Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ásbergsball - Vinsælasta ball ársins í Stapa í kvöld
Laugardagur 2. apríl 2011 kl. 11:13

Ásbergsball - Vinsælasta ball ársins í Stapa í kvöld

Ásbergsballið víðfræga verður haldið í Stapa í kvöld og opnar húsið kl. 22:00 með fordrykk. Dúndrandi diskóstemning verður að hætti Ellerts Grétarssonar og Valþórs Ólasonar með öllum gömlu góðu Bergáslögunum. Víkurfréttir náðu tali af þeim félögum en þeir eru í óðaönn að skipuleggja herlegheitin. Valþór hefur staðið fyrir þessum böllum undanfarin þrjú ár en hann segir að miðasala gangi vel og allt stefni í hörku dansleik. Stemningin fyrir böllunum sé alltaf góð, partý út um allan bæ og dansað fram eftir nóttu.

Ellert Grétarsson var ásamt Valþóri plötusnúður á Bergás í gamla daga en hann hefur lítið komið að böllunum nema þá á upphafsárunum í byrjun 10. áratugarins á síðustu öld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég byrjaði með þessi Bergáskvöld í Glaumbergi einhvern tímann á fyrstu árum 10. áratugarins og fékk Alla Jónatans í lið með mér, en við tveir vorum plötusnúðar í Bergás á sínum tíma. Ég spilaði í eitt eða tvö skipti á þessum böllum í Glaumbergi og rétti svo Alla keflið,“ segir Ellert um upphafið á þessu öllu saman.

Ellert Grétarsson á sínum yngri árum

„Ég hef stundum verið beðinn að koma og spila á Bergásböllum í gegnum árin en alltaf afþakkað utan eitt skipti fyrir fjórum árum. Ákvað þá að vera með af því að þetta átti að vera allra síðasta Bergásballið. En komst svo að því að ég hafði verið plataður,“ sagði Ellert í léttum tón. Hann ákvað að slá til núna og dusta rykið af plötuspilaranum þar sem hann vildi láta gott af sér leiða en eins og kunnugt er þetta einnig styrktarball fyrir ungan dreng sem berst við erfið veikindi og fjölskyldu hans.


Einhver óánægja með aldurstakmarkið

Ellert segist hafa heyrt af einhverri óánægju með lækkun aldurstakmarks á dansleikinn og finnst því rétt að það verði endurskoðað. „Það kann að vera vel til þess fallið að viðhalda þessum dansleikjum en hins vegar viljum við, sem erum á miðjum aldri, kannski ekkert endilega hitta börnin okkar á balli. En það er komin löng hefð fyrir þessum böllum, þau eru alltaf vinsæl hjá fólki sem voru að skemmta sér í Bergás og því má ætla að þau lifi um ókomin ár. Kannski verða Ásbergsböll framtíðarinnar á Nesvöllum, hver veit?“ Ellert segir jafnframt stemninguna sem var á Bergás eiga enga sér líka og augljóst að minningin virðist eiga sér öruggan samastað í hjörtum þeirrar kynslóðar sem þar skemmti sér fyrir hátt í 30 árum.

Valþór segist einnig hafa heyrt af því að fólk vilji hækka aldurstakmarkið aftur upp í 30 ár en í fyrra var 25 ára inn á ballið í fyrsta sinn. Hann segist þó tilbúinn að endurskoða þessi mál ef vilji sé fyrir því.

Þegar talið berst að tónlistinni frá Bergásárunum þá virðast þeir félagar vera sammála um hvað standi uppúr; Bee Gees, Earth Wind And Fire, Kool and The Gang og Michael Jackson eru listamenn sem fá fólkið til að skella sér á gólfið að mati gömlu plötusnúðanna en eflaust verður mikið stuð í stapanum í kvöld.

Miða á ballið er hægt að nálgast í Gallerí við Hafnargötu til kl. 16:00 í dag og svo við innganginn í kvöld en nánari upplýsingar má nálgast á facebook.

Mynd - Valþór Ólason hægra megin ásamt Alla Jónatans við græjurnar


Meðfylgjandi er svo létt upphitun fyrir kvöldið - Kool and the gang - Get down on it