Alltaf mandla í eftirréttinum og verðlaun fyrir þann heppna
Hjálmar Hallgrímsson, lögregluvarðstjóri og bæjarfulltrúi í Grindavík, segir samhug þessarar þjóðar engu líkan þegar á reyni eftir þær hremmingar sem Grindvíkingar lentu í þann 10. nóvember. Hann vonast til að geta haldið upp á hátíðina heima með fjölskyldu og vinum eins og undanfarin jól.
Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Mjög gott framan af dóttir mín gifti sig í sumar og var það mikill ánægjudagur allrar fjölskyldunnar – en það sem stendur upp úr á árinu er rýmingin úr Grindavík þann 10. nóvember síðastliðinn. Mig grunaði ekki að við kæmust ekki heim til okkar fljótlega eftir rýmingu. Sjá á eftir fjölskyldu, vinum og öllum tvístrast um land allt, þó mest á suðvesturhornið. Mjög erfið staða og óvissa um hvenær verður hægt að komast heim en það góða í þessu ömurlega ástandi er samhugur þessarar þjóðar sem er engu líkur þegar á reynir. Allir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að aðstoða með húsnæði fyrir íbúa, húsnæði fyrir fyrirtæki og húsnæði fyrir stjórnsýslu Grindavíkurbæjar með allri sinni þörf. Allskonar aðstoð hefur boðist sem ég get seint talið upp hér.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, alveg þokkalega. Þetta er yfirleitt mjög skemmtilegur tími.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Í kringum 10. desember.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Svona um tíu ára aldur í Breiðholtinu með fjölskyldu. Á þeim árum var alvanalegt að kanna hvort bræður mínir tveir hafi nokkuð fengið stærri eða harðari pakka en ég.
En skemmtilegar jólahefðir?
Alltaf mandla í eftirréttinum á aðfangadag og verðlaun fyrir þann heppna.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Þorláksmessa hefur oft bjargað mér og opnunartími verslana til 13:00 þann 24. desember.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Jólaboð stórfjölskyldunnar er algjörlega ómissandi – þegar sá skoðanaglaði hópur hefur komið sér saman um hvort það verði haldið á jóladag eða annan í jólum.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Fékk gríðarlega flottan veiðigalla í fyrra sem ég var afskaplega ánægður með en man ekki mikið aftar.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Já, klárlega að geta haldið jólin heima eða í Suðurvör 14 í Grindavík með öllu mínu fólki.
Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?
Það sama og undanfarin ár það, er að segja hamborgarhryggur og léttreyktur lambahryggur enda ekki sá dagur sem er annálaður fyrir hollustu.
Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?
Vonandi það sama og undanfarin jól, að hitta fjölskyldu, vini og spila eins mikið og hægt er.