Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Andrými í Reykjanesbæ: Sjálfbær  þróun svæða
Lilja Margeirsdóttir, verkefnastjóri skipulagsmála hjá Reykjanesbæ.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 13. apríl 2023 kl. 08:38

Andrými í Reykjanesbæ: Sjálfbær þróun svæða

Reykjanesbær hefur óskað eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að endurskilgreina torg og almenningssvæði sveitarfélagsins með tímabundum lausnum. Verkefnið mun standa yfir frá maí fram í miðjan september en Andrými er í grunninn skipulagstæki sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri þróun svæða og auka fjölbreytta notkun almennings á svæðinu.

„Þetta er undir áhrifum verkefnisins Hughrif í bæ,“ segir Margrét Lilja Margeirsdóttir, verkefnastjóri skipulagsmála hjá Reykjanesbæ, „en það verkefni var ríkisstyrkt árin 2019 og 2020. Þetta var sumarverkefni sem menntamálaráðuneytið stóð fyrir til að bregðast við ástandinu í þjóðfélaginu og stuðla að virkni ungs fólks.

Síðan erum við með aðra fyrirmynd frá Reykjavíkurborg sem heitir Torg í biðstöðu og þaðan kemur þessi hugmynd. Við Hughrif í bæ vann fólk á vegum sveitarfélagsins á meðan þeir sem vinna við Torg í biðstöðu eru verktakar, eða styrkþegar. Þar liggur meginmunurinn á þessu tvennu,“ segir Margrét og útskýrir að í stað þess að sveitarfélagið ráði einstaklinga eða hópa til verkefnisins þá sæki þeir sem hafa hugmyndir um framkvæmdastyrk í gegnum Andrými.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta getur verið hvað sem er; viðburðir, listaverk, gjörningar. Þetta geta verið margskonar verkefni og tækifæri til að efla íbúa í samfélaginu til að gera betur í sínu hverfi, sínu samfélagi.“

Þannig að þetta er ekki bundið við áþreifanleg listaverk eða slíkt. Getur þetta verið hvað sem er?

„Já, hvað sem er. Bara eitthvað sem er skemmtilegt, í krafti fjölbreytileika, og við tökum fagnandi á móti öllum umsóknum sem berast. Síðan verðum við að taka afstöðu þegar við sjáum þær hugmyndir sem koma inn á borð til okkar, hvort við séum að fara að vera með mörg smáverk eða færri og stærri. Hvernig samsetningin verður því við erum auðvitað með ákveðið fjármagn sem fer í þetta og þetta er tilraunaverkefni sem ég vona að verði til langs tíma. Torg í biðstöðu hefur verið í gangi frá árinu 2011 og það hefur gengið svo vel að þau eru með fast fjármagn á hverju ári og er það stór hluti af borgarhönnun hjá Reykjavíkurborg. Það styður okkar hugmynd að hafa þessa fyrirmynd og sjá að hún er að virka.“

Maður tók eftir því þegar Hughrif í bæ fór í gang að þær myndir og skreytingar sem voru gerðar víðsvegar um bæinn vöktu gríðarlega athygli.

„Já og skapar jákvætt andrúmsloft, það verður meira líf, það verður litríkt og meiri gleði – og skapar svæði fyrir íbúana. Eins og ég segi þá þurfa þetta ekki að vera listaverk, sem dæmi gæti einhver sótt um að vera með pop-up jóga nokkrum sinnum yfir sumarið eða jafnvel hverfatónleika. Möguleikarnir eru endalausir og með umsókn þarf að skila inn lýsingu á verkefni ásamt myndum eða skissum, verk- og tímaáætlun og grófri kostnaðaráætlun. Verkefnið er tímabundið og stendur yfir frá miðjum maí og fram yfir Ljósanótt – þaðan drögum við nafnið Andrými,“ sagði Margrét að lokum en umsóknarfrestur í Andrými er til 16. apríl.

Hughrif í bæ vakti mikla athygli og skapaði jákvætt andrúmsloft.