App sem greinir hvort þú hrjótir
Gylfi Már Þórðarson er 26 ára keflvískur viðskiptafræðinemi í Háskóla Íslands. Gylfi er mikill aðdáandi Huawei Nexus 6p símans síns og reynir að nota hann í eins margt og hann getur en það nær allt frá því að vakna og að því að læra nýtt tungumál. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa aðstoðað við leitina að flóttahundinum Hunter með misjöfnum árangri.
Sleep as Android – Besta vekjaraklukkan á markaðnum. Ef það væri ekki fyrir þetta app þá mundi ég líklega ekki vakna. Það finnur út hvenær þú sefur lausast og þá fer vekjarinn í gang. Óstaðfestar fregnir segja að þetta hjálpi makanum líka því að auk þess að vera vekjaraklukka þá greinir appið hvort maður hrjóti og reynir að fá mann til að hætta því með því að spila lítinn hljóðbút án þess að vekja mann. Ef það er einhver skvísa þarna úti sem getur hjálpað mér að staðfesta það þá er ég á Facebook.
Soundhound – Hversu oft kemur það fyrir mann að maður er að hlusta á frábært lag í útvarpinu og bíður spenntur eftir því að útvarpsþáttastjórnandinn tilkynni hlustendum hvaða stórkostlegi listamaður var að verki en svo fer hann bara að tala um veðrið eða að tilkynna okkur hvað klukkan er? Soundhound er með lausnina á þessu hvimleiða vandamáli en það virkar þannig að þú kveikir á appinu á meðan lagið óþekkta er í gangi og það segir þér á innan við 10 sekúndum hvert lagið er.
Duolingo – App sem hjálpar þér að læra tungumál. Það byrjar á að sýna notandanum myndir með orðinu skrifað undir myndina á því tungumáli sem þú vilt læra. Í framhaldi af því eru orðin notuð í setningu sem notandinn þarf að þýða, það koma hlustunaræfingar sem og munnlegar æfingar. Það gæti verið meira spunnið í þetta frábæra app en ég er bara búinn með 3% í leið minni að því að verða reiprennandi í spænsku.
Sjónvarp Símans – Að lágmarki þrjú kvöld í viku vippa ég mér í ræktina með það að tilgangi að vera hraustari maður en ég var í gær. Þá vill til að flestir leikir í íþróttum fara fram á kvöldin. Hjá flestum væri þetta vandamál en ekki hjá Appmann þessa vikuna. Maður kveikir bara á appinu, velur hvaða leik maður vill horfa á, stingur heyrnatólunum í eyrun, rífur í lóðin og ef að það hljómar eins og sá sem lýsir leiknum sé við það að fá flog þá tekur maður símann upp. Þannig getur maður séð það merkilegasta sem gerðist í leiknum án þess að missa af því að skella sér í ræktina. P.s. ég tek 180 kg í réttstöðu og ég nota enga stera.
RunPee – Gamechanger. Eina appið á þessum lista sem nýtist mér ekki persónulega en ég held þó mikið upp á. Það vill nefninlega þannig til að góðvinur minn, Sigurvin Þór Sveinsson, er með minnstu þvagblöðru í heimi. Það er yfirleitt ekki stórt vandamál nema þegar að við félagarnir skellum okkur í bíó. Appið virkar þannig að þú velur þá bíómynd sem þú ert að horfa á og því næst setur maður af stað skeiðklukku um leið og myndin byrjar. Síðan þegar að lítið er að gerast í myndinni þá byrjar síminn að titra í vasanum og ég get bent Sigurvin á að drífa sig á klósettið án þess að trufla bíógesti of mikið og Sigurvin missir ekki af neinu merkilegu í myndinni. Allir vinna.