Ánægðar á fertugri saumastofu
Fimm konur starfa á saumastofu Álnabæjar og sauma þar fyrir fyrirtæki og einstaklinga.
Í gegnum árin hafa margar saumastofur lokað hér á landi og verið fluttar til útlanda þar sem ódýrara vinnuafl fæst í verkið. Það heyrir því til undantekninga að reknar séu saumastofur á Íslandi og hvað þá að þar starfi eingöngu Íslendingar. En í Keflavík leynist ein slík og viti menn þar starfa fimm konur, sumar í hlutastarfi og aðrar í fullu starfi.
Verslunin Álnabær, sem verður 44 ára á árinu, rekur þessa saumastofu við Tjarnargötu í Keflavík og hún hefur verið rekin í fjörutíu ár.
Konurnar voru í kaffi þegar Víkurfréttir litu inn til þeirra á saumastofuna. Ein þeirra, Dagbjört Magnúsdóttir, er ekki viðstödd, skrapp í frí til útlanda en við borðið sitja þær fjórar og drekka kaffi. Það er notaleg stemning á vinnustaðnum, tónlist ómar lágt, kruðerí er í skál á kaffiborðinu sem konurnar sitja við.
Sigrún Ásta Marinósdóttir er yngst þeirra kvenna sem starfa á saumastofu Álnabæjar og er jafnframt verkstjóri:
Alin upp við saumaskap
„Ég byrjaði að vinna hér þegar mig vantaði hlutastarf og hef verið í samtals fimmtán ár. Ég hef enga menntun á þessu sviði og kunni voða lítið þegar ég byrjaði. Mamma var verkstjóri á undan mér en hún er ótrúlega flink að sauma og ég er alin upp við saumaskap því hún saumaði föt á okkur og gardínur og allt sem þurfti. Nú er mamma komin á eftirlaun og ég tekin við verkstjórninni. Ég er auðvitað búin að læra mikið á þessum árum og finnst æðislega gaman að vinna hér enda erum við með góða vinnuveitendur,“ segir Sigrún Ásta með bros á vör. Hjónin Guðrún Hrönn Kristinsdóttir og Magni Sigurhansson eru eigendur Álnabæjar og hafa rekið fyrirtækið í öll þessi ár, sem síðar færði út kvíarnar og er einnig með verslun í Reykjavík.
Tískan gengur í bylgjum
„Það er nóg að gera hjá okkur. Tískan gengur í bylgjum og nú vilja allir fá aftur gardínur í stofuna sína og á heimili sitt. Strimlatjöldin eru ennþá mjög vinsæl en gardínur skapa þessa hlýju inni á heimilinu. Þegar ég setti sjálf upp gardínur heima hjá mér þá fannst mér ég vera komin með heimili en ekki hús, svo hlýlegt og einnig hljóðdempandi. Við erum að sauma fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hér erum við að sauma gardínur, rúmteppi og púða, þegar herbergið á allt að vera í stíl,“ segir Sigrún Ásta.
Nú vilja margir fá aftur gardínur í gluggana
Sigrún segir að í fyrra hafi verið metár í framleiðslu hjá þeim. Stórar pantanir komu frá fyrirtækjum, hótelum og einstaklingum.
„Þegar það er brjálað að gera þá fáum við aukahendur og mamma hefur þá verið liðtæk og komið hingað að sauma með okkur. Hún er leynivopnið okkar segjum við. Þegar ég byrjaði í hlutastarfi hér var ég með lítið barn og vildi ekki vera of mikið að heiman en hér gat ég fengið starf part úr degi. Ég kunni ekkert að sauma en það lærðist. Svo fannst mér þetta bara svo hrikalega skemmtilegt þegar ég var komin með kunnáttuna og gat saumað hratt og vel. Ekki átti ég von á því í gamla daga þegar ég var í handavinnutímum hjá Randí í skólanum að ég myndi enda í saumaskap. Það er ekki bara gaman að sauma, það þarf að spá og spekúlera, reikna út stærðir og fleira. Fólk kemur til okkar með alls konar hugmyndir og alls konar gluggaútfærslur og við þurfum þá að finna út það sem passar. Þetta er því mjög skapandi starf,“ segir Sigrún Ásta.
Guðrún J. Karlsdóttir:
Saumar enn með 55 ára gamalli fermingarvél
„Það eru bara sex ár síðan ég byrjaði hér. Ég frétti að það væri að laust starf hér og ég hef alltaf verið dugleg að sauma og því fannst mér upplagt að prófa. Ég hef saumað síðan ég man eftir mér. Þegar krakkarnir voru að alast upp þá saumaði ég föt á þau, á mig og manninn og jakkaföt á mág minn. Það hefur verið auðvelt fyrir mig, að teikna og búa til snið frá grunni,“ segir Guðrún Karlsdóttir en mamma hennar var saumakona og hún ólst upp við saumaskap, móðir hennar kenndi henni.
„Þegar ég var tólf ára þá saumaði ég á mig fyrstu buxurnar. Þá varð maður að varpa alla saumana því ekki var sikksakk á saumavélinni. Svo fékk ég Pfaff saumavél í fermingargjöf sem ég nota ennþá og verður 55 ára gömul í vor. Ég fer með hana öðru hvoru til þeirra í Pfaff í hreinsun og þeir hafa boðið mér að kaupa hana en ég læt ekki vélina því hún er svo góð. Ég á aðra saumavél miklu nýrri en þessi frá Pfaff er eðalgripur. Hér á saumastofu Álnabæjar erum við að sauma gardínur og fleira í þeim dúr. Mér líkar það ágætlega og kann vel við mig hér með þessum konum. Í vor ætla ég þó að leyfa mér að hætta að vinna og njóta efri áranna. Ég hlakka til þess.“
Bára Jónsdóttir:
Skylda að mæta með köku á afmælisdaginn
„Ég hef unnið hér í sex ár og alltaf saumað sjálf allar mínar gardínur og eitthvað af fötum. Svo byrjaði ég hér og finnst mjög gaman að sauma í vinnunni. Það er mikið pláss á vinnusvæðinu og saumavélin mín er mjög góð,“ segir Bára Jónsdóttir en hún segir vélina vinna hratt og þegar hún saumi á vélinni sinni heima þá finnst henni hún núna vera allt of hæg.
„Við pössum upp á okkur hér þegar við sitjum og saumum, stillum stólana vel svo vinnuaðstaðan sé rétt. Við fáum ákveðnar verklagslýsingar í upphafi og förum eftir þeim. Það má segja að við eignum okkur vélina sem við sitjum við og látum aðrar í friði en stelum stundum tvinna af næstu vél ef okkur vantar þann lit sem er á keflinu og það má alveg. Það er skylda að mæta með köku þegar við eigum afmæli. Það er svona eina reglan okkar á milli. Vinnuandinn er notalegur og við höfum hist í heimahúsi utan vinnu,“ segir Bára og brosir til hinna við borðið.
Lára Brynjarsdóttir:
Alsæl í vinnunni
„Ég var atvinnulaus fyrir fjórum árum og var að klára námskeið hjá Vinnumálastofnun þegar ég frétti af þessu starfi hér á saumastofu Álnabæjar og sótti um. Ég hafði saumað smávegis á krakkana mína en ekkert til að tala um. Ég er handverkskona og finnst gaman að prjóna og svoleiðis en svo fékk ég starfið hér og er mjög ánægð,“ segir Lára Brynjarsdóttir. Í byrjun segist hún hafa verið óörugg og ekki nógu góð.
„Ég var eiginlega brjáluð út í sjálfa mig að hafa komið hingað, því þegar ég kom inn var allt á kafi í stórri hótelpöntun. Mér fannst það hræðilegt og hugsaði með sjálfri mér að ég hefði nú átt frekar átt að passa barnabörnin mín, þar gerði ég meira gagn. Svona lét ég þrjár fyrstu vikurnar en samstarfskonur mínar voru svo góðar við mig hérna, stöppuðu í mig stálinu og neituðu að leyfa mér að gefast upp. Það er þeim að þakka að ég róaðist. Ef þær hefðu ekki verið svona góðar við mig og þolinmóðar þá væri ég ekki hér. Hvatning þeirra hjálpaði mér að fóta mig, ég fékk alla þá aðstoð sem ég þurfti í byrjun. Þær eru svo góðar þessar stelpur hérna. En byrjunin var með því erfiðara sem ég hef lent í, kannski var það vegna þess að ég hafði verið atvinnulaus og misst trú á sjálfa mig. Þetta er besta vinna í heimi segi ég núna. Hér er ró inn á milli tarna og þá förum við í saumapokana sem er endurvinnsla á afgangsefni. Erum við ekki að reyna að hætta að nota plastpoka? Í dag er ég miklu fljótari að sauma og trúi því jafnframt að ég geti þetta. Það er meginmunurinn. Ég er alsæl og elska vinnuna mína.“