í því sem þær gerðu. Sissa, dóttir mín, fékk miklu skemmri tíma en Kristín Gerður. Hún fékk bara sautján ár á meðan Kristín Gerður varð 31 árs. Sissa var kraftmikil, ótrúlega klár, var svona kamelljón, hún komst út úr öllum aðstæðum og bjargaði sér. Hún var „Street Wise“ eins og sagt er. Þetta var stelpa sem hefði getað gert allt sem hún vildi í lífinu,“ segir Jóhannes en hann flutti erindi í Reykjanesbæ í Heilsu- og fornvarnaviku á Suðurnesjum.
Botninn er óútreiknanlegur
Aðstandendum fíkla hefur gjarnan verið ráðlagt að þeir sem eru í neyslu þurfi einfaldlega að ná botninum svo hægt sé að hjálpa þeim. Í dag treystir Jóhannes því ekki og leggur áherslu á að grípa þurfi inn í aðstæðurnar miklu fyrr.
„Mjög gott fólk, sem ég treysti mjög vel og ber mikla virðingu fyrir, ráðlagði mér það að Sissa þyrfti að ná botninum svo hægt væri að hjálpa henni. Í dag myndi ég ekki hlusta á það ef ég ætti barn sem væri komið í einhverja neyslu. Þetta er auðvitað líkindamál, en ég myndi hreinlega reyna að komast í hjálparstarf til Afríku og taka barnið með mér, bara til þess að ná því út úr þessu umhverfi og gera allt til að forða barninu úr þessum heimi,“ segir Jóhannes.
Ástandið hefur versnað
Jóhannes byrjaði að fjalla um læknadóp í Kompási fyrir þrettán árum síðan, árið 2005, en þá dóu um þrír til fimm einstaklingar á ári vegna of stórs skammts af morfíni. Að hans sögn hefur ekkert breyst, kerfislega séð, síðan þá.
„Ég talaði við landlækni árið 2005 til að athuga hvers vegna það væri svona mikið af læknadópi á götunni og þá var talað um að bregðast við. En það hefur ekkert breyst, ástandið hefur bara versnað. Í dag eru færri meðferðarúrræði og bara færri úrræði almennt fyrir þetta veika fólk sem eru sjúklingar vegna fíknar og gera allt fyrir næsta skammt. Það þarf að gera miklu meira fyrir þennan hóp af fólki sem er í harðri neyslu,“ segir Jóhannes.
Fordómar gagnvart fíklum
Nauðsynlegt er að horfa fordómalaust á fíkla að sögn Jóhannesar, þeir séu sjúklingar og hjálparþurfi. Aðspurður segir hann fordómana í samfélaginu í garð fíkla hafa mjög mikil áhrif á bata þeirra. „Þegar þessi hópur fólks sem hefur leiðst út í fíkniefnaneyslu eru orðnir þessir miklu fíklar sjá þeir hvergi neitt ljós. Þeir sjá ekki hvað tekur við eftir meðferð vegna þess að fordómarnir eru það miklir og aðstoðin lítil. Þeir ná aldrei bata þannig.“
Lof mér að lifa
Jóhannes er þessa dagana að leggja lokahönd á heimildamyndina „Lof mér að lifa“ sem sýnd verður á RÚV um miðjan mánuðinn. Hún byggir meðal annars á gerð myndarinnar „Lof mér að falla“.
Nú þrettán árum eftir að Jóhannes hóf að fjalla um fíkniefni í fjölmiðlum telur hann nauðsynlegt að kerfið breytist til hins betra. „Það þarf að grípa krakkana áður en þeir fara í neyslu sem getur breyst á örskömmum tíma í mjög harða neyslu og það þarf að koma þeim inn í meðferð sem hentar þeim. Það þarf líka að gera allt til að hjálpa þeim hópi sem eru orðnir mjög miklir fíklar, hlífa þeim og gera allt til að koma þeim svo hægt og rólega aftur út í lífið svo þeir geti orðið góður og gegn samfélagshópur.“
-Sólborg Guðbrands