Alveg geggjað sjónarspil
Sigurður Skarphéðinsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, segir það hafa verið geggjað sjónarspil að sjá náttúruöflin í öllu sínu veldi í Geldingadölum. Víkurfréttir heyrðu í Sigurði og spurðu hann út í páskaundirbúning og fleira.
Hvernig á að halda upp á páskana?
Líklegast verður farið í sumarbústaðinn hjá tengdaforeldrunum.
Eru hefðir hjá þér um páskana eða í páskamat?
Í sjálfu sér engar sérstakar hefðir en oftast þegar maður er ekki á vakt. Þetta er fyrsta sumarbústaðarferðin um páska og þá er það oftast einhver góð lambasteik á grillinu.
Hvað hefðir þú gert þessa páska ef ekki væri þetta ástand í heiminum?
Líklega ekkert breytt á páskum en væri líklega búin að kíkja til Tenerife á vetrarmánuðum ef ekki væri fyrir þetta ástand.
Hvernig er uppáhaldspáskaeggið þitt?
Núna í ár verður það saltkaramellupáskaegg.
Hver er þinn uppáhaldsmálsháttur?
Svo lærir lengi sem lifir.
Hvað viltu segja nú þegar nýjustu takmarkanir voru settar vegna Covid-19?
Vil helst ekki hafa það eftir, vona bara að þetta vari stutt og fólk fari mjög varlega og haldi sóttvarnareglur í heiðri og spritti, passi fjarlægðir á milli fólks og hugi vel að hvort öðru, þessu hlítur að fara að ljúka ... vonandi.
Ertu búinn að fara á gosstöðvar og hvernig var upplifunin?
Búin að fara með konunni og vinahjónum. Fengum æðislegt veður, stillt en frekar kalt og fórum seinnipart þannig að við náðum að koma á staðinn í birtu og vorum fram í myrkur. Alveg geggjað sjónarspil, náttúruöflin í öllu sínu veldi og vel þess virði. Gönguferðin er samt erfiðari en margir halda og mæli ég með að allir séu vel búnir og í góðum gönguskóm auk þess að vera með ljós ef verið er fram í myrkur, alveg nauðsynlegt.