Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Allt samfélagið nýtur góðs af höfninni
Sigurður Arnar Kristmundsson.
Fimmtudagur 12. júní 2014 kl. 09:32

Allt samfélagið nýtur góðs af höfninni

Metnaður í stefnumótunarvinnu í Grindavíkurhöfn.

Sigurður Arnar Kristmundsson er með skipstjórnarpróf og tók við sem hafnarstjóri Grindavíkurhafnar fyrir tæpum þremur árum. Hann segist hafa tekið við góðu búi og finnst samskipti og stefnumótun það skemmtilegasta við starfið. Hann vill bæta orðspor innsiglingarinnar, bæta öryggi og veita framúrskarandi þjónustu.  

Gjörbreytt innsigling
Varnargarðarnir í innsiglingunni sem settir voru árið 2000 eru að magninu til 200 þúsund rúmmetrar. Áður þurfti að sigla í krókaleið inn til hafnar en svo var ákveðið að gera skurð í gegnum boðann til að hægt yrði að sigla beint inn. „Þetta skiptir miklu máli þegar það er suðvestan- eða sunnanalda. Jafn mikið var sprengt upp úr botninum og settu út á haf eins og er sýnilegt af hafnargarðinum. Þetta eru okkar jarðgöng og mikil fjárfesting,“ segir Sigurður og bætir við að Grindavík væri sjálfsagt ekki það sem hún er í dag ef þetta hefði ekki verið gert. „Þetta er sennilega mikilvægasta ákvörðun sem tekin hefur verið hér.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavíkurhöfn á fyrri hluta síðustu aldar.

Örugg höfn og góð þjónusta
Síðasta verk tengt innsiglingunni fór fram fyrra þegar innri siglingarennan var breikkuð til þess að auka öryggi. „Það var hluti niðurstöðu stefnumótunarvinnu sem við höfum verið í. Kjörorðin eru „Örugg höfn, góð þjónusta“. Við leitumst við að bæta sífellt öryggi og bjóða upp á framúrskarandi þjónustu,“ segir Sigurður. Alltaf komi upp aðstæður sem séu varhugaverðar. Ekki sé hægt að horfa fram hjá því. „Við höfum útbúið verkferla sem unnið er út frá. Ef það er t.d. ákveðinn vindhraði og ölduhæð þá mælumst við til þess að skip séu ekki að koma en skipstjórarnir sem hafa reynslu af innsiglingu og höfn ráða því samt. Nokkurs konar áhættustýring.“

Grindavíkurhöfn á okkar dögum. A

Vilja tekjur á móti kostnaði
Eins og áður hefur komið fram er Sigurður skipstjóri að mennt. Hann starfaði um tíma sem stýrimaður á loðnuskipum og erlendis á fraktskipum og olíuskipum. „Ég hef reynslu af ólíkum skipum sem er ágætt í þessu starfi þegar maður er að lóðsa inn. Svo starfaði ég hér sem hafnarvörður og hafnsögumaður fyrir tíu árum. Fór svo í starf sem umboðsmaður N1 og svo kom ég hingað.“ Fljótlega eftir að Sigurður tók fór við starfi hafnarstjóra ákvað hafnarstjórn að setja fram metnaðarfulla stefnumótun  þar sem kallaðir voru til hagsmunaaðilar í samfélaginu. Menn veltu fyrir sér hvernig þeir vildu sjá höfnina þróast. „Við viljum líka vera dálítið sjálfbær. Einn metri í bryggjukant kostar 4-6 milljónir og við erum með 1100 metra af honum. Á bryggjunni er Miðgarður sem er um 250 metrar og kominn á tíma; hann er að tærast upp og ryðga. Við viljum fá ríkið til að hjálpa okkur aðeins meira því gjaldeyristekjur sem verða til hérna eru um 20 milljarðar á ári. Við fáum ekki nema 1% af því en þurfum samt leggja til kostnað. Fáum ekki að njóta teknanna á móti,“ segir Sigurður.

Stór sjávarútvegssýning í haust
Sigurður segir að orðsporið sem fari af innsiglingunni í Grindavík sé í raun verra en staðan á henni í raun. „Við viljum bæta orðsporið og laða til okkar skip annars staðar frá til löndunar og fá þannig tekjur inn. Það skilar sér líka til samfélagsins í heild.“ Til þess þurfi auglýsinga- og markaðsstarfsemi. Stór sjávarútvegssýning verður í haust þar sem Grindavíkurbær mun vera með 84 fm bás í samvinnu við fyrirtæki og þjónustuaðila í bænum. „Það er ekki bara höfnin sem nýtur góðs af því þegar skip landa hér. Það eru allir sem þjónusta sjávarútveginn. Þegar við fórum af stað með þetta hoppuðu allir hagsmunaaðilar á það. Ótrúlega góð bviðbrögð. Við erum í raun búin að teygja þetta í allt mögulegt,líka ferðaþjónustuna.“ Sigurður vonar að sýningin veki fólk kannski til umhugsunar. Það sé ekki bara framleiðsla ein og sér sem búi til einhverja vöru. Svo margt þurfi að tengjast og ganga upp. „Menn eru með ótrúlegustu hugmyndir um hvernig básinn en það verður erfitt en áskorun að koma því öllu fyrir. Í þessum hópi eru m.a. tvær veiðarfæragerðir, Vélsmiðjan, Codland, Fisktækniskólinn, Bláa lónið og Hópsnes. Flestir sem koma að þjónustu við skip og sjávarútvegsfyrirtæki,“ segir Sigurður.   

Tekur við mjög góðu búi
Þegar Sigurður tók við starfinu segist hann hafa verið dálítið smeykur um að vera alltaf í símanum. „Eftir því sem tíminn hefur liðið er ég farinn að setja meira mark á starfið. Hér er gott starfsfólk, góð starfsstöð og góður starfsandi. Ég tek við mjög góðu búi. Stundum verður maður kvíðinn en verður að muna að maður er ekki einn.“ Þá segist hann vera draumóramaður og bollaleggi hvert hann vilji stefna til margra ára. Einnig sé hann keppnismaður sem vilji alltaf gera aðeins betur. „Það skemmtilegasta við starfið er samskipti við viðskiptavini, skiptstjóra og útgerðarmenn. Við hittum alla hagsmunaaðila í á hverju ári og mótum stefnu saman á mjög skemmtilegum fundum. Þar er frjór vettvangur fyrir hugmyndir,“ segir Sigurður að lokum.

VF/Olga Björt