Ameríska jólaskrautið jók á jólagleðina
Þegar auglýst var eftir mesta jólabarni Grindavíkur á dögunum fengu hjónin Guðrún Bjarnadóttir og Pétur Gíslason nokkuð mörg atkvæði. Þess vegna var gráupplagt að kíkja í heimsókn til þeirra og þar er verkaskiptingin einföld, Gunna stýrir málum innan dyra og Pétur ræður ríkjum úti við. Gunna hefur alltaf verið mikið jólabarn, Pétur var það ekki en smitaðist af konu sinni en hvar byrjar jólagleði Gunnu: „Ég er úr Garðinum og Grindavík og man ekki öðruvísi eftir mér en á báðum stöðum því ég var öll sumur hjá ömmu og afa í Garði en hef annars frá unga aldri búið í Grindavík.
Ég var alltaf nokkuð mikið jólabarn þegar ég var yngri en ég er fædd á annan í jólum. Það jókst svo eftir að ég byrjaði að búa en þá þurfti ég oft að fara út til New York með elstu dóttur mína í læknismeðferð. Ameríkanarnir kunna sko að skreyta og ég kom alltaf klyfjuð af alls kyns jólaskrauti þegar ég kom heim, eitthvað sem sást ekki hér á landi og voru margir íbúar Grindavíkur sem gerðu sér ferð fram hjá húsinu okkar til að skoða dýrðina. Fyrstu jólaminningarnar sem barn, tengjast ferðum út í Garð en þar hittist fjölskyldan öll á jóladegi ef það var fært en amma var fædd á nýársdegi og sú hefð er ennþá við lýði að fjölskyldan hittist öll á nýársdegi í Garðinum, venjulega í íþróttahúsinu. Allir koma með veitingar og við eigum góða stund saman.“
Gunna ræður ríkjum innandyra en Pétur sem er frá Hellissandi, er mjög metnaðarfullur þegar kemur að skreytingum utanhúss en hann er með eftirlíkingu af æskustöðvunum og kirkjunni sem þar er, úti í garði: „Bærinn sem amma mín bjó á heitir Dvergasteinn en ég var mikið hjá henni sem barn, hún var mjög trúuð og fullyrti að álfar byggju í Dvergasteini og sagðist hún oft hafa verið í hrókasamræðum við þá. Við bæinn er kirkjan Ingjaldshólskirkja og þar sem ég hef gaman af því að búa til og skapa og fæ að ráða ríkjum hér utanhúss, þá datt mér í hug að byggja eftirlíkingu af þessum æskuslóðum mínum. Ég hef mjög gaman af því að bæta jólaljósunum við en annars er alltaf lýsing á þessu og það er mjög algengt að fólk stoppi fyrir utan og taki myndir.“
Fjölskyldan tók upp flotta jólahefð fyrir nokkrum árum: „Í stað þess að við skiptumst á að vera hjá börnunum okkar á aðfangadegi þá borðum við öll saman hér hjá okkur og barnabörnin fá að opna jólapakkana frá okkur en svo halda allir til síns heima og klára að opna gjafirnar þar og fá sér eftirrétt. Við hittumst síðan öll á jóladegi hér hjá okkur og borðum jólahangikjötið en svo erum við öll saman hjá Sigurlaugu og fjölskyldu hennar á gamlárskvöldinu. Við hlökkum mikið til jólanna,“ sögðu hjónin að lokum.