Arnar Dór kominn í lokaúrslit í Voice
Arnar Dór Hannesson heillaði áhorfendur þáttarins The Voice Ísland síðasta föstudagskvöld og var kosinn í útslitaþáttinn næsta föstudagskvöld. Átta söngvarar komu fram í þættinum og komust fjórir þeirra áfram í úrslitaþáttinn sem sýndur verður í beinni útsendingu næsta föstudagskvöld. Í þeim þætti verður tilkynnt um sigurvegara þáttanna sem áhorfendur kjósa.
Arnar söng lagið Creep sem þekkt er í flutningi Radiohead. Lagið söng hann í rólegri útgáfu en þeirri upprunalegu. Hann tileinkaði systur sinni lagið en hún veiktist alvarlega árið 2012.
Helgi Björns er þjálfari Arnars í sjónvarpsþáttunum og sagði hann vera hugrakkt af honum að velja þetta lag.
„Þú fylltir út í þetta risastóra flugskýli sem við erum í, bæði með viðveru þinni og röddinni þinni. Það er meira en að segja það,“ sagði Salka Sól.
„Það að þú getir farið inn í tilfinninguna og sungið hana svona út, það er heiður að upplifa það hérna,“ sagði Unnsteinn Manúel.
Arnar Dór er 34 ára og ólst upp í Keflavík en hefur búið í Hafnarfirði undanfarin ár. Hann er rafvirkjameistari og deildarstjóri yfir rafmagnssviði hjá hafnfirska fyrirtækinu VHE. Arnar lærði söng í FÍH og hefur einnig sótt námskeið í Complete Vocal Technique. Hann kemur reglulega fram í brúðkaupum, jarðarförum, árshátíðum og á fleiri viðburðum, bæði sem sólóisti eða með hljómsveit sinni eða gospelkór.