Alltaf eitthvað fjör
Félag eldri borgara á Suðurnesjum 30 ára
Félag eldri borgara á Suðurnesjum, FEBS, fagnaði 30 ára afmæli á Nesvöllum síðasta föstudag. Húsfyllir var í veislunni þar sem boðið var til fjölbreyttrar skemmtidagskrár með söng og glens og þá fengu afmælisgestir rjómatertu og aðrar kaffiveitingar. Guðrún Eyjólfsdóttir er formaður félagsins og í viðtali við Víkurfréttir er hún fyrst spurð af því hvernig starfsemin gangi.
„Starfsemin gengur vel eins og sjá má á þessari afmælishátíð okkar og það er mikil ánægja með hana,“ segir Guðrún en í Félagi eldri borgara á Suðurnesjum eru tæplega 2.500 félagsmenn. Allir Suðurnesjamenn 60 ára og eldri eru gjaldgengir í félagsskapinn. Guðrún segir að alltaf sé að bætast í hópinn en núverandi félagar eru duglegir að vekja athygli á starfinu við fólk í sínu umhverfi.
Hvað eruð þið að gera í félaginu. Er verið að fara í ferðir og spila?
„Við erum með bingó einu sinni í viku og einnig bridds og félagsvist. Svo eru hérna gönguhópar og sundleikfimi. Svo förum við saman í leikhús og í ferðir. Við gistum jafnvel á hóteli uppi í sveit. Við erum nýlega komin úr gistingu á hóteli á Selfossi, sem var mjög skemmtileg og flott tveggja daga ferð. Það er alltaf verið að reyna að gera eitthvað skemmtilegt. Svo höfum við einnig þorrablót, árshátíð og ýmislegt svoleiðis.“
Er þátttakan hjá félagsmönnum góð?
„Já. Hún er mjög góð og það er eiginlega alveg sama hvað við gerum að það er mjög vel sótt.“
Er þessi félagslegi þáttur ykkur mikilvægur?
„Ég held það og sérstaklega nú eftir að Covid-faraldurinn gekk þá voru margir einmana og einir heima. Núna er það sem betur fer gengið yfir og kemur vonandi ekki aftur. Þá er fólk alveg tilbúið að koma og vera með okkur og vill hafa líf í kringum sig.“
Fannst þér Covid koma illa við marga úr hópi eldri borgara?
„Ég held það, frekar. Það kom líka illa við félagsstarfið hjá okkur. Við vorum búin að undirbúa ýmiskonar ferðir, svo sem í leikhús og margt sem við ætluðum að gera en svo var alltaf smellt í lás, þannig að við erum bara núna að byrja aftur af fullum krafti.“
Nú er félagið 30 ára, þannig að það sýnir að það hefur verið góð starfsemi fyrir eldri borgara á Suðurnesjum í áratugi.
„Já, Styrktarfélag aldraðra var forveri þessa félags og var stofnað 1975. Sá félagsskapur hófst í samstarfi við Gísla á Grund og það var upphafið að þessu. Styrktarfélagið var svo lagt niður og Félag eldri borgara á Suðurnesjum var stofnað.“
Og margir félagsmenn búa hér á Nesvöllum sem má segja að sé ykkar félagsmiðstöð.
„Já og það er gott fyrir þá sem eiga ekki auðvelt með að fara úr húsi eða gott með gang að koma hingað niður. Alla föstudaga eru Léttir föstudagar. Við erum með hljómsveit annan föstudaginn og þá eru spiluð og sungin ættjarðarlög og boðið upp á óskalög og við erum með söngbækur. Hinn föstudaginn sjá Hrafnista eða Reykjanesbær um skemmtiatriði. Það er alltaf eitthvað fjör hér alla föstudaga fyrir utan alla hina dagana líka.“
Sigurður Jónsson og Eyjólfur Eysteinsson eru báðir fyrrverandi formenn FEBS og tóku við blómum ásamt Ragnheiði Stefánsdóttur fyrir bónda sinn, Jón Sæmundsson, sem einnig er fyrrverandi formaður, og átti ekki heimangengt. Með þeim á myndinni er Guðrún Eyjólfsdóttir núverandi formaður FEBS.
Nú er bjart framundan
Sigurður Jónsson, fv. bæjarstjóri í Garði, var um tíma formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum. Hann var mættur í afmælisfagnaðinn á Nesvöllum. „Þetta hefur verið öflugur félagsskapur og félagið á Suðurnesjum er það næststærsta á landinu með mjög öflugt starf,“ segir Sigurður í samtali við Víkurfréttir.
Þú hefur tjáð þig reglulega um stöðu eldri borgara. Hefur þú áhyggjur af henni?
„Já, vissulega. Ég segi að stærsti hluti eldri borgara hefur það alveg ágætt en það er hluti af eldri borgurum sem er í neðsta þrepinu og þeir hafa það mjög slæmt. Ég hef haft áhyggjur af því að stjórnvöld hafa ekki viljað gera neitt fyrir þennan hóp. Það er hægt að laga kjörin og við höfum bent á það með því t.d. að hækka svokallað frítekjumark á lífeyrissjóðstekjum. Það er alveg skömm að það er verið að refsa þér ef þú ert með 25.000 krónur eða meira þá færðu 45% skerðingu á öllu umfram það, sem þýðir að þú heldur eftir um 20 krónum af hverjum 100 krónum. Það eiga allir að sjá að þetta gengur ekki. Ég segi líka á móti að það er óþarfi að ríkisvaldið sé að borga fólki sem hefur milljón eða meira á mánuði. Í því liggur munurinn en því miður og ég segi það sem góður og gegn sjálfstæðismaður að ég er óhress með mína menn að hafa ekki viljað hlusta á aðra í þessu efni“.
Ertu duglegar að sækja samkomur og viðburði hjá félaginu?
„Já, ég hef verið það í gegnum tíðina. Nú fer að rætast úr eftir Covid-ástandið. Nú verður fjör aftur. Ég held að fólki sé létt því að margir sem búa einir og þetta hefur verið skelfilega erfitt ástand fyrir þá en nú er bjart framundan.“
Hér að neðan má sjá myndaaseríu og sjónvarpsinnslag úr afmælinu.
Félagskonum í Félagi eldri borgara á Suðurnesjum er margt til lista lagt. Þær settu upp tískusýningu á afmælishátíðinni þar sem hausttískan frá versluninni Kóda í Keflavík var sýnd. Hér að neðan má sjá hópinn sem tók þátt í sýningunni.