Árni stal senunni!
Árni Sigfússon, bæjarstjóri fór á kostum í gærkvöldi í hlutverki sínu í revíunni Bærinn breiðir úr sér, sem Leikfélag Keflavíkur hefur sýnt við miklar vinsældir undanfarið.
Árni þarf enda ekki að sækja innblástur fyrir hlutverk sitt um langa leið því hann leikur sjálfan sig. Axel Axelsson sem áður fór með hlutverk Árna hélt erlendis á dögunum þar sem vinsældir verksins hafa orðið til þess að sýningum hefur verið bætt við. Þá lá beinast við að tala við Árna sjálfan og tók hann vel í hugmyndina.
Frumraun Árna var í gær og verður að segjast að hann „átti húsið“, hvort sem hann brá fyrir sig leik söng eða dansi. Beittir brandarar á hans kostnað urðu enn fyndnari þegar þeir komu af vörum hans sjálfs og var ekki laust við að Árni skyggði á aðra leikara sem stóðu sig engu að síður með mikilli prýði.
Árni stígur aftur á stokk í kvöld á lokasýningu revíunnar, en það er spurning hvort að ekki þurfi að bæta enn við sýningum til að anna eftirspurn.
Sýningin hefst kl. 20, miðapantanir eru í síma 421 2540 og er aðgangaseyrir 2000 kr.
Myndir frá sýningunni má finna í ljósmyndasafni vf.is.
VF-myndir/Þorgils