Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Andblær liðinna jóla í Stekkjarkoti
Föstudagur 26. desember 2008 kl. 13:28

Andblær liðinna jóla í Stekkjarkoti



Stekkjarkot í Njarvík var opið gestumtvær helgar á aðventunni þar sem höfðað var sérstaklega til yngri kynslóðarinnar með fróðleik um jólahald horfinna kynslóða.
Börnin fóru um kotið og kynntust m.a. jólasveinunum þrettán sem lifað hafa með söguþjóðinni gegnum aldirnar.

Á meðal muna sem voru til sýnis var handsmíðað jólatré frá þar síðustu aldamótum. Börnunum þótti það heldur lítilfjörlegt samanborið við vel skreyttu greni-, eða gerfijólatrén sem prýða íslensk nútímaheimili með tilheyrandi glingri og ljósadýrð.
Sá siður að setja upp jólatré barst til Íslands um miðja 19. öldina og sennilega hafa þau fyrstu verið hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Á síðustu áratugum 19. aldarinnar fór að bera á heimasmíðuðum jólatrjám bæði í sveitum og kaupstöðum, enda nær ógerlegt að verða sér úti um grenitré. Oftast var þá notaður mjór, sívalur staur sem festur var á stöðugan fót. Á staurinn var svo nelgdur álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Á þeim voru kertin látin standa. Venjulega var svo tréð málað, oftst grænt, skreytt með lyngi og mislitir pokar hengdir á. Þetta var vitaskuld löngu, löngu áður en ódýrar, einnota jólaseríur komu til sögunnar.

Margar hefðir og siðir við jólaundirbúning og jólahald hafa lifað með þjóðinni kynslóð eftir kynslóð, meira að segja  hið alræmda jólastress, samkvæmt því sem Árni Björnsson skrifar í hina frómu bók, Saga daganna. 
Þar segir að Íslendingum virðist löngum minnistæðast við jólaföstuna hið mikla vinnuálag sem fólk mátti þola, einkum við tóskapinn. Sú vinna hófst fljótlega eftir að sláturstörfum lauk. Byrjað var að ljúka við nauðsynlegasta vetrarfatnað handa heimilisfólki en síðan tekið til við prjónles og smáband sem leggja mátti inn í kaupstað fyrir jólin. Með því var greitt fyrir það sem kaupa skyldi til jólanna, en oft þurfti áður að jafna skuld við kaupmanninn fyrir áramót til að geta fengið nýja úttekt. Af þeim sökum mun stundum hafa verið keppst ótæpilega við þessa vinnu og fékk síðasta vika jólaföstu nöfn eins og augnvika, staurvika og vitlausa vika. Þaðan er einnig runnin hin lífsseiga sögn um augnteprur og vökustaura sem spennt voru á augnlok til að halda fólki vakandi við tóvinnu.  Óvíst er og ólíklegt er að þetta kvalræði hafi nokkurntímann verið í almennu brúki, segir Árni í Sögu daganna.


Efsta mynd: Eva, Guðjón, Þórarinn og Jón Þór í baðstofunni í Stekkjarkoti. Á kistlinum stendur heimasmíðað jólatréð.



Fremur dimmt var í kotum fyrr á öldum enda langt í að raflýsingin kæmi til sögunnar og lýsti upp öll skúmaskot. Myrkið hélt lífi í þjóðsögum og skáldaglóð söguþjóðarinnar í norðri, þar sem vætti, álfar og huldufólk kom við sögu, að óleymdum ódælum jólasveinum og hyski eins og Grýlu og Leppalúða.




Væna flís af feitum sauð
Helga Ingimundar og Guðsteinn Fannar tóku sig vel út í hlóðaeldhúsinu í Stekkjarkoti.



Finnur, Guðný og Gulli  nutu fróðleiks um jólahald fyrri tíðar hjá Sigrúnu Ástu Jónsdóttur, forstöðumanni Byggðasafns Reykjanesbæjar.


VFmyndir/elg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024