Árið sem íslensku bankarnir hrundu
Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ:
Því miður verður þetta árið sem íslensku bankarnir hrundu og þjóðin var í einum vettvangi gerð að kennitöluflökkurum án þess að hafa nokkuð um það að segja né unnið til þess með nokkrum hætti. Afleiðingar þessarar stjórnlausu og taumlausu ný-frjálshyggju, sem á rætur sínar að rekja til stuttbuxna-gengis sjálfstæðisflokksins, eru ekki nærri því komnar fram og eiga lífskjör eftir að versna frekar á nýju ári með tilheyrandi atvinnuleysi og afleiðingum þess.
Því miður voru íslenskir stjórnmálamenn of veikburða til að standa í vegi fyrir framrás útrásavíkinganna og gegndarlausrar skuldasöfnunnar íslensku bankanna. Flestir hópuðust á vagninn og tóku þátt og lofsömuðu útrásarvíkinganna. Þeir sem voru með aðvörunarorð voru sakaðir um að vera „á móti uppbyggingu” eins og dæmin hér í Reykjanesbæ sanna.
Af merkisviðburðum eða tímamótum í mínu lífi má nefna að konan mín kláraði háskólanám í kennslufræðum sem hún hefur verið að nema sl. 3 ár og hefur hún ráðið sig til vinnu við kennslu við Grunnskólann í Sandgerði. Ég er mjög stoltur af henni og ánægður með árangur hennar. Annars gekk lífið ágætlega fyrir sig hjá okkur fjölskyldunni og öllum börnunum líður vel; en þau eru ýmist í grunnskóla eða leikskóla.
Árið leggst ágætlega í mig og reyni ég að halda í bjartsýni, von og trú. Ég tel samt að næsta ár verði erfitt fyrir íslenska þjóð en þó eru ávallt ljósir punktar í tilverunni. Við verðum að treysta í meira mæli á uppbyggingu grunn-atvinnuvega og er ég bjartsýnn á að uppbygging álvers í Helguvík eigi eftir að hafa góð áhrif á okkar samfélag hér á Suðurnesjum. Þá tel ég að Íslendingar eigi mikið inni þegar kemur að nýsköpun og verðmætasköpun tengt uppbyggingu nýrra atvinnuvega. Að mínu mati hafði fjármálageirinn tekið allt of mikla orku frá uppbyggingu og vexti nýrra atvinnuvega. Ég tel að upprisa samfélagsins komi fyrst og fremst með að byggjast á nýsköpun og auknum tækifærum tengd frekari sölu og vinnslu á íslenskri orku.