Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Alltaf til í veski, skó, brúsa og bangsa
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 06:02

Alltaf til í veski, skó, brúsa og bangsa

Júlía Ruth Thasaphong er grindvísk fótboltakona sem spilar með Keflavík. Hún er í háskóla í Bandaríkjunum og leikur fótbolta með liði skólans, Oral Roberts University sem er í Tulsa í Oklahoma-fylki. Fótboltinn er þ.a.l. stór hluti áhugamálanna en hún hefur líka gaman af því að vera með vinum sínum og ferðast.

Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið byrjaði á að aðlagast nýjum aðstæðum en ég missti pabba minn í sjóslysi í desember 2022. Ég fór aftur út til Tulsa í skólann um miðjan janúar og þar fór bara allt á fullt í fótboltanum og skólanum. Sumarið var fótbolti og vinna en ég var að vinna sem flokkstjóri í bæjarvinnunni í Grindavík og spilaði fótbolta með Keflavík. Fór svo aftur til Tulsa í lok júlí og allt fór á fullt aftur þar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég er mikið jólabarn og ekki verra að eiga afmæli 25. desember.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Oftast sett upp í kringum 20. desember síðustu ár en annars var það alltaf sett upp á þorláksmessukvöld þegar ég var yngri. Ef ég mætti ráða þá myndi ég setja það upp 1. desember.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ég fæddist 25. desember 2003 klukkan 13:05, það voru allir í stórfjölskyldunni í hangikjötsveislu hjá langömmu og langafa svo fæðingin var semí í beinni. Ætli Baby Born tvíburakerran sem ég fékk í jólagjöf þegar ég var um fjögurra ára standi ekki upp úr en ég átti tvíburadúkkur sem að voru í miklu uppáhaldi.

En skemmtilegar jólahefðir?

Mér finnst alltaf mjög skemmtilegt að baka með mömmu. Við höfum alltaf haft fjölskylduafmælisboð seinni partinn á 25. desember með heitu súkkulaði og kökum, voða kósý. Svo horfum við fjölskyldan á jólamynd og njótum þess að vera saman. Laufabrauðsgerð heima hjá ömmu og afa er alltaf skemmtilegt líka en það verður ekki í ár vegna aðstæðna.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Mamma græjar það – hún er best.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Jólaísinn og blómkálssúpan hjá ömmu.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Ég á mjög margar eftirminnilegar gjafir en tvær standa upp úr. Fékk ferð á Liverpool-leik, það var mjög gaman, og gítar sem mamma og pabbi gáfu mér.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Er ekki með neitt sérstakt í ár – en er alltaf til í veski, skó, brúsa og bangsa.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Já, við erum alltaf með blómkálssúpu í forrétt, gæs í aðalrétt og heimatilbúinn ís í eftirrétt.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Njóta þessa að koma til Íslands og vera með fjölskyldunni og reyna að gera gott úr aðstæðum þar sem við þurftum að flýja Grindavík og verða því jólin á nýjum stað þetta árið. Ég fer svo aftur til Tulsa 14. janúar og kem svo heim í maí.