Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Áratugur liðinn frá stórbrunanum í Járn og skip: Í of litlum stígvélum við störf í stórbruna
Fimmtudagur 25. janúar 2007 kl. 13:44

Áratugur liðinn frá stórbrunanum í Járn og skip: Í of litlum stígvélum við störf í stórbruna

Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri, rifjar upp hvers vegna hann komst á forsíðu Víkurfrétta sumarið 1996.  Á árinu sem við vorum að kveðja voru liðin 10 ár frá brunanum mikla í Járn og skip.  Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja,  var í eldlínunni í orðsins fyllstu, þá nýtekinn við starfinu. Þetta umfangsmikla slökkvistarf tók um 40 klukktustundir.

Nýr slökkviliðsstjóri fær eldskírn
„29. júní 1996 er  mjög eftirminnilegur dagur í mínum huga. Ég, ásamt fjölskyldu minni, eignkonu og þrem börnum vorum nýflutt aftur heim í húsið okkar við Háseylu að námi loknu frá Bandaríkunum.  Þetta var á laugardagsmorgni og ég var að mála herbergi sonar míns, Ég var að horfa af annarri hæðinni yfir Keflavík þegar ég sá skyndilega mikinn, svartan reyk sem steig upp frá þaki Kaupfélagsins.  Ég fór strax á staðinn en stuttu síðar kom útkallið. Það var mjög sérstök tilfinning að standa allt í einu í miðri hringiðunni og stjórna verkefni af þessari stærðargráðu þar sem tugir slökkviliðsmanna ásamt lögreglu og björgunnarsveitarmönnum voru samankomnir tilbúnir í þetta erfiða og hættulega verkefni sem átti eftir að standa yfir í tæpar 40 klukkustundir. Í upphafi þurfti að taka margar víðtækar ákvarðanir, ekki bara sem viðkomu slökkvistarfinu á brunastað, heldur einnig hvað varðar allt umhverfið í nágrenninu.  Ég kallaði eftir aðstoð allra slökkviliðanna á Suðurnesjum sem og aðstoð frá Björgunasveitinni Suðurnes -- allt tiltækt viðbragðslið var fengið til aðstoðar.


Í of litlum stígvélum
„ Það var mikið um að vera þennan dag, forsetakosningar stóðu yfir og við þurftum m.a. að loka og rýma kosningaskrifstofu Ólafs Ragnars sem þá var á Glóðinni, þarna í nágrenninu. Við fyrirskipuðum rýmingu á íbúðarhúsum og að öllum gluggum og hurðum á íbúðum og húsum í nærliggjandi götum yrði lokað.  Að auki þurftum við að láta loka loftræstikerfinu á Sjúkrahúsinu, þannig að þetta voru mjög víðtækar aðgerðir“, segir Sigmundur þegar hann rifjar upp daginn þegar Járn og Skip varð eldhafinu að bráð.
  Sigmundur var það nýbyrjaður í starfi að hann var ekki enn búnn að fá sinn eigin eldvarnargalla og því greip hann það sem hendi var næst og brá sér m.a. í stígvél forvera síns. „Eftir þessa 40 tíma törn sem slökkvistarfið stóð yfir var varla skinntutla eftir á fótum mér því stígvélin pössuðu engan veginn. Eftir þetta situr það í mér að ég mun aldrei fá mér þýsk leðurstígvél í vinnuna“, segir Sigmundur og brosir


Skelfilegar aðstæður
„Svo undarlega sem það kann að hljóma, þá gekk slökkvistarfið mjög vel þó allt hafi brunnið til kaldra kola", svarar Sigmundur aðspurður um það hvort honum finnist þeir í slökkviliðinu hafa komist vel frá þessu, svona eftir á að hyggja. „Brunavarnir í þessu húsi voru mjög slæmar en að vísu björguðum við þessu pakkhúsi og eitthvað af vörum tókst að bera þangað yfir.  Við hefðum mátt byrja á því fyrr, þá hefði tekist að bjarga meiru af vörulagernum, það er helst það sem mátti teljast ámælisvert í okkar störfum þarna.  Annars voru allar aðstæður mjög viðsjárverðar, eldurinn byrjaði í 900 rúmmetra timburstæðu sem varð alelda á svipstunu og náði í plasteinangrun sem mjög fljótt logaði milli bita í öllu þakinu, amk. voru 6-8 slökkviliðsmenn upp á þaki að rífa upp þakplötur með eldhafið undir fótum sér, en það tókst ekki að rífa það í tíma. Eldurinn var því aflokaður í þakinu sjálfu og maður vissi svo sem ekki fyrir víst hvað það héldi lengi. Þegar eldurinn kom síðan niður gegnum loftaklæðningu að innanverðu fengum við gríðarmikla eldsprengingu sem eyrði engu, mikil hitauppbygging varð í rýminu á svipstundu sem þá sundraði öllum rúðum og glerbrotin þeyttust um all. Þegar þetta gerðist voru menn inni í byggingunni en þrátt fyrir þessar hættulegu og erfiðu aðstæður þá slaðaðist engin, gaskútar voru að springa, áburður og önnur efni á lager voru að brenna en okkur tókst að hemja þetta við brunastað og koma í veg fyrir annað tjón. Ekki urðu slys á fólki þannig að segja má að slökkvistarfið hafi tekist mjög vel“, segir Sigmundur.
Talsvert af búnaði slökkviliðsins eyðilagðist við slökkvistarfið og margt kom í ljós varðandi skipulag og búnað liðsins þá sem var í kjölfarið allur meira eða minna endurbættur og endurskipulagður.  Reynslan af þessum bruna og þeim brunum sem á eftri komu nýttist mönnum vel við þá uppbyggingu sem varð innan Brunavarna Suðurnesja næstu ár.

 

 

Mynd:
Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri, er hér með 10 ára gamlar Víkurfréttir þar sem hann var á forsíðu  vegna brunans mikla í Járn og Skip.

VF-mynd: elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024