Áskorun að taka danstímana heima í stofu
Keflavíkurmærin Elma Rún Kristinsdóttir stundar dansnám til BA-gráðu í listamannabænum Sitges á Spáni. Hún er alsæl í skemmtilegum skóla og segir gaman að spreyta sig í stepptímum.
– Hvað getur þú sagt okkur frá náminu þínu þarna á Spáni?
„Ég er að stunda dansnám til BA-gráðu í listaháskólanum Institute of the Arts Barcelona sem er staðsettur í Sitges í Katalóníu á Spáni. Þetta er þriggja ára nám og ég er á fyrsta ári. Í skólanum æfi ég marga dansstíla og leiklist og söng ásamt ýmsum bóklegum greinum sem tengjast líkamanum, heilbrigði og hreyfingu. Ég elska hversu fjölbreytt námið er og hef gaman af öllum þessum dansstílum. Mér finnst mjög gaman í stepptímum en það er fremur nýr stíll fyrir mér þar sem ég hafði bara rétt snert á steppi áður en ég fór út. Kennt er á ensku og er skólinn mjög fjölþjóðlegur með nemendur af rúmlega 50 þjóðernum,“ segir Keflavíkurmærin Elma Rún Kristinsdóttir en hún hóf dansnámið í Sitges síðasta haust. Elma Rún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hefur dansað frá því hún var lítil og Suðurnesjamenn hafa oft séð hana á fjölunum í hinum ýmsu verkum.
– Hvernig gengur þér í náminu?
„Mér gengur bara vel. Það er auðvitað smá áskorun að læra á ensku. Eins er nokkuð krefjandi að taka danstíma eftir danstíma allan daginn, svo ég tali nú ekki um að dansa alltaf með blessaða grímuna – en ég er þakklát fyrir grunninn sem ég hef úr fyrra dansnámi og finn að ég var algjörlega tilbúin í nám eins og þetta.“
– Hvernig er lífið þarna úti á veirutímum?
„Það hefur nú ekki verið mikið um að vera. Það hefur verið sex manna samkomubann hérna úti í marga mánuði og allt lokað nema matvöruverslanir, apótek og aðrir nauðsynjastaðir. Hér ber öllum skylda til að bera grímu alls staðar, nema auðvitað heima hjá sér. Einnig hefur verið lokað fyrir það að ferðast milli bæja í Katalóníu og þess vegna hefur dagskráin mín verið frekar einföld, ef ég er ekki í skólanum þá er ég langoftast bara heima. Skólinn hefur þó náð að haldast opinn nokkurn veginn allan tímann, þó með einhverjum takmörkunum. Allir bóklegir tímar hafa farið fram á netinu og í skólanum erum við í minni hópum en væri ef allt væri eðlilegt. Við höldum okkur alfarið innan litlu hópanna og eigum helst ekkert að vera að blanda þeim saman. Það hefur verið mikið af smitum hérna úti og þurfti skólinn að vera alfarið á netinu í tíu daga þegar við vorum nýfarin af stað aftur eftir jólafrí þar sem nokkuð mörg smit fóru að greinast innan skólans. Það var ákveðin áskorun að taka alla danstímana heima í stofu en sem betur fer varði þetta ekki lengi og vonandi nær skólinn að haldast opinn áfram.“
– Hvernig býrðu?
„Ég bý í íbúð alveg niður í miðbæ Sitges. Þar leigi ég með tveimur öðrum stelpum úr skólanum. Íbúðin er á frábærum stað þar sem stutt er í allt. Hún er rúmgóð, snyrtileg og með ótrúlega góða útiaðstöðu. Mér finnst mjög notalegt að geta setið úti hvort sem ég er að læra, borða eða slaka á. Akkúrat núna er hins vegar vetur og aðeins of kalt en ég veit að vorið er handan við hornið og ég get ekki beðið.“
– Hvernig er skólasvæðið?
„Skólinn samanstendur af móttöku, fjórtán stúdíóum, 200 sæta leikhúsi, tveimur stúdíóleikhúsum sem hægt er að nota fyrir minni uppfærslur, bókasafni, skrifstofum, mötuneyti og svæðum þar sem hægt er að setjast niður. Skólinn er bæði innandyra og utandyra, sem er mjög næs ... nema kannski þegar það rignir. Skólabyggingin er björt og snyrtileg, umkringd fallegum gróðri og hefur allt til alls.“
– Þetta er náttúrlega þekktur staður, Sitges, er það ekki?
„Jú, mér skilst að Sitges sé mjög vinsæll ferðamannastaður, þá sérstaklega yfir sumartímann. Hér eru notalegar strendur og miðbærinn gamaldags, sjarmerandi og skemmtilegur. Þó ég hafi nú ekki fengið að sjá bæinn í réttu ljósi þá er talað um að það sé oftast voða mikið líf í bænum. Bærinn er líka vel þekktur fyrir að vera mikill listamannabær. Svo skemmir ekki fyrir að það tekur bara 40 mínútur með lest inn í miðborg Barcelona og svo eru fullt af öðrum litlum bæjum í kring sem er líka gaman að heimsækja. Vonandi eru bjartari tímar framundan. Þá fer allt að lifna við og ég fæ tækifæri til að njóta bæjarins og skoða mig meira um.“
– Hverjir sækja þennan skóla?
„Skólinn býður upp á nám til BA-gráðu í Contemporary Dance, Commercial Dance, Musical Theatre, Acting og Music Production. Einnig býður hann upp á nám til MA-gráðu í Contemporary Dance og Acting. Svo er skólinn líka með Foundation-prógramm fyrir dans og Musical Theatre-nema. Þetta er undirbúningsár fyrir þá nemendur sem eru ekki alveg tilbúnir í BA-nám. Það er umsóknarferli og prufur inn á allar brautir skólans. Skólinn er sem sagt fullur af hæfileikaríku listafólki sem kemur til að læra meira í sinni list.“
– Hvað ætlar þú að standa uppi með eftir námið?
„Ég vona að ég standi uppi með meiri færni og öryggi, bæði sem dansari og manneskja. Akkúrat núna er ég spennt fyrir því að vinna eitthvað tengt leikhúsi en það þarf ekkert að vera að hugurinn verði þar eftir tvö ár. Mér finnst bara mikilvægast að muna að njóta, taka lífinu ekki of alvarlega og reyna að safna fullt af góðum minningum,“ segir dansmærin Elma Rún Kristinsdóttir.