Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar blása í fimmta sinn í Garði
Miðvikudagur 20. desember 2017 kl. 09:36

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar blása í fimmta sinn í Garði

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar er nú haldin í Garðinum í fimmta sinn en hátíðin er hafin og mun standa frá laugardeginum 16. desember til sunnudagsins 14. janúar. Þema hátíðarinnar er Draumar.
 
Þessa dagana eru listamennirnir, hvaðanæva úr heiminum, að koma í Garðinn og munu dvelja þar, skapa list og auðga mannlíf bæjarins. Að hátíðinni, eins og fyrri hátíðum, stendur Mireya Samper, listrænn stjórnandi og eigandi Ferskra vinda, í samstarfi við Sveitarfélagið Garð og fjölda styrktaraðila.
 
Listamenn hátíðarinnar verða fjörutíu talsins og má finna upplýsingar um hvern listamann á heimasíðu Ferskra vinda, http://fresh-winds.com/.
 
Í hópnum eru fimm íslenskir listamenn en þau eru Brynhildur Þorgeirsdóttir myndhöggvari, Bjarni Sigurbjörnsson málari, Ragnheiður Guðmundsdóttir þráðlistakona (textíl), Arna Valsdóttir kvikmyndalistakona (video) og Hrafn A. Harðarson ljóðskáld og íbúi í Garði.
 
Listamennirnir verða um allan bæ að skapa listaverk sín sem verða svo hluti af sýningu hátíðarinnar, en sum þeirra munu væntanlega standa um ókomna tíð í Garði. Fjöldi listaverka frá fyrri hátíðum Ferskra vinda skreyta nú Sveitarfélagið Garð og fjölgar þeim væntanlega enn á þessari hátíð, segir á heimasíðu Sveitarfélagsins Garðs.
 
Opnunarhátíð sýninga verður laugardaginn 6. janúar í sýningarsal á bæjarskrifstofu Garðs, að Sunnubraut 4, og helgarnar  6. til 7. og 13. til 14. janúar verða í boði rútuferðir á milli listaverka og sýninga hátíðarinnar, þar sem listamenn taka á móti gestum og segja frá verkum sínum.
 
Listunnendur og allir þeir sem aðhyllast hugmyndaríki, sköpun og opinn huga eru hvattir til að koma og fylgjast með, taka þátt og njóta skemmtilegs viðburðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024