Arsenal næst hjartanu
-Sigurður Enoksson er formaður Arsenal klúbbsins á Íslandi
Þáttaka í íþróttum einskorðast ekki við að elta bolta úti á velli því að ekkert keppnislið væri til ef ekki væri fyrir stuðningsmennina og fáir eru harðari í því fagi en Sigurður Enoksson, bakari í Grindavík og nýkjörinn formaður Arsenal klúbbins á Íslandi.
Sigurður var hlutskarpastur í allsherjarkosningu sem fór fram í vor, en hann vann yfirburðasigur á ekki ófrægari manni en Inga Birni Albertssyni, fyrrum knattspyrnuhetju með meiru. Raunar má segja að Suðurnesjamenn hafi tekið þessar kosningar með trompi því auk Sigurðar eru þrír aðrir að sunnan í fimm manna stjórn, þeir Þorgrímur Hálfdánarson, Kjartan Adólfsson og varaformaðurinn Sigurður Hilmar Guðjónsson.
„Það var mjög gaman að standa í þessari kosningabaráttu,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir. „Ég lagði helling í þetta og hringdi út um allt land. Auðvitað vissi ég að ég átti möguleika, en eg bjóst samt ekki við svona afgerandi sigri.“
Framundan er mikið annríki því í ár eru 25 ár frá stofnun klúbbsins og til stendur að fá á annað hundrað stuðningsmenn saman út á leik í haust. Náið samstarf er með klúbbum og forsvarsmönnum Arsenal úti í Englandi og mikil ánægja þar úti með starfið hér á landi.
„Nú leggjum við áherslu á að félagar í klúbbnum greiði árgjaldið sem fyrst til að hægt sé að koma út Arsenalvörunum sem allir félagar fá. Það er rétt að benda á að langauðveldast er að leggja inn á reikning eða borga með kreditkorti en leiðbeiningar um það er að finna á heimasíðu klúbbsins á www.arsenal.is. Félagar fá m.a. sérstök tilboð hjá Iceland Express, en það er eitt markmið klúbbsins að gera sem flestum kleift að fara út að sjá leiki.“
Sigurður hefur verið galllharður Arsenal maður í áratugi og man sannarlega tímana tvenna þrátt fyrir ungan aldur. „Ég byrjaði að halda með Arsenal árið 1971. Þeir höfðu unnið tvöfalt það ár og ég fékk blað með mynd af Bob Wilson, en eftir það varð ekki aftur snúið.“
Sigurður er svo sannarlega íþróttafíkill því hann hefur farið margoft utan til að fylgjast með sínu liði sem og öðrum, einnig á heimsmeistara- og Evrópukeppnir. Raunar er einn af hans eftirminnilegustu ferðum ekki á Arsenal völlinn heldur á Anfield í Liverpool. „Þar hitti ég Charlie George, sem var í meistaraliðinu ’71 og það var mjög skemmtilegt. Svo fórum við líka í fyrirmennastúkuna á Upton Park og það var mjög sérstakt. Okkur var fyrst vísað frá því við vorum ekki í jakkafötum, en við fórum þá bara og keyptum okkur föt til að komast inn,“ segir Sigurður og brosir við tilhugsunina. Hann bætir því þó við að einstök tilfinning sé að koma á nýja Emirates-leikvöllinn hjá Arsenal.
Margir gætu haldið að fjölskyldulífið gæti setið á hakanum þegar svo mikið er að gera í fótboltanum, en því fer fjarri hjá Sigurði og hans fólki. Þau eru öll á kafi í boltanum og varð 12 ára dóttir hans meira að segja svo fræg að fá að hitta verðandi Evrópumeistara kvenna hjá Arsenal þegar þær léku við Breiðablik síðasta sumar. „Hún fékk að hitta þær inni í klefa og fékk hjá þeim treyju sem var árituð af öllum leikmönnunum.“ Treyjan er vel geymd og hefur verið römmuð inn.
Sigurði líst ágætlega á komandi tímabil hjá sínum mönnum þó goðsögnin Thierry Henry sé nú á bak og burt. „Við erum að spila mjög góðan bolta og höfum gert það síðustu ár, en okkur vantar sterkari leikmenn sem geta haft áhrif strax.“
Enn láta nýjir leikmenn standa á sér en Sigurði líst mjög vel á einn sem er líklegur, sérstaklega á nafnið hans, en það er bakvörðurinn Bakari Sagna!
Það vantar ekki ástríðuna í starfið hjá Sigurði sem segist gefa siga llan í að efla starfið og fjölga virkum meðlimum um allt land. „Ég stend í þessu af því að mér finnst það einfaldlega svo gaman og ef ég get virkjað það til að láta gott af mér leiða, þá líður mér vel.“
VF-myndir/Þorgils - 1: Bílnúmerið ber merki þess að þar fer Arsenal-maður. Arsenal fyrir hann. 2: Treyjan góða sem dóttir hans fékk frá kvennaliði Arsenal 3: Arsenal-merkið er húðflúrað yfir hjarta Sigurðar.