Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Alþjóðlegir og ferskir listavindar í Garði
Fimmtudagur 11. janúar 2018 kl. 11:00

Alþjóðlegir og ferskir listavindar í Garði

- Listahátíðin haldin í fimmta sinn í Sveitarfélaginu Garði

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, opnaði Ferska vinda, alþjóðlega listahátíð í Garði, um liðna helgi. Ferskir vindar eru nú haldnir í fimmta sinn en verkefnið er í samstarfi Mireyu Samper og Sveitarfélagsins Garðs.

Alþjóðlegur hópur listamanna hefur starfað og búið í Garði frá 16. desember sl. og unnið að listsköpun sinni. Þema Ferskra vinda í ár er „draumar“ og því hafa fjörtíu listamenn af tuttugu og einu þjóðerni unnið að draumkenndri listsköpun síðustu vikur.

Afraksturinn var frumsýndur um liðna helgi og næstu helgi, dagana 13. og 14. janúar, verður boðið upp á leiðsögn um sýningar frá kl. 14 báða dagana. Ferskir vindar standa svo formlega til 17. janúar nk. en verkin eru innblásin af náttúru og menningu staðarins.
 
Sýningar eru í sýningarsal að Sunnubraut 4 og þaðan verður farið með rútu í Listaverkagarð Garðs, íþróttahúsið, Útskálahúsið, á Garðskaga og víðar um bæinn. Listamenn verða á staðnum og túlka verk sín. Gestir geta átt von á óvæntum uppákomum.
 
Þátttakendur í Ferskum vindum hafa unnið verk sín í tónum, gjörningum, myndverkum og skúlptúrum. Verkin er að finna á átta stöðum í Garði en í sýningarskrá á slóðinni fresh-winds.com er einnig vísað á þrettán eldri verk frá fyrri hátíðum en öll verk sem sköpuð eru á listahátíðinni verða eftir í Garði. Sum þeirra munu lifa áfram en önnur eru tekin niður eftir að sýningum lýkur, enda þannig verk að ekki er hægt að varðveita þau til framtíðar.
 
Meðfylgjandi myndir (sjá safn að neðan) voru teknar við setningarathöfnina að Sunnubraut 4 um síðustu helgi. VF-myndir: Hilmar Bragi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ferskir vindar í Garði 2018