Ármann Guðjónsson 100 ára
Markús Ármann Guðjónsson frá Lyngholti í Sandgerði verður 100 ára fimmtudaginn 9. september. Af því tilefni munu ættingjar hans, ásamt Sandgerðisbæ, efna til samsætis honum til heiðurs í Samkomuhúsinu Sandgerði kl. 16:00.
Markús Ármann Guðjónsson, aldrei þekktur undir öðru nafni en Ármann, er fæddur í Vestmannaeyjum 9. september 1910. Lífsförunautur Ármanns og eiginkona frá 1942 var Ólafía Ástríður Þórðardóttir (1906-1993), alltaf kölluð Lóa. Lóa og Ármann byrjuðu saman búskap í Vík kringum 1940. Tveimur árum seinna fluttu þau upp á loft í Landarkoti og bjuggu þar til 1944 en þá fluttu þau í sitt eigið hús við Brekkustíg 13 í Sandgerði. Húsið nefndu þau Lyngholt og voru æ síðan verið kennd við það. Þetta er hefðbundið steinhús frá þessum tíma en vekur eftirtekt fyrir snyrtilegt umhverfi og þá sérstaklega garðinn sem Ármann hefur ræktað af mikilli alúð.
Lóa og Ármann eignuðust tvö börn: Maríu f. 1939 og Helga f. 1942.
Ármann fór ungur á sjóinn með Guðjóni föður sínum á bát sem réri frá Reykjavík yfir sumarmánuðina. Hann lærði síðar til stýrimanns og var sjómennskan hans vettvangur á starfsævinni.
Góða heilsu þakkar Ármann því að hafa aldrei tekið bílpróf og lengi vel fór hann allar ferðir sínar um bæinn á reiðhjóli. Til vitnis um þetta er að þegar hann var 85 ára fékk hann nýtt fjallahjól í stað þess gamla sem hann fékk á áttræðisafmælinu. Þegar Lóa lá á Sjúkrahúsi Suðurnesja síðustu þrjú æviár sín, hjólaði Ármann til Keflavíkur 8 km hvora leið hvern einasta dag þegar veður leyfði, kominn yfir áttrætt.