Almættið hefur brosað yfir kirkjuturninum í Keflavík
- segir Skúli Ólafsson sóknarprestur Keflavíkurkirkju sem fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir
Það gustaði við komu nýja sóknarprests Keflvíkurkirkju árið 2006 enda hefur yfirleitt ekki verið nein lognmolla í starfi kirkjunnar í bítlabænum. Séra Skúli Ólafsson átti rætur að rekja til Keflavíkur en sú eldskírn sem hann fékk við komuna herti unga prestinn sem var að koma frá Ísafirði. Hann tókst á við verkefnið af alvöru og fljótlega eftir komu hans fóru nýir hlutir að gerast í Keflavíkurkirkju. Nú er Skúli á leið á nýjar slóðir eftir níu ára starf og mun ásamt Sigríði Guðjónsdóttur lögreglustjóra og eiginkonu sinni takast á við nýjar áskoranir. Páll Ketilsson ræddi við sóknarprestinn sem heldur kveðjumessu sína á 100 ára afmæli Keflavíkurkirkju.
100 ára afmæli Keflavíkurkirkju og það er dálítið sérstakt að á sama tíma er sóknarpresturinn á leiðinni eitthvað annað.
Já, það er mjög skrýtið. Það er svo fyndið og merkilegt að þegar ég kom hingað 2006 var ég svolítið upptekinn af því að söfnuðurinn færi að setja sér markmið og vinna eftir ákveðnum línum. Og einhvern veginn festist þetta í kollinum á mér að innan áratugar yrði kirkjan 10 ára. Það voru níu ár í þetta sem okkar fannst ægilega langur tími. Við enduðum á því að kalla stefnumótunina okkar Keflavíkurkirkja 2015. Við vorum að fara í gegnum gögn og fermingarbörn sem fermdust vorið 2007 voru búin að gera flott veggspjöld sem hafa yfirskriftina Keflavíkurkirkja 2015. Sem var eiginlega eins og sviðsmynd fyrir vísindaskáldsögu á þeim tíma. Þessi tími er runninn upp, 100 ára afmæli, og það vill svo merkilega til að það verður líka kveðjumessan mín.
Það var smá fjör ef hægt er að orða það svo, við ráðninguna þína á sínum tíma.
Já, það var dálítið skrýtið. Ég var á Ísafirði þegar það byrjaði, maður horfði á þetta úr fjarlægð. Ég hugsaði með mér: Jæja, þetta fólk þekkir mig ekki. Svo spurði einhver á móti: Hvernig væru lætin ef þau þekktu þig? En þetta var bara ein af þessum stóru áskorunum og ég hugsa að óánægjan hafi tengst eldri málum eins og verulegum deilum vegna byggingar safnaðarheimilisins. Kannski eimdi eitthvað af því. En svo þegar ég kom á staðinn, kynntist fólkinu og fór að starfa með því þá mættu mér auðvitað útréttir armar. Fólk var mjög fljótt að taka mig í sátt. Síðan segi ég nú gjarnan að almættið hafi verið brosandi yfir kirkjuturninum í Keflavíkurkirkju. Við erum búin að fá hverja himnasendinguna á fætur annarri í hendurnar af fólki, bæði launuðum starfsmönnum kirkjunnar og sjálfboðaliðum og þessum leiðtogum sem eru með okkur í þessu starfi og gera kirkjuna að því sem hún er. Þannig að þegar ég horfi til baka þessi níu ár, þá er mikil birta yfir þessum tíma og mikil uppbygging sem hér hefur farið fram . Virkilega gaman að hafa tekið þátt í henni.
Hvernig var að koma frá Vestfjörðum og til Keflavíkur? Þú varst í ennþá minna samfélagi þar.
Ég var í litlu samfélagi þar, mjög ólíku. Ísafjörður er fjórðungsmiðstöð Vestfjarða og þar er atkvæðisvægi mjög hátt. Maður fór varla í fermingarveislur eða einhver mannamót án þess að þar væru a.m.k. tveir þingmenn og helst einn ráðherra. Þeir eru með mikið af stórum karakterum. Mér brá í brún þegar ég kom inn á þetta gríðarstóra svæði, sem var auðvitað hinum megin á línunni, og það var dálítið eins og að fólk væri sofandi yfir því að hafa talsmenn fyrir svæðið í landsmálapólitíkinni. Það hefur nú heldur betur ræst úr þeim málum nýlega. En það voru ákveðin atriði sem voru ólík en svo önnur sem maður stóð sig að bera saman. Suðurnesin og Vestfirðirnir. Landfræðilega gæti þetta ekki verið ólíkara. Margir Vestfirðingar sem fá þá leiðsögn að keyra upp á Miðnesheiði og beygja svo til hægri til Keflavíkur enda úti á Garðskaga því þeir fundu aldrei neina heiði. En mér hefur fundist gaman að bera þessi svæði saman og ég segi gjarnan að Grindvíkingar séu Bolvíkingar Suðurnesja. Þar er svo margt sem líkist þessum samfélögum, mikill bragur yfir þeim. En það sem einkennir bæði Vestfirði og Suðurnesin sem og önnur svæði utan höfuðborgarsvæðisins er auðvitað heilmikil varnarbarátta. Maður hefur nú aldeilis fengið að kynnast henni hér á þessu svæði.
Hvað var þér efst í huga með nýrri stefnumótun Keflavíkurkirkju? Vildirðu skýrari sýn? Hvað sástu fyrir þér?
Fyrst og fremst að horfa fram á veginn, við vorum búin að vera dálítið mikið í baksýnisspeglinum. Við spurðum okkur hvar við getum gert betur og hvar mætti slaka á kröfunum. Og sóknarnefndin komst að því að lögð yrði áhersla á þrjú atriði: velferðarmál, kærleiksþjónustu og menningarmál. Þau hafa verið alveg framúrskarandi góð hjá Keflavíkurkirkju. Annar tilgangur með þessu fólst í því að kynna Keflavíkursókn með jávæðum hætti. Ég fór um allan bæ með hugmyndir sóknarnefndar og kynnti þær og fékk allskonar hugmyndir á móti. Fórum til bæjaryfirvalda og í skólana. Ýmsar hugmyndir komu fram eins og að sýna enska boltann í beinni. Gaman að því. Svo var þriðji tilgangurinn með stefnunni hópefli og fá skemmtilega dínamík í samfélagið. Hún hefur farið vaxandi síðan.
Það hefur verið tekið eftir því hversu vel hefur tekist til og starfið er öflugt. Þegar þú horfir til baka í gegnum þessa stefnumótun og það sem hefur gerst í samfélaginu, finnst þér allt hafa áunnist sem þú vildir?
Miklu meira en ég gat ímyndað mér. Ég sá ekki fyrir mér að við ættum eftir að fara á þetta mikla flug og það er vegna þess að við höfum fengið hingað þetta fólk sem getur haft áhrif. Það hefur lagt sitt af mörkum til þess að Velferðarsjóðurinn á Suðurnesjum sem við stofnuðum, hefur safnað 60 milljónum frá árslokum 2008. Okkur hefur tekist að kalla eftir þessum margfeldisáhrifum þar sem allir leggjast á eitt.
Hér verður bankahrun og Keflavík og nágrenni fer illa út úr því. Þið standið að stofnun velferðarsjóðs á Suðurnesjum. Segðu okkur aðeins meira frá því.
Það voru leiðtogarnir okkar, heimilisfólkið, sem kom með þessa hugmynd. Menn höfðu verið að nefna þetta en einn hópur kom með hugmyndina í Skálholti. Ég stökk ekkert upp til handa og fóta þegar ég heyrði hugmyndina. Ég spurði fyrst, hvað við værum að koma okkur út í. Erum við með bolmagn til þess að halda utan um slíkt? Það þurfti tíma til að sannfæra mig. Við náðum svo að kalla fram þessa jákvæðu krafta í samfélaginu. Það er ekki bara Keflavíkursókn sem má vera stolt af því að hafa áorkað þessu. Það er samfélagið á Suðurnesjum sem má rifna úr stolti yfir að hafa á þessum tíma sýnt sínum minnstu systkinum slíkan stuðning þegar á móti blés. Krakkar komu með litlu-jóla peningana sína í þetta, fyrirtæki, félög og samtök. Þetta er góð einkunn fyrir samfélag sem lendir í kreppu. Fólk breyttist úr þolendum í gerendur - úr fórnarlömbum í sanna leiðtoga.
Hefur sjóðurinn heft góð áhrif á samfélagið? Hvernig finnst þér samfélagið vera í dag miðað við fljótlega eftir hrun?
Mér finnst rofa hressilega til hér á svæðinu, þrátt fyrir misgóðar fréttir af fjárhagstöðu sveitarfélagsins. Viið hjónin settum húsið okkar á sölu sl. sumar og fólk sagði ekkert vera að gerast á fasteignamarkaðnum. Svo er ég búinn að hitta fjölda fólks sem selt hefur húsin sín á augabragði. Fólk streymir hér að. Ég get vottað það, hafandi alið upp tvö af okkar þremur börnum hér hversu framúrskarandi þjónusta er hér fyrir barnafólk. Guttinn okkar í leikskólanum er að lærir að lesa og draga til stafs. Fólk hlýtur að horfa til slíks og íþróttastarfsins og unglingastarfsins sem er mjög öflugt hérna, að kirkjustarfinu ógleymdu!
Þið hafið líka verið þekkt fyrir það að vera með öflug skemmtilegheit í kirkjunni. Ýmsar uppákomur?
Heldur betur, maður sogast inn í það sem virðulegur prestur sem kom frá Ísafirði. Áður en ég vissi var ég búinn að klæða mig upp sem ref og syngja með félögum mínum í söngleik á sviði á Ljósanótt. Þegar ég gekk niður af sviðinu var ég að semja afsökunarbréf í huganum til sóknarinnar fyrir flippið. En ég hef sjaldan fengið eins góð viðbrögð við því sem ég hef tekið að mér. Með athæfinu söfnuðum við peningum til góðra verka í samfélaginu. Við erum að vinna með frábæru fólki hérna. Sr. Erla Guðmundsdóttir kom inn um svipað leyti og ég. Við höfum verið samstíga í öllum þeim breytingum sem hafa orðið. Hún á alveg gríðarmikinn þátt í því sem hér hefur gerst og ég hefði ekki getað hugsað mér þetta starf hér án hennar. Tónlistarmál kirkjunnar hafa heldur betur rokkað undir forystu Arnórs Vilbergssonar og auðvitað sígildari tónlistarstefnur einnig. Þórunn Þórisdóttir heldur með skeleggum hætti utan um rekstur kirkjunnar. Leikmannahreyfing í kringum kirkjuna er alveg einstök, með formanninn Ragnheiður Ástu Magnúsdóttur í broddi fylkingar.
Finnst þér almenningur vita vel af öllu þessu starfi sem fram fer hér?
Já, mér finnst það. Fólk horfir á okkur víða að hvernig við höfum byggt upp okkar starf. Við getum vel tekið fram vissa þætti og svið og sagt að við séum í fremsta flokki þar. Fólk sem mætir í barnamessu sér að hér er þétt setinn bekkurinn og alúð og gleði ríkir. Eins og ég er ánægður með að þetta er í góðum höndum þá á ég að sjálfsögðu eftir að sakna þess hversu gott þetta er hér.
Fyrir um 15 árum var byggt hérna safnaðarheimili og það var ekki átakalaust og án deilna. Langflestir eru sammála um að það hafi heppnast ákaflega vel. Undir þinni stjórn var farið í að breyta kirkjuskipinu, gluggum og öðru. Ekki voru allir á eitt sáttir þar heldur.
Safnaðarheimilið vakti miklar deilur en er vitaskuld glæsileg bygging. Við fáum fólk hingað frá öðrum landshlutum og öðrum löndum í tengslum við starfið hér og gjarnan hælir fólk þessari hönnun og arkitektúr. Það var mjög erfitt að taka þá ákvörðun að fara í endurbætur á kirkjunni. Ákveðið að fara þessa leið og við vissum að einhverjir yrðu ekkert mjög ánægðir með hana. Það sem við höfum fengið er kirkja sem líkist miklu meira því sem Rögnvaldur Ólafsson vildi að hún yrði. Hún er hönnuð með þennan stíl í huga, svokallaða nýklassíska stíl; látlaus, einföld og björt. Kirkjan er með miklu betri hljómburði og það er betra loft í henni. Og birtan en miklu betri. Okkur er það ekki gleðiefni að valda fólki leiðindum. XXXÞetta voru innréttingar sem fólk safnaði fyrir, gluggar sem voru settir upp eru afrakstur gjafafjár. Við skoðum ýmsar leiðir með gömlu steindu gluggana. Er hægt að setja þá upp annars staðar? Sú hugmyndavinna er í fullum gangi en er langt í frá að vera einfalt verk. Gluggarnir eru viðkvæmir. Allar gjafir eru háðar breytingum. Þegar fólk gefur eitthvað til kirkjunnar í fallegum tilgangi og hug þarf að gera ráð fyrir því að hluturinn standi þar uppi í einhvern ákveðinn tíma. En öllu er afmarkaður tími eins og þar stendur.
Nú er þið hjónin flutt til Reykjavíkur. Konan þín búin að vera lögreglustjóri og þú sóknarprestur Keflavíkur. Einhvern tímann hefði það verið talin sérstök blanda til að vera með á heimili. Einhvern tímann voru prestarnir valdamestir í hverjum bæ.
Ég get fullyrt að það hefur gengið vel og sambúðin góð á heimilinu og konan mín hefur staðið í ströngu að ganga í miklar breytingar hér. Hún horfði upp á mikinn vöxt í sínum verkefnum. En nú er hún komin á annan póst og í aðrar áskoranir. Maður finnur mjög vel þegar maður er að ganga í gegnum breytingar að samfélagið sem við höfum notið þess að dvelja í er alveg einstakt og skilur okkur eftir með mikið og gott veganesti.
Að lokum: hvernig viltu sjá 100 ára Keflavíkurkirkju fara inn í næstu ár - inn í framtíðina?
Með þeim anda sem okkur hefur tekist að starfa áfram í. Eins postulinn segir við lesum í brúðkaupum - menn geta búið yfir ýmsum náðargáfum, spádómsgáfum og predikun og öllu mögulegu. Ef menn hafa ekki kærleikann, þá eru þeir hljómandi málmur og hvellandi bjalla. Að hafa kærleikann að leiðarljósi í starfi eins og hér er algjört undirstöðuatriði.
Keflavíkurprestarnir með biskupi á góðri stundu í kirkjunni.
Frá tónleikum í desember sl. Að neðan má sjá mynd frá Toscana óperutónleikum í Keflavíkurkirkju. Hópurinn saman kominn fyrir utan kirkjuna. Neðst er mynd af Hljómum á tónleikum í kirkjunni all nokkrum árum síðan.
Frá fisksölu á fiskmarkaði Velferðarsjóðs í Nettó. Neðst er mynd úr barnastarfi.