Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Ásbrúardagurinn í lok maí
  • Ásbrúardagurinn í lok maí
Fimmtudagur 3. apríl 2014 kl. 09:49

Ásbrúardagurinn í lok maí

– sannkölluð karnivalstemmning

Ásbrúardagurinn er orðinn árviss hátíð í upphafi sumars. Til þessa hefur dagurinn verið haldinn hátíðlegur á sumardaginn fyrsta og þá hafa þúsundir Suðurnesjamanna og gesta af höfuðborgarsvæðinu safnast saman á Ásbrú í karnivalstemmningu. Ásbrúardagurinn verður aftur haldinn hátíðlegur í ár en nú hefur dagsetningin verið færð til. Að þessu sinni verður hann haldinn hátíðlegur í lok maí, fimmtudaginn 29. maí.

Unnsteinn Jóhannsson er verkefnastjóri fyrir Ásbrúardaginn og vinnur nú að skipulagningu hátíðarinnar ásamt Önnu Steinunni Jónasdóttur hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Þau sögðu í samtali við Víkurfréttir nú í vikunni að dagskráin á Ásbrúardeginum verði á svipuðum nótum og í fyrra. Hátíðin sé með karnivalsniði og þar verði sannkölluð fjölskyldustemmning með jákvæðu andrúmslofti. Áhersla verði lögð á skemmtilega upplifun fyrir gesti og að fjölbreytt dagskrá verði í boði.

Aðalhátíðarsvæðið verður í Atlantic Studios, sem er kvikmyndaverið á Ásbrú. Þar verður skemmtidagskrá og leiktæki, auk þess sem myndað verður markaðstorg með sölubásum. Þeir sölubásar eru þó eingöngu á vegum íþrótta- og góðgerðafélaga á Suðurnesjum til fjáröflunar. Í kvikmyndaverinu verður einnig vettvangur fyrir fyrirtæki á Ásbrú að kynna starfsemi sína. Þá mun samfélagið á Ásbrú láta vita af því hvað þar er um að vera, enda margt skemmtilegt að gerast á Ásbrú.

Á Ásbrúardeginum verður Keilir einnig með opið hús þar sem starfsemi skólans verður kynnt. Þar verður einnig boðið upp á skemmtidagskrá. Þá verður frumkvöðlasetrið Eldey opið og fjölbreytt starfsemi í húsinu kynnt fyrir fólki.

Eins og á síðasta ári verður Ásbrúardagurinn í ár í góðu samstarfi við bandaríska sendiráðið sem kemur með ósvikna ameríska stemmningu í húsið. Þannig verða keppnir um besta Chili-réttinn hjá veitingastöðum og einnig einstaklingskeppni um amerískar bökur.

Nú er verið að skipuleggja dagskránna fyrir Ásbrúardaginn og þá er verið að kalla eftir þátttakendum til að taka þátt í uppákomum í kvikmyndaverinu eða félagasamtökum sem hafa áhuga á að setja upp sölubása til fjáröflunar. Þeir sem vilja taka þátt eru beðnir um að láta vita af sér með pósti á [email protected].

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024