Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Anna Sigríður bæjarlistamaður Grindavíkur 2018
Miðvikudagur 14. mars 2018 kl. 10:19

Anna Sigríður bæjarlistamaður Grindavíkur 2018

Anna Sigríður Sigurjónsdóttir, myndhöggvari, er bæjarlistamaður Grindavíkur í ár. Tilkynnt var um valið á setningarathöfn Menningarviku Grindavíkur um síðastliðna helgi. Anna Sigríður er athafnamikill listamaður sem hefur lagt sitt af mörkunum við að kynna list í hvers konar formi, bæði hérlendis og erlendis. Þetta kom fram í máli Þórunnar Öldu Gylfadóttur, formanns frístundar- og menningarnefndar Grindavíkur, við athöfnina en nefndin útnefnir bæjarlistamann Grindavíkur.

Anna Sigríður útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1985 og hélt þá til Hollands til að nema list sína við Akademie Voor Beeldende Kunst, þaðan útskrifaðist hún árið 1989. Anna Sigríður hefur einnig haldið fjölda einkasýninga á Íslandi, í Danmörku og Hollandi. Hún hefur tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Kanada, Grænlandi og á fleiri stöðum í heiminum.

Public deli
Public deli

Anna Sigríður hefur tekið á móti hópum á heimili sínu og þar fá þeir að kynnast þeirri sköpunargáfu sem hún býr yfir. Hún starfaði við Grunnskóla Grindavíkur um tíma og þar fengu nemendur að fást við listsköpun undir hennar handleiðslu. Í Menningarviku Grindavíkur í ár er hægt að skoða sýningu sem Anna Sigríður vann með leikskólabörnum og nefnist Hjartsláttur, börnin nutu leiðsagnar hennar við sýninguna og er hún til sýnis í Kvikunni.

Hægt er að sjá verk eftir Önnu Sigríði í mörgum fyrirtækjum, hérlendis og erlendis, og hannaði hún meðal annars Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar. „Anna Sigríður er vel af þessari útnefningu kominn og vonandi eigum við eftir að sjá meira af henni og hennar listaverkum á komandi árum,“ segir Þórunn Alda.