Arnar Dór í skýjunum með sína fyrstu tónleika
-Uppselt í Hljómahöll
Uppselt var á tónleika Arnars Dórs „Hittu mig í draumi“ sem haldnir voru í Berginu í Hljómahöll síðastliðinn fimmtudag. Tónleikarnir voru fyrstu sólótónleikar Arnars en hann hefur lengi verið viðloðandi tónlist og lenti meðal annars í öðru sæti í söngkeppninni Voice Ísland.
„Það var ótrúlega góð stemning og gekk vonum framar. Það var meira en uppselt og liggur við setið á sviðinu. Eftirspurnin var engu lík og fær starfsfólk Hljómahallar hrós fyrir mikla fagmennsku,“ segir Arnar í samtali við Víkurfréttir, en hann segist einnig ætla halda jólatónleika í vetur. „Það kom mér svakalega á óvart að það hafi verið uppselt á mínum fyrstu tónleikum. Ég er í skýjunum yfir því hversu góð viðbrögð ég fékk.“