Amma hringir daglega frá Póllandi
Ania Beata Rubaj og Marcin Marek Rubaj fluttu frá Póllandi til Íslands fyrir níu árum síðan, þá um tvítugt. Þau ætluðu að vinna hérna í eitt ár og fara svo aftur heim. Þau búa enn á Íslandi, hafa fest kaup á fallegu húsi í Reykjanesbæ og eiga tvo syni, Kacper Aron 6 ára og Alexander 2 ára og sjá framtíðina fyrir sér á Íslandi. „Lífið á Íslandi er yndislegt en ég sakna fjölskyldu og vina í Póllandi mikið. Sérstaklega núna um jólin. Stundum hugsa ég um að flytja til baka en minni mig þá á að lífsbaráttan þar er miklu erfiðari. Við Marcin erum heppin að hafa bæði góð störf á Íslandi og strákarnir okkar una sér vel í skóla og leikskóla,“ segir Ania.
Eiga góða að á Íslandi
Bæði eru þau Ania og Marcin frá suðurhluta Póllands en kynntust þegar þau voru í skólaferðalagi með menntaskólum sínum í norður Póllandi. Stuttu eftir stúdentsprófin hjá Marcin hafði bróðir hans samband frá Íslandi og sagði honum að starf hefði verið að losna í kavíarvinnslu í Njarðvík og bauðst til að lána honum fyrir flugfarinu. „Ég vildi ekki fara til Íslands nema Ania kæmi með. Hún hafði enga vinnu fyrstu vikurnar, við þekktum fáa og töluðum ekki tungumálið svo þetta var erfitt til að byrja með,“ segir Marcin. Eftir nokkurra vikna dvöl á Íslandi fékk Ania vinnu hjá Matstofu Kópavogs sem síðar færði út kvíarnar og opnaði veitingastað á Keflavíkurflugvelli og þá færði hún sig þangað. Þar vann Ania hjá Haraldi Helgasyni úr Njarðvík. Magnús Þórisson, sem í dag á Réttinn, starfaði á þeim tíma á veitingastaðnum á Keflavíkurflugvelli og þegar hann stofnaði réttinn bauð hann Öniu vinnu. Enn þann dag í dag, tæpum átta árum síðar, starfar Ania enn á Réttinum. „Maggi og hans fjölskylda hafa verið eins og íslenska fjölskyldan okkar og það er alveg ómetanlegt. Við njótum mikils skilnings á því að við eigum ekki ömmur og afa hér á Íslandi sem passa fyrir okkur. Til dæmis núna í vikunni lauk skólanum fyrr síðasta daginn fyrir jólafrí og þá passaði sonur Magga strákinn okkar, svona fáum við dýrmæta hjálp við að leysa málin,“ segir Ania.
Ania hefur starfað hjá matstofunni Réttinum frá því fyrirtækið var stofnað fyrir tæplega átta árum og er vaktstjóri þar.
Þau fara til Póllands á hverju ári og reyna eftir fremsta megni að halda góðu sambandi við fjölskyldu og vini í Póllandi sem koma líka í heimsókn til Íslands. Ania heyrir daglega í mömmu sinni á Skype og segir það dýrmætt, þó svo að samtölin séu stundum stutt og þær deili helstu fréttum. „Síminn hringir yfirleitt nokkrum mínútum eftir að við komum heim og það er alltaf gott að heyra í mömmu,“ segir Ania.
Hlakkar alltaf til að mæta í vinnuna
Bróðir Marcin, sem taldi hann á að flytja til Íslands á sínum tíma, er fluttur aftur heim til Póllands. Marcin hefur unnið á sama staðnum, hjá Idex-gluggum í Njarðvík í yfir átta ár. „Þegar ég byrjaði kunni ég varla neitt en nú er ég yfirmaður fimm manna svo það er töluverð ábyrgð. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og starfið er mjög fjölbreytt. Á sunnudagskvöldum hlakka ég til að mæta í vinnuna á mánudagsmorgni og þannig á þetta að vera.“ Marcin og vinnufélagar hans hafa til að mynda smíðað glugga í viðbyggingar á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og segir hann alltaf gaman að sjá gluggana í húsum þegar verkið er tilbúið.
Annað sjónarhorn á lífið
Eins og áður sagði eru Ania og Marcin frá Suður Póllandi. Marcin segir ljóst að þau gætu ekki haft það eins gott og þau gera ef þau byggju þar. Hann segir brauðstritið erfiðara í suður Póllandi en annars staðar í landinu og tekur föður sinn sem dæmi. Hann hefur alla tíð starfað í kolanámu, stundum á fimm hundruð metra dýpi við erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður. „Ég get ekki hugsað mér þannig líf enda á ég tvo syni og vil vera til staðar fyrir þá. Við gætum ekki átt svona stórt hús í Póllandi og ég hugsa að þá ættum við frekar eitt barn en tvö. Ég held að við þyrftum líka að vinna miklu meira, jafnvel tólf tíma á dag, alla virka daga.“
Marcin hefur unnið hjá Idex gluggum í Njarðvík í átta ár. Þar líkar honum vel og hlakkar alltaf til að hefja nýja vinnuviku.
Ania og Marcin eru sammála um að hver og einn sjái heiminn út frá sinni reynslu og því ef til vill skiljanlegt að Íslendingar séu ekki allir jafn sáttir og þau við lífskjörin hér á landi. „Kannski væri gott að senda ungt fólk á Íslandi til Póllands eða Litháens í eitt ár. Eftir það myndi fólk skilja betur hvað það hefur það gott á Íslandi,“ segir Marcin og brosir. „Við höfum búið í Póllandi og þekkjum vel til þar svo að við höfum samanburðinn. Fyrir okkar er lífið hérna betra en auðvitað söknum við fólksins okkar í Póllandi. Til dæmis á bróðir minn tvö börn sem ég hitti allt of sjaldan og þegar amma mín féll frá komst ég ekki að kveðja hana. Þær stundir eru alltaf erfiðar,“ segir Ania.
Vildu ekki að börnin yrðu túlkar foreldranna
Bæði Ania og Marcin tala reiprennandi íslensku og segjast hafa lært mest af því að spjalla við íslenska vinnufélaga. Til að byrja með fóru þau á nokkur íslenskunámskeið. „Það tók okkur langan tíma að læra íslenskuna og fyrstu þrjú til fjögur árin á Íslandi þá töluðum við ensku. Svo fæddist eldri strákurinn og fór í leikskóla og lærði íslensku og auðvitað vildum við skilja það sem hann sagði og líka hvað var að gerast þar. Núna er eldri strákurinn okkar í 1. bekk og er að læra að lesa og skrifa sögur og við lærum íslensku líka með honum. Það er erfitt að læra nýtt tungumál en ég held að þeir sem virkilega vilji læra íslenskuna geti það,“ segir Ania. Marcin segir Íslendinga alltaf hafa verið jákvæða þegar hann var að reyna að tala íslensku í byrjun. „Ég fór bara í bankann og á pósthúsið og talaði við fólk á íslensku. Ég hef engar áhyggjur af því að ruglast, stundum skilur fólk mig ekki strax en það er allt í lagi.“ Ania segir að fæðing eldri sonarins hafi ýtt við þeim að læra íslensku enda gátu þau ekki hugsað sér að hann myndi þurfa að túlka fyrir þau þegar hann yrði eldri.
Í sumarfríi í Póllandi. Þangað fara Ania, Marcin og börnin á hverju ári.
Fjölskyldan talar yfirleitt saman á pólsku heima og horfir saman á barnaefni á pólsku. „Stundum eftir langan dag í skóla og á íþróttaæfingu þá spyr sá eldri hvort hann geti ekki bara sagt okkur frá einhverju atviki á íslensku og þá er það auðvitað í lagi,“ segir Ania.
Bæði pólskir og íslenskir jólasveinar
Í Póllandi tíðkast að borða ekki kjöt á aðfangadag, heldur fisk, súrsað kál, sveppi og fleiri smárétti og heldur fjölskyldan jólin að pólskum sið. Þar tíðkast líka að bíða eftir að fyrsta stjarnan sjáist á himni og setjast þá við matarborðið. Það er reyndar erfitt að halda í þá hefð á Íslandi þar sem oft er lélegt skyggni í vetrarhörkum í desember. Ania og Marcin halda alltaf upp á jólin með pólskum vinum sem búa í Reykjavík. Fjölskyldurnar skiptast á að bjóða heim til sín á aðfangadagskvöld. „Þau eru í sömu stöðu og við og eiga ekki fjölskyldu á Íslandi. Við erum eiginlega orðin eins og fjölskylda og það er gaman að halda saman upp á jólin, sérstaklega eftir að börnin fæddust,“ segir Marcin. Synirnir Alex og Kacper fá í skóinn frá íslensku jólasveinunum og hittu líka þann pólska 6. desember en sá dagur er jólasveinadagurinn í Póllandi. Þá kemur jólasveinn heim til fólks, spjallar við börnin og gefur þeim pakka.
Kacper Aron að njóta sumarblíðunnar í Póllandi.
Hugsunarhátturinn orðinn íslenskur
Ania og Marcin eru sammála um að hugsunarháttur Íslendinga og Pólverja sé að sumu leiti ólíkur. Þau útskýra það þannig að vegna þess lífsbaráttan sé erfið í Póllandi láti fólk það ganga fyrir að vinna, ekki endilega til að kaupa sér fallega hluti heldur til að þess að lifa af. „Þessi hugsun er einfaldlega í blóðinu,“ segja þau. Eftir áramót ætlar Ania að hefja nám í förðun við Reykjavík Make-up School og hlakkar mikið til. „Ég er pínu stressuð að skilja ekki allt sem verður sagt á námskeiðinu en þetta verður alveg örugglega gaman. Mig langar að breyta til og gera eitthvað fyrir sjálfa mig. Það væri gaman að geta tekið að sér að farða fólk fyrir sérstök tilefni. Ætli þetta sé ekki hluti af því að hugsunarhátturinn okkar er búinn að breytast og orðinn meira eins og hjá Íslendingum, að kunna líka að njóta lífsins.“