Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 26. desember 2002 kl. 10:50

Amma í stuði á jólaballi með 67 afkomendum

Fyrir stuttu lá leið Víkurfrétta í samkomusal Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur en þar inni var stór hópur fólks að skera og steikja laufabrauð. Þegar inn í salinn var komið voru börn að dansa í kringum jólatré og jólalög voru sungin. Með börnunum var glæsileg kona sem var greinilega amman í hópnum. Þetta var Helga Gunnólfsdóttir en afkomendur hennar eru 67 talsins og eignaðist hún ásamt manni sínum Árna Þorkels Árnasyni, alls 11 börn. „Ég missti fyrsta barnið mitt sem ég eignaðist þegar ég var sautján ára gömul en það var 6 mánaða þegar það dó,“ segir Helga og sýnir blaðamanni ljóð sem kallast Fölnaður Fífill en ljóðið er samið í minningu Lilla eins og hann er kallaður, en ljóðið orti Hólmfríður Sóley Hjartardóttir og færði amma Helgu henni ljóðið á jarðarfarardaginn.
Helga er 77 ára gömul og er hún fædd og uppalin á Þórshöfn á Langanesi og segir Helga að hugurinn hvarfli oft á heimaslóðirnar: „Jólin heima á Þórshöfn voru mjög indæl, en þó allt öðruvísi en þau eru í dag. Þá vorum við með smíðað jólatré sem var skreytt með kertum og pappírspokum sem voru fullir af sælgæti,“ segir Helga og bætir við að hún hafi ekki kynnst Skötu fyrr en hún fluttist á Suðurnesin: „Ég er aldrei sjálf með Skötu á Þorláksmessu en börnin mín borða hana.“

Helga og eiginmaður hennar fluttu til Keflavíkur árið 1964 og hafa búið hér síðan. Helga segir að á svo stóru heimili hafi oft verið mikið fjör: „Það var oft mikið fjör á heimilinu og ansi glaðlegt, en um 20 ár eru á milli elsta og yngsta barnsins,“ segir Helga og bendir stolt á myndirnar af börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum sem hanga uppi um alla veggi hjá henni: „Þetta er minn helsti fjársjóður og ég vil hafa þau öll nálægt mér.“

Þegar Helga rifjar upp jólin sem barn segir hún að það hafi alltaf verið voðalega gaman: „Við vorum alltaf með hangikjöt og svið á aðfangadag og síðan lambasteik. Ég hef alltaf haldið þessari hefð við og haft þrjá aðalrétti á aðfangadag. Við fengum alltaf jólapakka, en þeir voru miklu minni en þeir eru í dag. Oftast var okkur gefið eitthvað heimatilbúið til dæmis sokka og það var mikil gleði að fá slíkan pakka. Við fengum alltaf kerti og spil, en ávexti eins og epli og appelsínur sá maður bara á jólum og okkur fannst alltaf mikil jólalykt af þeim. Mamma bakaði líka mjög mikið og var mjög myndarleg húsmóðir,“ segir Helga.

Heima hjá Helgu á Garðaveginum hefur hún búið sér fallegt heimili sem um jólin skartar jólaskrauti í hverju horni. Inni hjá henni er fallegt jólaskraut og segir Helga að hún hafi gaman af því að skreyta: „Ég er voðaleg glyngurkona og vil hafa mikið jólaskraut í kringum mig. Ég fæ aðstoð frá börnunum mínum við að koma jólaskrautinu upp og ég hlakka mikið til jólanna, en ég skiptist á að vera hjá börnunum mínum um jólin,“ segir Helga að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024