Ari Trausti fjallaði um möguleika Reykjaness
Holuhraun og fjármál á opnu húsi hjá MSS.
Fjölmenni var á opnu húsi hjá MSS, sem haldið var sl. miðvikudag. Tilefnið var ný námskrá og kynning á starfsemi MSS, sem er mjög fjölbreytt að þessu sinni. Eins og undanfarin ár voru fengnir fyrirlesarar til að fræða gesti.
Katrín Ósk Garðarsdóttir fjármálaráðgjafa hjá LTV, Leiðin til velgengni, fræddi okkur um hvaða skref mætti taka til þess að snúa mínus í plús, um ábyrgð einstaklinga í fjármálum og hvaða áhrif jákvætt viðhorf og yfirsýn geta haf á stöðu mála. Fjölmenni var á fyrirlestrinum og var umtalað að Katrín hafi geislað af jákvæðni, sem smitaðist yfir í hlustendur.
Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og áhugamaður um eldgos á Íslandi steig á stokk en hann er landsþekktur fyrir einstaka kunnáttu á íslenskri náttúru. Fjallað var um eldgosið við Holuhraun og nágrenni, sem enn hefur ekki hlotið nafn. Vill MSS því hvetja alla til að senda inn nafnatillögu til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ari Trausti endaði sitt erindi á umfjöllun um ástandið á Reykjanesi, þá sérstaklega Gunnuhver. Fór hann yfir breytingar á Gunnuhver í aldanna rás og möguleika svæðisins í framtíðinni.
Unnar Stefán Sigurðsson, verkefnastjóri hjá MSS, vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem létu sjá sig, þá sérstaklega fyrirlesurunum. „Nú er að bíða og sjá hvað næsta opna hús MSS býður upp á en það verður eflaust fróðlegt, spennandi og í takt við atburði líðandi stundar! Hlökkum til að sjá ykkur þá!“
Ari Trausti Guðmundsson.