Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Alltaf stuð í þessari deild - 40 í rafvirkun í FS
Laugardagur 26. janúar 2019 kl. 08:00

Alltaf stuð í þessari deild - 40 í rafvirkun í FS

Það er óhætt að segja að nemendur í rafvirkjanámi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja séu alltaf nær því að vera í stuði heldur en aðrir nemendur skólans. Sumir hafa meira að segja fengið stuð í náminu en jafnað sig fljótt. Í dag er ein stúlka í rafvirkjanámi við FS en strákar sækja meira í þetta nám heldur en þær. Við hittum einn hóp nemenda á rafvirkjabraut en nemendur í deildinni eru alls fjörutíu.



Alexandra Jónsdóttir 16 ára:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekkert hrædd við rafmagn

„Mér finnst þetta áhugavert nám. Mig fór að langa að verða rafvirki í 10. bekk, áhuginn kom bara allt í einu. Mig langaði að prófa. Nú er ég á annarri önn og þetta leggst vel í mig. Stundum er þetta erfitt og þá fæ ég hjálp en þetta lærist. Ég er ekkert farin að prófa mig áfram heima í rafmagninu, er ennþá bara að æfa mig hér í skólanum. Vinkonur mínar urðu dálítið hissa þegar ég sagði þeim að mig langaði að verða rafvirki en þær vöndust því. Ég er bara með strákum í náminu en þær, ein er á listnámsbraut og önnur er á leið í hjúkrunarfræði. Já, ég sé mig sem rafvirkja í framtíðinni. Ég er ekkert hrædd við rafmagn og hef samt fengið rafstuð. Mér finnst gott að vera í verklegum tímum í þessari deild, þá fæ ég góða tilfinningu fyrir því sem ég er að læra. Ég gæti alveg hugsað mér að fá vinnu við rafvirkjun í sumar því þá lærir maður meira.“

Maríus Máni Karlsson 17 ára:

„Mig langar að verða rafvirki og er á öðru ári núna. Mér finnst gaman að fikta með víra og tengja og hef verið að leika mér með það heima líka. Þegar ég var í 10. bekk í Grindavík þá ákváðum við, ég og Matti vinur minn, að verða rafvirkjar eftir starfskynningu í íþróttahúsinu. Núna í þessum tíma erum við að setja upp fyrir stýringarverkefnið. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og mjög opið. Þegar maður klárar eitt verkefni þá má maður fara í annað verkefni. Kennararnir eru líka mjög skemmtilegir. Ég gæti alveg hugsað mér að fá vinnu við rafvirkjun í sumar því þá lærir maður meira.“



Rúnar Bárður Kjartansson 16 ára:

Fékk áhugann í 10. bekk

„Ég fékk fyrst áhuga á að verða rafvirki þegar ég var í 10.bekk en þá fór ég í starfskynningu í Heiðarskóla. Ég fékk að kynnast Rafverkstæði IB og fylgjast með rafvirkjum í vinnunni og þá kviknaði áhuginn fyrir alvöru. Nú er ég á annarri önn í rafvirkjanáminu hérna og hef fengið meiri tilfinningu fyrir náminu. Áhuginn hefur bara aukist hjá mér. Ég veit meira núna um hvað starfið gengur út á. Verklegi þátturinn gengur fyrir í náminu hjá okkur og það finnst mér líka gott. Ég gæti vel hugsað mér að vinna við rafvirkjun í sumar og læra meira af rafvirkjum.“



Björgvin Jónsson fagstjóri við rafiðnabraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja:

Spennandi nám fyrir bæði kynin

Hann er rafiðnfræðingur og kennari að mennt en hann fór í framhaldsnám til Danmerkur. Björgvin hefur starfað í FS frá árinu 2009. Hann tók sér hlé frá kennslu eitt árið og starfaði þá við rafvirkjun til þess að fríska upp á tenginguna við fagið, setti sig í samband við greinina aftur til þess að geta miðlað því áfram til nemenda sinna.

„Mér líkar vel við kennslu en hef einnig gaman af því að starfa sem rafvirki. Ég tók mér pásu frá kennslu einn vetur til að fríska mig upp og vann þá sem rafvirki, það var mjög gott. Þá fær maður púlsinn á því nýjasta sem er að gerast. Nei, það er ekki mikið um stelpur í rafvirkjanámi en annað slagið koma þær hingað. Þetta er spennandi nám fyrir bæði kynin. Við reynum að vera opnir og nálgumst einstaklingana eftir þörfum þeirra. Í FS má segja að rafvirkjabrautin sé með einskonar bekkjarkerfi, þessir nemendur er mjög oft saman, sami hópurinn og því kynnast krakkarnir? vel innbyrðis og það skapast góð vinátta og tengsl á milli þeirra.Þeim hefur fundist mjög gott að læra hjá okkur, námið mun persónulegra hjá okkur og meiri samheldni meðal nemenda á brautinni hjá okkur heldur en í stærri skólum.“

Hvaða framtíðarmöguleika eiga þessir nemendur af rafvirkjabraut?

„Þetta er að breytast í þriggja ára nám hjá okkur. Rafvirkjun er mjög fjölbreytt starf og næg atvinna býðst rafvirkjum. Þetta eru eftirsóttir starfskraftar. Það vantar alltaf rafvirkja alls staðar. Mjög auðvelt er að bæta við sig í námi og fara í tækninám ef rafvirkjar vilja læra meira. Þegar þú ert kominn með sveinsbréfið þá opnast einnig fleiri atvinnutækifæri fyrir þig ef þú vilt vinna erlendis. Allskonar möguleikar eru í boði. Svo geturðu tekið viðbótarnám til stúdentsprófs eftir rafvirkjann og þá ertu kominn með allt aðra möguleika á frekara námi “  segir Björgvin að lokum.

[email protected]



 

 

Alexandra Jónsdóttir

Matthías Þór Kristinsson og Maríus Máni Karlsson

Rúnar Bárður Kjartansson

Björgvin Jónsson