Ari Svavarsson í Saltfisksetrinu
Ari Svavarsson opnaði á laugardaginn myndlistasýningu sína í Listsýningasal Saltfisksetursins í Grindavík. Ari sýnir þar akrýlmyndir málaðar á tré og fjalla allar myndirnar um tákn en Ari hefur lengi verið hugfanginn af táknum. Í myndunum fjallar Ari um það hvenær línur og form verða að táknum og hvaða áhrif tákn hafa á fólk. Spurningar eins og; af hverju hafa tákn þessi áhrif á okkur, er kraftur fólginn í táknunum sjálfum eða er það sameiginleg fortíð okkar sem bankar upp á og er betra að umgangast táknin með varúð.
Ari er menntaður frá Myndlistaskóla Akureyrar og hefur stundað nám og unnið við myndlist, eldsmíði, járnsmíði gullsmíði ásamt kalligrafíu.
VF-mynd/ Þorsteinn G. Kristjánsson








