Alþjóðlegur minningardagur fórnarlamba umferðarslysa
Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn í dag. Landsmenn eru hvattir til að nota þennan dag til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og þeim sem hafa slasast. Jafnframt að íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber sem þátttakandi í umferðinni. Klukkan 11:15 verður einnar mínútu þögn sem landsmenn eru hvattir til að taka þátt í.
Í auglýsingu frá Innanríkisráðuneytinu um minningadaginn kemur fram að um það bil 4.000 manns láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni.
Þann 1. nóvember árið 2013 höfðu 979 látist í umferðarslysum á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968.