Árshátíðarvika NFS hófst í gær með risa skúffuköku
Það er nóg að gera hjá félagsmönnum Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja þessa dagana, en árshátíðarvikan hófst í gær.
Dagskráin er glæsileg, en hún hófst með opnun kjörklefa í gær þar sem kosið er til nýrrar stjórnar NFS. Boðið var uppá risa skúffuköku fyrir alla og svo um kvöldið var sérsýning NFS á myndinni Kick-Ass í Sambíóunum Keflavík, en meðlimir fengu miðann á litlar 300 krónur.
Í kvöld er Langbest-kvöld á Ásbrú þar sem nemendur geta gætt sér á gómsætum mat og notið skemmtiatriðis á vegum Dóra DNA og Ara Eldjárns frá Mið-Íslandi. Á miðvikudaginn kemur Vöffluvagninn í heimsókn í skólann en Grease-þema verður við lýði - eintómir leðurjakkar, túberingar og þröngar gallabuxur.
Úrslit kosninganna verða síðan kynnt á árshátíðarballinu á fimmtudag (sumardaginn fyrsta), en það er fyrsta ball nemendafélagsins í Stapanum í þrjú ár. Uppröðun kvöldsins er ekki af verri endanum, en Atli & Erpur, Raggi Bjarna, Bloodgroup og Hjálmar skemmta lýðnum. Miðasala hófst í dag á skrifstofu NFS, en þeir sem mæta í Grease-þema á miðvikudeginum fá 500 króna afslátt á ballið.
Nánari dagskrá er að finna inni á www.nfs.is, ásamt fyrstu þremur skólaþáttum NFS - Hnísunni. Þess má geta að fjórði og seinasti skólaþáttur verður sýndur 29. apríl, m.a. með myndefni frá árshátíðarvikunni.
Það má því með sanni segja að NFS ljúki skólaárinu með pompi og prakt, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
VF-mynd/HBP - Frá síðasta Langbest kvöldi NFS en þá var stappað út úr dyrum er þriðji þáttur Hnísunnar var frumsýndur