Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Arnar Már Ólafsson er Grindvíkingur ársins 2017
Fimmtudagur 4. janúar 2018 kl. 13:24

Arnar Már Ólafsson er Grindvíkingur ársins 2017

Arnar Már Ólafsson er Grindvíkingur ársins 2017, þetta kemur fram á grindavik.is.
Arnar hefur vakið athygli í Grindavík en hann er sérlega duglegur og ósérhlífinn í garð samborgara sinna, hann er mættur með skófluna að moka snjó frá húsum bæjarbúa nánast um leið og það er byrjað að snjóa. Hann þiggur ekki greiðslu fyrir og þegar honum er boðin greiðsla segir hann brosandi: „Ég vil bara að fólk njóti þess.“

Víkurfréttir hittu Arnar í fyrra en þar sagði hann frá því að hann hefði tekið upp betri lífstíl og byrjað að ganga upp á Þorbjörn, það gerir hann daglega og eftir að hann fór að hreyfa sig og borða hollari mat þá hefur hann misst 50 kg. Hann er ekki nema nokkrar mínútur að skokka upp fjallið og suma daga fer hann oft á dag. Einn daginn fór hann 15 sinnum upp fjallið en nafn hans er orðið ansi áberandi í gestabókinni á toppi fjallsins. „Það er smá pása hjá mér í bókinni. Þannig að ég klári nú ekki enn eina bókina,“ sagði Arnar léttur í lundu við Víkurfréttir í fyrra.

Arnar starfar sem húsvörður í Hópsskóla í Grindavík en hann er einnig liðsstjóri hjá meistaraflokk karla í knattspyrnu. Arnar fékk fjölmargar tilnefningar í ár sem Grindvíkingur ársins, enda má segja að þetta sé framferði sem eftir er tekið og til eftirbreytni fyrir aðra. Jákvæðni hans og drifkraftur smitar hratt út frá sér og lætur fáa ósnortna.
„Arnar Már Ólafsson er góð fyrirmynd og hann gerir góðan bæ enn betri. Ef allir væru jafn jákvæðir og glaðir og Arnar Már þá væri heimurinn betri.“ - Sagði í einni tilnefningunni sem Arnar fékk.
Víkurfréttir óska Arnari til hamingju með nafnbótina.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024