Alltaf í kröfugöngu á afmælisdaginn
Sigrún Björg Ásgeirsdóttir, starfsmaður hjá Skólamat á afmæli á verkalýðsdaginn
„Að sjálfsögðu fyrir mig og aðra því við þurfum sífellt að minna á baráttu verkalýðsins fyrir hærri launum. Auðvitað ætti maður að fara í baráttukaffið í Stapa 1. maí til dæmis og hlusta á ræðumenn því það kveikir í baráttuandanum í manni. Kröfugöngur eru löngu hættar hér suðurfrá en eru ennþá í Reykjavík. Það á að virða friðhelgi þessa dags sérstaklega. Ég hef til dæmis oft þurft að vinna þennan dag þegar ég var að vinna annars staðar en hér. Þetta á að vera frídagur verkafólks og það mætti alveg skerpa á því,“ segir Sigrún Björg Ásgeirsdóttir, starfsmaður hjá Skólamat í Reykjanesbæ.
Hvað finnst þér um verkalýðsforystuna á landsvísu?
„Ég er mjög ánægð með þá þróun sem er að gerast í dag. Svo á eftir að sjá hvernig nýr formaður á Suðurnesjum á eftir að standa sig. Það var löngu kominn tími á nýtt fólk í brúnni bæði hér og innfrá. Sólveig Jónsdóttir hjá Eflingu er ómenntuð, hún þekkir þessa baráttu okkar og lág laun af eigin raun. Ég er mjög bjartsýn og finnst þessir nýju kjarasamningar góð byrjun á framhaldinu.“
Áttu minningu um 1. maí?
„Ég fór alltaf í kröfugöngu þá sem krakki og var alltaf að vonast eftir því að fá að halda á kröfuspjaldi því ég á afmæli 1. maí. Það var flaggað út um allan bæ og ég hélt auðvitað sem barn að það væri út af mér. Ég man vel eftir Gvend Jaka, hvað það var mikil barátta á þessum árum og ekkert gefið eftir.“